Brunar rúmlega níræð um ganga Grundar í hjólastólnum sínum

Hrefna og Birna, elsta dóttir hennar sem nú er um sjötugt.

,Það tekur mann svolítinn tíma að læra að lifa á svona heimili,“ segir Hrefna Björnsdóttir sem fluttist á Grund fyrir tveimur mánuðum síðan. Hún hafði þá fengið áfall sem gerði að það að verkum að hún er nú í hjólastól. Hrefna er svo heppin að eiga fjögur börn sem fæddust á sex árum og sinna henni vel. Þau eru nú öll komin á þann aldur sem heimilismenn á Grund fengu pláss á Grund þegar Hrefna byrjaði að vinna þar um fertugt. Nú eru börnin hennar bara miðaldra fólk sem lifir lífinu lifandi.

Hrefna er fædd 1929 í Kelduhverfi þar sem foreldrar hennar bjuggu góðu búi þar til móðir hennar missti heilsuna 32 ára gömul en þá gekk hún með Hrefnu. Síðar kom í ljós að sjúkdómurinn var MS. Hrefna átti einn bróður sem var 8 árum eldri en á milli þeirra hafði fæðst stúlka sem náði 5 ára aldri og hét líka Hrefna. Hún lést úr botnlangabólgu ári áður en Hrefna fæddist. Þá fluttu þau á Fáskrúðsfjörð þar sem Hrefna ólst upp. ,,Nú er botnlangabólga  auðveldlega læknanleg en þá var ekkert hægt að gera af því við höfðum ekki lyf,” segir Hrefna. ,,En þannig er þróunin í læknavísindunum, alveg eins og við upplifðum með covid veirukvikindið. Fjöldi manns lést í byrjun faraldursins en við náðum tökum á veirunni og kunnum að bregðast við svo færri létust af hennar völdum. Þessi þróun gerði líf margra léttara sem þurftu þá ekki að horfa á eftir sínum nánustu deyja,“ segir þessi rúmlega níræða kona sem man tímana tvenna. Hrefna er enn sérstaklega minnug og þakkar fyrir það á hverjum degi. Áfallið sem hún fékk  orskaði lömun í öðrum fæti en þegar hún vaknaði aftur prófaði hún minni sitt og komst að raun um að það var enn óskert. Upp frá því hefur hún þurft að ferðast um í hjólastól og gerir það með glæsibrag.

Ein löng og tvær stuttar

Hrefna eignaðist börnin sín fjögur á sex árum með fyrri eiginmanni sínum Sigurði Haraldssyni og þau voru öll heilsuhraust. „Krakkarnir fóru aldrei á leikskóla og fengu ekki einu sinni í eyrun,“

Hrefna við bíl sinn skömmu áður en hjólastóllinn varð aðalfarartæki hennar.

segir hún. Frá Fáskrúðsfirði flutti Hrefna og fjölskylda hennar til Reykjavíkur, svo til Akraness þar sem eiginmaður hennar og barnsfaðir var ráðinn bæjargjaldkeri og þar bjuggu þau í 5 ár. „Þar kunni ég mjög vel við mig en þaðan fluttum við í Stykkishólm og vorum þar aðeins í tvö ár. Næsta stopp var Kópavogur þar sem við vorum i 12 ár. Þá datt mér allt í einu í hug að fá mér vinnu og var þá orðin 42 ára. Ég vildi þá mennta mig aðeins og fór á vélritunarnámskeið. Með það próf fór ég  upp á Grund og sótti um auglýst starf við símavörslu og fékk. Það þótti mér ekki leiðinlegt,” segir hún og hlær dátt og gerir grín að sjálfri sér fyrir að tala mikið. „Þegar ég var yngri hafði ég starfað í 7 ár við Landsímastöðina á Fáskrúðsfirði. Það var þegar símanúmerin voru „ein löng og tvær stuttar“ segir Hrefna og hlær og bætir við að það hafi verið óskaplega skemmtilegur tími.

