Bið eftir nýjum mjaðma- og hnéliðum styttist

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra undirritaði í dag samninga við fjórar heilbrigðisstofnanir um þátttöku þeirra í skipulögðu átaki til að stytta bið sjúklinga eftir tilteknum brýnum aðgerðum. Áformað er að verja 1663 m.kr. til þessa verkefnis á árunum 2016 – 2018, þar af um helming fjárins á þessu ári.

Árið 2016 verður ráðist í að stytta til muna bið fólks eftir liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum: „Við stígum hér enn eitt stórt skref sem miðar að því að bæta þjónustu við sjúklinga, auka lífsgæði fólks og styrkja heilbrigðiskerfið“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. „Nú tökumst við á við biðlistana með það að markmiði að hámarksbið eftir aðgerð verði ekki lengri en 90 dagar.“

Bið sjúklinga eftir aðgerðum lengdist verulega í fyrravetur meðan á verkföllum heilbrigðisstarfsfólks stóð, segir í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðherra. Á grundvelli upplýsinga frá Embætti landlæknis um fjölgun á biðlistum lagði heilbrigðisráðherra fyrir ríkisstjórn áætlun um aðgerðir til úrbóta. Byggt var á tillögum landlæknis þar sem horft var til biðtíma og áhættu sem leiðir af bið eftir aðgerð. Niðurstaðan varð sú að ráðast í aðgerðir til að stytta bið eftir augasteinsaðgerðum, gerviliðaaðgerðum á hné og á mjöðm og hjartaþræðingu.

Ríkisstjórnin samþykkti tillögu ráðherra og miðast þau áform við að verja 1,663 milljónum króna á árunum 2016 – 2018 til að stytta bið eftir aðgerðum. Meiri  hluti fjárins verður nýttur á þessu ári. Markmiðið er að í lok átaksins þurfi sjúklingar ekki að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Samningarnir eru við Landspítalann (LSH), Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk), Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVe) og fyrirtækið Sjónlag hf. Í þeim felst að sérstaklega hefur verið samið um fjármuni til að framkvæma tilteknar aðgerðir umfram það sem stofnanirnar höfðu ráðgert miðað við rekstrarfé af fjárlögum eins og hér segir:

Liðskiptaaðgerðum fjölgað um 530

Á grundvelli fjárlaga áætla LSH, SAk og HVe að framkvæma 1.010 liðskiptaaðgerðir (hné og mjaðmir) á þessu ári. Með átakinu bætast við 530 aðgerðir (52% aukning). Nú bíða 1.336 sjúklingar eftir liðskiptaaðgerð.

Augasteinsaðgerðum fjölgað um 2.890

Á grundvelli fastra fjárveitinga til stofnana ríkisins er áætlað að framkvæma 1.020 augasteinsaðgerðir á LSH og SAk, auk 800 aðgerða á ári samkvæmt samningum við einkaaðila. Með átakinu sem samningarnir taka til bætast við 2.890 aðgerðir (159% aukning). Samkvæmt nýjustu upplýsingum bíða nú 3.839 eftir augasteinsaðgerð.

Hjartaþræðingum fjölgað um 50

Á grundvelli fjárlaga er áætlað að framkvæma 1.725 hjartaþræðingar á Landspítala en með átakinu verður þeim fjölgað um 50 (3% aukning). Landspítalanum hefur tekist að stytta verulega bið eftir hjartaþræðingu á síðustu misserum. Í október 2014 biðu 274 eftir aðgerð,  171 í október 2015, en á biðlista í janúar sl. voru 92 einstaklingar. Ljóst er að með þessu átaki mun á þessu ári takast að tryggja öllum sjúklingum sem bíða eftir hjartaþræðingu aðgerð innan þriggja mánaða.

 

 

Ritstjórn mars 21, 2016 18:12