Einar Kárason rithöfundur sendir frá sér óvenjulega bók í ár. Um er að ræða skáldsögu sem byggir greinilega á ævi heimsmeistarans í skák Bobby Fischers, en þó er ekki rakið lífshlaup hans nema upp að því marki sem höfundur telur skipta máli til að varpa ljósi í óvenjulegt sálarlíf þessa snillings sem var sjálfum sér verstur. Slíkir menn eru alltaf áhugaverðir og heimsmeistarinn hefur lengi leitað á huga rithöfundarins.
Hvers vegna fannst þér spennandi að skrifa um Bobby Fischer?
„Mér hefur fundist hann spennandi frá því að ég var krakki,“ segir Einar. „Ég hafði mikinn áhuga á skák og lærði hana. Maður fylgdist með Friðriki Ólafssyni og Reykjavíkurmótinu þegar Mikhail Tal kom hingað og svo vissi maður um þetta undrabarn og snilling, þennan skrýtna mann. Hann var stundum á góðri leið með að vinna skákmót og titla en lét sig þá hverfa, fór í fússi. Hann átti í deilum við sovésku skákmafíuna en svo verður þessi stóri viðburður 1972 þegar hann loksins teflir heimsmeistaraeinvígi hér í Reykjavík. Ég var sextán ára og svolítill nörd. Ég og vinur minn, Halldór Guðmundsson, vorum nýfluttir í nýtt hverfi og þekktum engan nema hvorn annan því við vorum bekkjarbræður, urðum helteknir af þessu.
Eftir þetta hverfur Robert James Fischer af sjónarsviðinu og lítið heyrist um hann í tuttugu ár en þá birtist hann aftur. Mér fannst þetta alltaf spennandi saga og spennandi maður. Ég man að þegar hann var kominn í fangelsi í Japan var Sigurður G. Tómasson að vinna á einhverri útvarpsstöðinni og tók við hann viðtöl í gegnum síma. Það var rosalega intresant að hlusta á þetta. Maður fann hvað hann var rosalega klár og vel lesinn en skoðanirnar margar mjög á mörkunum.“
Ekki „streetwise“
Hann virðist einnig hafa átt erfitt með tengja saman orsök og afleiðingu. Hann telur sig hafa verið miklum órétti beittur.
„Hann var það að vissu leyti. Ameríkanar eiga hugtakið „streetwise“ yfir eiginleika sem ekki verður beint mældur á gáfnaprófum en lýsir mönnum sem kunna fótum sínum forráð í samskiptum við aðra, en Bobby var afburðagáfaður og hafði þó ekkert til að bera sem fellur undir þetta hugtak. Hann kunni ekki að umgangast fólk. Mér fannst það ekki hvað síst spennandi.
Ég þekkti suma af þeim sem voru í Robert James Fischer-nefndinni. Móðurbróðir minn Einar S. Einarsson bankamaður var formaður hennar svo maður heyrði af honum þegar hann var kominn hingað. Ég sá hann líka í bænum og svona og heilsaði honum einu sinni, við tókumst í hendur. Ég fylgdi því sem ég vissi um hann og hef lesið um hann margar bækur, meðal annars fáheyrða bók eftir frægan sálfræðiprófessor sem skrifaði „psyshcobiography“ eða sálævisögu Fischers þar sem hann var að reyna að átta sig á manninum. Þó að maður fylgi því sem gerðist í raunveruleikanum er þetta skáldsaga vegna þess að ég er að reyna að stúdera þankaganginn og það er náttúrulega bara ágiskun.“
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem þú tekst á við fremur hornótta karaktera. Sturlungar voru svo sem ekki allir lyndisprúðir og rákust ekki vel í hópi.
„Já, ég gerði þetta mikið þar,“ segir Einar. „Ég hafði umgjörðina úr Sturlungu þar sem öllu er lýst utan frá, en ég reyndi að fara inn í hug fólks. Mér fannst það svo mikil ögrun að skoða þetta úr hinni áttinni. Þess vegna hafði ég þetta allt í fyrstu persónu.“
Fékk innblástur frá austurískum höfundum
Það má þá segja að þú hafir reynt þig við „psyschobiographies“ í þeim tilfellum.
„Jú, jú, en ég velti mikið fyrir mér hvaða tökum ég ætti að taka þetta efni. Ég var búinn að hugsa um þetta lengi. Svo fór ég að lesa austurískan höfund sem hét Thomas Bernhard. Hann var ekkert rosalega þekktur alþjóðlega meðan hann lifði en eftir því sem á hefur liðið hefur hann orðið stærra og stærra nafn í heimsbókmenntum. Hann dó árið 1989 og hefur verið gefinn út og þýddur á mörg tungumál. Ein bók hefur komið út eftir hann á íslensku, Steinsteypa, og önnur er væntanleg, Trjáfellingar. Hann var mjög mónómanískur sjálfur sem persónu og fullur af einstrengingslegum hugmyndum. Hann var Austuríkismaður en hataði Austuríki og landa sína.
