Tengdar greinar

Barnfóstran sem gjálífi lávarðurinn myrti

Það varð uppi fótur og fit í bresku samfélagi þegar fréttir bárust af því Lucan lávarður hafi myrt barnfóstru fjölskyldu sinnar í Belgravia-hverfinu í London. Ekki var nóg með að þetta væri eitt af fínustu hverfum borgarinnar og morðinginn af virtri aðalsætt heldur hafði hann ráðist á eiginkonu sína líka, reynt að drepa hana og horfið í kjölfarið. Frá því 8. nóvember 1974 hefur ekkert til Johns Bingham, lávarðar af Lucan spurst og dánarvottorð var gefið út 3. febrúar 2016. Nýlega sýndi BBC hins vegar heimildamynd um málið með áherslu á persónu Söndru Rivett, konunnar sem hann myrti en hún hefur hingað til vart verið nefnd í tengslum við þetta fræga mál. Áherslan hefur ævinlega verið á Lucan og konu hans Veronicu.

Lord Lucan var glæsilegur maður. Meira en 190 cm á hæð og vakti athygli hvar sem hann fór. Veronica var hins vegar lítil og fíngerð.

Kannski er það eðlilegt að við höfum ávallt meiri áhuga á þeim ríku og frægu en hversdagsfólkinu sem vinnur fyrir það. Sandra Rivett var auk þess einstaklega óheppin því Lucan ætlaði að drepa konu sína en réðst þess í stað á barnfóstruna sem var að hita sér te í kjallara hússins. Hún átti að eiga fríkvöld þennan dag og hann átti alls ekki von á henni heima. Skömmu fyrir atburðinn hafði hann spurt börn sín út í venjur barnfóstrunnar en þau hjónin voru skilin. Lucan var alls ekki sáttur við að konu hans hafði verið dæmd forsjá barnanna og hann hafði gert allt hvað hann gat til að sverta hana í augum dómaranna. Auk þess skorti hann fé og kona hans bjó í húsinu við Belgravia-torg, en hann sjálfur í lítilli íbúð skammt frá. Svona var málum sem sé komið þegar hann réðst til atlögu, laumaðist inn á sitt gamla heimili og beið færis í kjallaranum þar sem eldhúsið var.

John Bingham sjöundi lávarður af Lucan var áberandi fígúra í breskum fjölmiðlum á áttunda áratug síðustu aldar. Hann var myndarlegur maður, af háaðlinum og duglegur að skemmta sér. Hann var fjárhættuspilari og oft birtust myndir af honum við spilaborðið. Um tíma var hann í umræðunni þegar leitað var að manni til að leika hlutverk James Bond, enda þótti hann hafa allt til að bera sem þyrfti í það hlutverk. Hann var giftist Veronicu Duncan, dóttur virts hershöfðingja og fyrrum fyrirsætu. Hjónabandið var langt frá því að vera hamingjusamt enda John ofbeldismaður sem hafði gaman að berja konu sína með staf áður en hann naut samlífs með henni. Hún opnaði sig um þetta við dómara þegar hún krafðist skilnaðar frá manni sínum og það fór ekki vel í lávarðinn að það sem hann taldi einkamál sitt hefði þannig verið gert opinbert. Allir eru hins vegar sammála um börnin hans voru honum mjög mikilvæg og hann tók ákaflega nærri sér að henni var dæmd forsjá þeirra fyrir dómstólum. Hann sýndi þeim ævinlega mikla blíðu og umhyggju.

Sandra Rivett var að sögn þeirra sem þekktu hana glaðlynd og góð manneskja.

