Bók sem þú verður að lesa

Það væri fróðlegt að vita hversu margir íslendingar eru í bókaklúbbum, en Lifðu núna veit um nokkra bókaklúbba sem hafa jafnvel starfað árum saman. Þetta eru allt kvennaklúbbar og engu líkara en bókaklúbbar hafi í einhverjum mæli tekið við af hinum hefðbundna saumaklúbbi. Þórdís Þórisdóttir sem hefur verið í bókaklúbbi í 15 eða 16 ár, telur að minnsta kosti að svo sé. „Þetta er kannski nýtt form af saumaklúbbi, konur gera minni handavinnu í dag en áður, en lesa meira held ég“, segir hún í samtali við Lifðu núna. Konurnar í klúbbi Þórdísar eru níu.

Þórdís með bækurnar sem hún er að lesa núna

Sú sem heldur klúbbinn velur bók

Hún segir mjög gaman að vera í bókaklúbbi og á tímabili hafi hún verið í tveimur bókaklúbbum. Stóra klúbbnum sem hún kallar svo og líka í minni klúbbi, sem á rætur að rekja aftur til ársins 1988, þegar fjórar konur sem úrskrifuðust úr íslenskuvali í Kennó, langaði að halda hópinn og stofnuðu bókaklúbb. En það kallar á ákveðið skipulag að vera níu saman í bókaklúbbi. Þær hittast mánaðarlega yfir veturinn, til skiptis heima hjá hver annarri. Sú sem heldur klúbbinn velur bók. Þetta er eiginlega líka matarklúbbur því þær borða saman og ræða síðan um bókina sem er á dagskrá í klúbbnum. Þær fara hringinn og Þórdís segir að oft skapist góðar umræður hjá hverri og einni. Sú sem heldur klúbbinn byrjar á smá inngangi. Þegar hún er búin með hann tekur næsta kona  við og ræðir um bókina og þannig koll af kolli. „Þegar hringurinn er búinn er stundum búið að segja allt sem segja þarf“, segir Þórdís, en það tekur um tvær klukkustundir að fara hringinn.

Gengur ekki upp að hafa þema

Það hafa orðið svolítil skipti á konum í hópnum á þessum 15 eða 16 árum, en skipulagið er alltaf það sama. Það er til dæmis föst regla að ræða um jólabækurnar í janúarklúbbi hópsins. Einstaka sinnum hafa þær fengið rithöfund í heimsókn. Eitt sinn fengu þær bókmenntafræðing sem hafði skrifað um Auði Övu Ólafsdóttur í mastersritgerð sinni, til að segja frá henni. Þá voru þær einmitt að lesa bók eftir hana. Þórdís segir að lesefni hópsins sé mjög fjölbreytt. „Þetta hafa verið íslenskir og erlendir höfundar íbland og sjái einhver áhugaverða umfjöllun um bók eða lesi bók sem henni þykir sérstaklega spennandi, er hægt að leggja hana inn. Við höfum stundum reynt að vera með ákveðið þema en það hefur aldrei gengið upp. Það byrjar kannski ágætlega en svo hefur það farið úr böndunum, því það kemur einhver með svo æðislega bók sem þarf að lesa“.

Hættar að kaupa bækur

Þórdís segir að það gefi henni mikið að vera í bókaklúbbi.  „Auðvitað eru konur þarna sem lesa geisilega mikið. Við erum misjafnlega hraðlæs, sumir eru fljótir að lesa en aðrir lengur“. Sjálf les hún mikið og vinnur í menntaskóla þar sem aðgengi að bókum er gott. „Þar erb gott bókasafn og á kennarastofunni er mikið rætt um bækur. Það kveikir í manni að lesa. Ég nota Bókasafnið í Kópavogi líka jög mikið, en það er frábært safn. Við höfum verið með þá stefnu í klúbbnum að vera ekki endilega með nýjustu bækurnar sem er erfitt að fá á safninu. Fyrst keyptum við bækur, en erum hættar því. Fólk er að minnka við sig og hefur ekki pláss fyrir þær. Við erum mikið að lána hver annarri bækur og fáum líka bækur á bókasöfnum“.

Hrifnar af Syndafallinu eftir Mikael Torfason

Sem dæmi um bækur sem bókaklúbburinn las í vetur, eru Mónika á Merkigili, Framúrskarandi vinkona eftir Elenu Ferrante, Ekki vera sár eftir Kristínu Steinsdóttur og Syndafallið eftir Mikael Torfason.  „Hún er algerlega frábær, þú verður að lesa hana, þetta er einhver besta bók sem maður hefur lesið. Við vorum allar mjög hrifnar, okkur fannst hún stókostlega góð“, segir Þórdís.  Einn kosturinn við að vera í bókaklúbbi er að þar les fólk bækur sem það hefði ekki lesið annars. Klúbburinn hefur líka lesið bækur þar sem fjallað er um siðferðislegar spurningar, um uppeldismál og um dauðann. Þórdís segir þroskandi að hlusta á umræðuna og taka þátt í að ræða mismunandi málefni. Aðspurð hvort hún telji að konur séu frekar í bókaklúbbum en karlar, segist hún vita um bókaklúbb karla, en þar sé skipulagið svolítið öðruvísi en í þeim klúbbum sem hún hefur verið í. Þeir lesi kannski bók saman og skiptist á að lesa upphátt í bókaklúbbnum.

Rosalega átakamikil bók

Bókaklúbburinn er í sumarleyfi, en Þórdís er að lesa tvær bækur um þessar mundir. Hún var að lesa aðra þeirra heima, en fór í frí og byrjaði þá á annarri bók og er því með tvær í takinu. Þetta eru bækurnar Átta fjöll eftir ítalska rithöfundinn Paolo Cognetti. Hún fjallar um strák sem elst upp í fjallahéraði á Norður-Ítalíu, flyst í burtu, en kemur aftur. Þetta er uppgjör hans við æskuna. Hin bókin heitir Það sem býr að baki og er eftir danska höfundinn Mette Pryds-Helle. „Þetta er alveg rosalega átakamikil bók“, segir Þórdís.

Ritstjórn júlí 17, 2018 08:45