Bækur hans eru fullar af níði um þá en hann skrifaði mikið um snillinga sem eru búnir að mála sig út í horn. Oft er um að ræða roskna tónlistarmenn, heimspekinga eða rithöfunda sem einhvern veginn hafa ekki kunnað að fóta sig. Þegar ég las hann þá fékk ég hugmyndina að því hvernig ég myndi taka þetta. Þessi aðferð að vera helst ekki með greinaskil og svo framvegis. Það er hluti af þessari hröðu hugsun og tengingum sem þessir menn hafa. Þeir eru ekkert að stoppa og velta fyrir sér: er þetta rétt hjá mér? Sú hugsun er ekki til.
Svo er önnur saga eftir austurískan höfund sem ég hef lengi verið rosalega upptekinn af og það er Manntafl eftir Stefan Zweig. Ég las hana í þýðingu Þórarins Guðmundssonar sama ár og heimsmeistaraeinvígið var hér heima og hún varð mér einhvers konar innblástur.“
Kunni ekki að bregðast við handtöku
Eiginlega er ekki hægt annað en að fyllast sorg yfir hvernig líf þessa manns fór. Hann er afburðagreindur, hefur þessa snilligáfu en ráfar meirihluta ævinnar einn um heiminn og hæfileikar hans koma honum aldrei að neinum notum.
„Einmitt og þegar hann er búinn að vinna heimsmeistaratitilinn hér taka við tuttugu ár af rugli. Hann tengist einhverjum sértrúarsöfnuði, var alltaf upptekinn af því að láta ekki hlunnfara sig, en lætur eitthvert, hálfgert Waco-lið spila með sig. Hann tapar eiginlega mestöllu sem hann hafði eignast og var að verða eins og nokkurs konar útigangsmaður. Svo komst ég í bækling sem hann hafði sjálfur skrifað um það þegar hann var handtekinn í Pasadena og ég vitna í það. Hann var þar á gangi í einhverjum druslum, síðskeggjaður og það stemmdi við lýsingu á manni sem hafði framið bankarán. Hann er tekinn inn í lögreglubíl og það verður til þess að honum er haldið þótt fljótt komi í ljós að hann tengdist þessu ekki. Hann kunni ekki að bregðast við þessu. Honum var haldið í tvo sólarhringa og það varð honum svakaleg kvöl. Þegar hann fær svo að vita að hans bíði tíu til fimmtán ára fangelsi í Bandaríkjunum ef hann snúi þangað aftur þá hafði hann prófað það í tvo daga og vildi ekki meira af slíku.“
Meðan á heimsmeistaraeinvíginu stóð sýndi hann líka af sér ýmsa skrýtna hegðun. Hann mætir seint og illa, menn voru lengi ekki vissir um að hann kæmi og fleira.
„Já og svo byrjar hann eiginlega ekki fyrr en hann er kominn tvö núll undir,“ segir Einar og það er aðdáunartónn í röddinni. „Í fyrstu skákinni truflaði hann suðið í tökuvélum. Hann hafði þessa ofurnæmu skynjun og heyrn og það var búið að stilla upp tökuvélum sem enginn heyrði neitt í en hann heyrði eitthvert suð. Hann gat ekki einbeitt sér og tapaði skákinni og mætti ekki í næstu. Það stendur því tvö núll þegar hann byrjar. Það hefði getað dugað sovéska heimsmeistaranum til að klára þetta bara með jafnteflum en Bobby Fischer vinnur flestar af næstu tíu.“
Ekki eins og fólk er flest
En var hann ekki bara búinn að setja Boris Spasskí svolítið út af laginu með þessari hegðun?
„Sumir hafa talið það en Bobby var bara langbestur. Hann var búinn að rúlla upp allri skákelítunni með slíkum yfirburðum að annað eins hafði aldrei sést. Hann tók tvö einvígi við menn úr topp tíu og vann þá sex núll í sex skákum. Svo vann hann Petrosian sem var heimsmeistari á undan Spasskí en sá var maður sem var frægur fyrir að tapa aldrei en vann nógu oft. Þetta var svona jafntefliskóngur. Fischer rúllaði honum upp.“
Finnst þér hann ekki svolítið gleymdur, miðað við hversu stórt nafn hann var og þann árangur sem hann náði? Það er varla minnst á hann núorðið.
„Það gæti verið, en á síðasta ári voru fimmtíu ár frá einvíginu og það var mikið gert með það víða. Mörg blöð og miðlar fjölluðu um það. Hann var ekki eins og fólk er flest. Mér dettur alltaf í hug þegar sá frasi kemur upp að Árni Johnsen tók viðtal við Gísla á Uppsölum. Það var eitt fyrsta viðtalið sem tekið var við hann. Eftir að Árni hafði talað við hann fór Gísli daginn eftir til nágranna síns, Ólafs Hannibalssonar, og sagði við hann: „Það kom til mín maður sem var nú ekki alveg eins og fólk er flest.“ Það má segja að bragð er að þá barnið finnur,“ segir Einar brosandi að lokum en bók hans Heimsmeistari segir sögu manns sem sannarlega batt ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamenn og þegar á allt er litið eru líklega fáir eins og fólk er flest.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.