Besta lífeyriskerfi í heimi

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman skrifar

Fjallað var um samanburð lífeyriskerfa á Íslandi, Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð á morgunverðarfundi sem Landsamtök lífeyrissjóða stóðu fyrir 7 mars s.l.

Stefán Halldórsson kynnti nýja greinargerð starfshóps um samanburð lífeyriskerfa í fimm ríkjum.

Benedikt Jóhannesson fjármála-og efnahagsráðherra fjallaði um niðurstöðu starfshópsins og sagði að sér kæmi ekki að óvart að þar kæmi Ísland einna best út.

Skoðum aðeins nánar hvernig þessi góða staða Íslands er fundin út. Það er gert með því að blanda saman niðurstöðu á greiðslu eftirlauna út lífeyrissjóðum  á almenna markaðinum og lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins LSR. Félagar í LSR fá greitt 76%  af síðustu launum og eru launin verðtryggð.

Við í almenna lífeyrissjóðskerfinu sem höfum greitt í sjóðina í 40 ár eða lengur fáum 56% af meðal ævitekjum sem er ca. 38% af síðustu launagreiðslu. Þessar greiðslur skerða sjóðirnir að eigin geðþótta eftir því hversu miklum peningum þeir hafa tapað í  áhættufjárfestingum.

Síðan eru launatekjur á eftirlaunaaldri teknar með, en við vinnum lengst fram eftir aldri af öllum þessum þjóðum.
Hér koma nokkrar tölur úr skýrslunni.

Útgjöld hins opinbera (TR) vegna ellilífeyris eru hér bara 2% af vergri landsframleiðslu, en þau eru frá 5,3% í Hollandi upp í 8% í Danmörku – fjórum sinnum meiri.
Samanlögð útgjöld vegna lífeyris, þ.e. frá hinu opinbera og frá lífeyrissjóðum, eru hér á landi 5,3% af VLF en næstum helmingi hærri eða um 10% í öllum hinum samanburðarlöndunum; Hollandi, Bretlandi Danmörku og Svíþjóð.

Staðreyndin er, að við sem fáum greidd eftirlaun úr almenna lífeyrissjóðskerfinu getum að hámarki fengið greitt á mánuði út lífeyrissjóð og TR 285,000 krónur eftir skatt, þó þar kunni að vera einstaka undantekning á.

Þessi samanburður er góðra gjalda verður sé til framtíðar litið, en á ekki við okkur sem komin erum á eftirlaun í dag og þeirra sem fara á eftirlaun á næstu 10-15 árum.

 

 

 

Wilhelm Wessman mars 10, 2017 11:26