Aðeins vinnukona en samt svo miklu meira

Áhugi á fortíðinni eykst með aldrinum en saga forfeðra okkar og formæðra er lærdómsrík og spennandi. Við búum í harðbýlu landi og höfum enn og aftur verið minnt á það eftir nýjustu atburði á Reykjanesi. Þess vegna er áhugavert að lesa um konu sem vex upp í fátækt á Íslandi og heldur út til Ameríku í leit að betra lífi, þá þrjátíu og sex ára. Aldrei nema vinnukona er eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur er sjálfstætt framhald bókarinnar Aldrei nema kona og jafnheillandi og sú fyrri.

Sveinbjörg lagðist í mikla heimildavinnu áður en hún skrifaði þessar tvær bækur og tekst að skapa einstaklega trúverðugu og lýsandi mynd af aðstæðum kvenna á átjándu og nítjándu öld. Fátækar stúlkur áttu þess fæstar annan kost en að gerast vinnukonur, sumar voru heppnar, giftust og náðu að hokra á eigin kotbýlum við þröngan kost, því kjör vinnukvenna voru ef eitthvað var verri. Vinnuþrælkun var mikil og ef þær urðu ófrískar gátu fæstar haldið börnum sínum. Það hlýtur að hafa verið hræðilegt að þurfa að láta þau frá sér en móðir Þuríðar varð að senda hana frá sér unga og fleiri börn sín en sagt er frá því í Aldrei nema kona.

Þuríður er heppin því hún er hörkudugleg og verklagin og getur því valið úr vistum. Hún velur samt að fara vestur um haf 36 ára gömul, enda beið hennar ekki annað hér á landi en að enda sem niðursetningur á einhverjum bænum þegar hún yrði óvinnufær. Konur unnu einnig mun lengri vinnudag en karlarnir fyrir helmingi lægra kaup. Þær máttu draga af vinnumönnum klæðin þegar þeir komu inn í kvöldin og sitja síðan frameftir nóttu við að gera við og þrífa fötin þeirra.

Við fáum ekki að vita hvernig Þuríði reiðir af í nýju landi því sagan hefst þar sem hún stendur í flæðarmálinu á Sauðárkróki og bíður þess að komast um borð í skipið sem á að flytja hana til Ameríku og enda þegar hún kemur til Quebec. En við heyrum af ferðinni og lífi Þuríðar áður en hún fór út. Þetta er feykivel skrifuð bók og kjörum kvenna er hér lýst af mikilli næmni og innsæi. Það er svo auðvelt að fá samúð með þessum konum sem tókst þrátt fyrir eiga svo fárra kosta völ í lífinu að finna sér tilgang og skapa sér einhverja gleði. Við að lesa sögur kvenna og fá þannig innsýn í kjör þeirra og líf opnar augu manns fyrir hversu margt hefur í raun breyst til batnaðar og hvað við nútímafólk getumverið þakklátt fyrir þá velferð sem okkur er búin.

Ritstjórn nóvember 18, 2023 21:31