Vorum við blekkt til að greiða í lífeyrissjóði?

Wilhelm Wessman

 

Wilhelm W.G. Wessman eldri borgari skrifar

 

Þegar menn komast á eftirlaun, sjá þeir yfirleitt svart á hvítu, hverju greiðslur þeirra í lífeyrissjóði  í gegnum tíðina hafa skilað þeim. Oftar en ekki er það ekkert sérstaklega mikið  því að eftirlaun ríkisins eru lækkuð á móti því sem þeir fá úr lífeyrissjóðnum og þannig er mörgum er haldið í fátæktargildru þegar eftirlaunatíminn rennur upp. Það var þó ekki meiningin samanber þessi klausa sem var skrifuð af Jóni Maríassyni formanni Félags framleiðslumanna, í desemberblað félagsins árið 1968. Hann sagði:

En það er einmitt á meðan menn eru ungir og hraustir og geta unnið og hafa vinnu að þeir eiga að leggja til hliðar vissa upphæð til elliáranna svo að þeir gera lifað mannsæmandi  lífi og áhyggju litlu. Það er einmitt slíkur sjóður ( hér er átt við lífeyrissjóðina innskot  höfundar), sem skapar þann möguleika.

Textinn hér fyrir neðan er tekinn af vefnum Lifeyrismal.is í síðustu viku.

Lífeyrissjóðurinn er einnig bakhjarlinn þinn þegar þú hættir að vinna og ætlar að nýta tímann vel til að sinna áhugamálum, barnabörnum og öðru sem þig langaði alltaf til að hafa tíma til að gera.

Þýða þessar tvær tilvitnanir ekki það sama og gætu þær ekki báðar verið skrifaðar í dag til að lýsa ávinningi þess að greiða í lífeyrissjóð? Fyrir mér er það svo.

En hafa lífeyrissjóðirnir staðið undir þeim væntingum sem við, sem hófum að greiða í þá 1968, gerðum til þeirra og geta þeir sem eru á vinnumarkaði í dag treyst því að þeir standi við loforðin sem þeir gefa í dag. Mín skoðun er að svo sé ekki. Skoðum aðeins fimmtíu ára sögu sjóðanna og hverju þeir hafa  breytt fyrir okkur sem fáum  greidd eftirlaun í dag. Ég neita að kalla greiðslur frá TR og lífeyrissjóðum ellilífeyri eða bætur, þetta er ekki „ölmusa“ frá ríkinu til eldri borgara heldur áunnin réttindi. Ríkið hefur óhindrað hrifsað til sín með skerðingum stærsta hluta þess sem við fáum greitt úr sjóðunum, ég segi óhindrað, því að stéttarfélögin sem stofnuðu sjóðina hafa ekkert gert til að verja hagsmuni okkar. Það er fyrst núna á síðustu mánuðum að Landsamband lífeyrissjóða lætur heyra í sér og segir að skerðingar séu orðnar alltof miklar.

Er það eðlilegt að eftir að hafa greitt í lífeyrissjóð í 45 ár, að þá sé samanlögð mánaðargreiðsla frá TR og LVR um 295,000  krónur eftir skatt?

Hvað er til ráða? Lífeyrissjóðirnir verða að sanna  að þeir standi vörð um lífeyriseign sjóðsfélaga og séu tilbúnir til að fara í málaferli við ríkið með eldriborgurum til að hemja þá takmarkalausu græðgi ríkisvaldsins, að seilast alltaf dýpra og dýpra í vasa okkar eldriborgara með skerðingum.

Í dag eru lífeyrissjóðirnir ekkert nema dulbúinn skattstofn fyrir ríkið, en þeir eiga ekki að taka þátt í þeim leik ríkisins að ræna eldri borgara ævisparnaðinum.

Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir sem viðbót við greiðslur frá TR og hvorki ríkið né atvinnurekendur eiga þá, heldur sjóðsfélagar. Þeir eru þeirra laun.

Sjóðirnir tala mikið um eigið ágæti í auglýsingum og annarri umræðu í fjölmiðlum þessa dagana, enn minnast ekki á hvernig þeir ætla að standa vörð um að ríkið ræni ekki greiðslum sjóðsfélaga þegar kemur að töku eftirlauna, eins og gert er við okkur sem komin erum á eftirlaun í dag. Þetta er það sem fólk á vinnumarkaðnum, sem nú greiðir í sjóðina, vill vita.

 

 

Wilhelm Wessman júlí 16, 2018 09:18