Átti tvo drengi 

Sandra Rivett var tuttugu níu ára þegar hún var myrt. Hún átti tvö börn en hafði þurft að gefa þau bæði frá sér. Eldri drengurinn fæddist þegar hún var aðeins sautján ára og honum var komið fyrir hjá systur hennar en sá yngri kom í heiminn þegar Sandra var tuttugu og eins árs. Þá var hún nýskilin við fyrri mann sinn og treysti sér einfaldlega ekki til að standa ein og ala upp barn. Atvinnumöguleikar voru ekki margir á þessum árum fyrir lítið menntaðar konur og dagvistun fyrir börn dýr. Hún gaf því drenginn til ættleiðingar. Sandra hætti í skóla aðeins fjórtán ára. Hún fann sig ekki í námi en fjölskyldan hafði flutt til Ástralíu þegar hún var tveggja ára og heim aftur þegar hún var tíu ára. Sandra saknaði alla tíð Ástralíu og dreymdi um að flytja þangað aftur. Hún lærði að vélrita og starfaði um tíma sem einkaritari en einnig við önnur störf. Eitt af skilyrðum þess að Veronica Lucan fengi forsjá barna sinna var að hún réði barnfóstru sem byggi í húsinu og þær höfðu verið nokkrar áður en Sandra kom. Kaupið var ekki hátt en á móti kom að barnfóstran fékk frítt fæði og húsnæði hjá fjölskyldunni. Að sögn þeirra sem þekktu hana var Sandra greind og skemmtileg kona. Hún var full af lífsþorsta og mjög barngóð. Lucan börnunum líkaði mjög vel við hana.

Hjónaband Lucan lávaraðar og Veronicu var ekki hamingjusamt.

Allt bendir til að Veronicu og Söndru hafi komið vel saman. Þær voru á svipuðum aldri og höfðu báðar sára reynslu að baki í samskiptum við karlmenn. En kvöldið örlagaríka hætti Sandra við að fara út með kærasta sínum og bað um að fá að taka frí kvöldið eftir. Sú ákvörðun kostaði hana lífið. Lucan réðst á Veronicu líka en hún slapp stórslösuð og gat hlaupið alblóðug inn á næstu krá og kallað á hjálp. Kenning lögreglunnar var sú að lávarðurinn hafi komið heim, ætlað að drepa konu sína, enda hafði hann marghótað því og lýst hatri sínu á henni, rekist á barnfóstruna og haldið að þar væri fyrrverandi kona hans komin. Of seint hafi hann áttað sig á mistökunum og þá ráðist á Veronicu en hún komist undan. Hún sagði síðar í viðtali að hún hefði grátbeðið hann að þyrma lífi sínu. Henni tókst með einhverju móti að tala hann niður og fá hann með sér upp á efri hæð hússins til að þrífa af sér blóðið. Þegar hann fór inn á baðherbergi til þess tókst henni að komast að dyrunum og út. Enginn getur þó fullyrt með nokkurri vissu hvað gerðist þetta kvöld því lávarðurinn hvarf og aldrei hefur fundist tangur né tetur af honum síðan.

Málið vakti gríðarlega athygli í Bretlandi. Lucan lávarður var óvenjulega hávaxinn, yfir 190 cm, með áberandi yfirskegg og ákaflega glæsilegur maður. Að auki höfðu svo margar myndir birst af honum í gegnum tíðina að ólíklegt var að ef almenningur sæi hann á ferli að hann gæti farið um án þess að þekkjast. Margar kenningar eru um hvað varð um hann og ein er sú að hann hafi drekkt sér í Newhaven-höfn eftir að hann gerði sér grein fyrir glæp sínum. Önnur snýst um að hann hafi lagt á flótta til Afríku, hafi lifað þar góðu lífi til ársins 2000 og sú þriðja að vinir hans hafi talið hann á að fremja sjálfsmorð til að hlífa fjölskyldunni við hneyksli og lík hans hafi síðan verið bútað niður og gefið tígrisdýrum í einkadýragarði í Kent. Fremur langsótt kenning en engu að síður sú sem samsæriskenninganördar hafa mest gaman af að færa rök fyrir. Fjölskyldan naut lítillar hamingju eftir þessa atburði. Veronica var háð þunglyndislyfjum og börn hennr voru tekin af henni og komið fyrir hjá systur hennar Christine. Þau töluðu ekki við móður sína í þrjátíu og fimm ár og tvö þeirra telja enn í dag að faðir þeirra hafi verið saklaus af morðinu. Einhver annar hafi ráðist inn í húsið þetta kvöld og drepið Söndru. Veronica Lucan fannst látin á heimili sínu í september 2017. Hún hafði tekið of stóran skammt af lyfjum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 8, 2024 07:00