Spjallflæði

,,Reynslan frá Landsímastöðinni og vélritunarnámskeiðið gerði að verkum að ég fékk vinnuna á Grund við símavörsluna. Það þótti mér afskaplega skemmtileg vinna. Ég var á meðal þeirra sem tóku á móti nýju heimilisfólki og við gerðum okkar besta til að þeim liði vel. Ég spjallaði við þau um heimahagana því ég hef alltaf verið sérlega minnug á örnefni og þá fór oft af stað nokkurs konar spjallflæði,“ segir Hrefna og brosir. Hún bætir við að öll snerting sé svo mikilvæg þegar fólk er komið á hjúkrunarheimili. Einmanaleikinn verði svo sár þegar enginn skipti sér af þeim sem þar eru.

Fólk kom yngra inn á Grund

Hrefna man eftir því að áður fyrr hafi heimilisfólkið á Grund verið í mun betra ásigkomulagi þegar það kom inn. „Fólk var yngra og mun hreyfanlegra en heimilismenn eru í dag en þeir eru oft orðnir mjög fullorðnir. Svona eins og ég er í dag,“ segir Hrefna og brosir.

„Nú eru margir orðnir mjög veikir sem koma hingað. Það kemur til af því að margir geta verið heima mun lengur sem er auðvitað mjög gott. Fólk hefur góða aðstöðu og fær alla hjálp en svo þegar það gengur ekki lengur kemur það hingað og er þá oft orðið illa statt.”

Hrefna man ekki eftir að talað hafi verið um alzheimer sjúkdóminn þegar hún fór fyrst að vinna á Grund. „Þá var helsti vágesturinn krabbamein en nú er það alzheimer,” segir Hrefna.

Sigurður, fyrri maður Hrefnu og faðir barnanna hennar, hér heiðraður af KSÍ fyrir góða frammistöðu í íþróttum.

Man eftir þremur hjónaböndum sem urðu til á Grund

Hrefna man eftir þremur hjónaböndum sem urðu til meðal heimilismanna á Grund. „Þetta var fólk sem hafði misst maka sína og fann ástina í annað sinn hér,“ segir hún og brosir. „Þá var fólk hreyfanlegt og gat farið í rómantíska bíltúra og komið inn að kvöldi. Þau giftu sig og bjuggu bara áfram hér.”

Hrefna kynntist nýjum manni

Hefna og fyrri eiginmaður hennar, Sigurður Haraldsson, skildu eftir 22 ára hjónaband en hún kynntist síðar öðrum manni, Sigurði Guðmundssyni og átti með honum farsælt hjónaband þar til hann lést fyrir 8 árum. Hann hafði ríka kímnigáfu eins og Hrefna og kallaði sjálfan sig í gríni „number two”. Hrefna segist hafa verið svo heppin að Sigurður „seinni” hafi haft svo gaman af að keyra. „Einu sinni þegar við höfðum verið á Látrabjargi datt mér í hug að gaman væri að koma í Hænuvík í Patresksfirði og þangað var þá brunað,“ segir Hrefna og brosir að minningunni.

Ég man eftir að hafa sagt „Siggi, mikið væri gaman að koma í Hænuvík” og svo vissi ég ekki fyrr en við höfðum brunað af stað í Hænuvík sem reyndist

Myndin var tekin á níutíu ára afmælisdegi Hrefnu.

vera dásamlegur staður í Patreksfirði. Við ferðuðumst geysilega mikið og eignuðumst marga uppáhaldsstaði.”

Fluttu til Reykjavíkur

Þegar Sigurður, „seinni” var orðinn sjötugur og hættur að vinna þótti þeim betri kostur að búa nær krökkunum sínum sem bjuggu öll í Reykjavík. Í millitíðinni höfðu þau flust til Grindavíkur af því Sigurður var að vinna hjá Loftleiðum og það hentaði betur að búa á Reykjanesi. „Við ætluðum að búa í Grindavík í 10 ár en árin urðu 20. Þar leið okkur vel og eignuðumst þar marga af okkar bestu vinum.” Hrefna var að vinna þar í útibúi Gilberts úrsmiðs en Gilbert var tengdasonur hennar og opnaði þar útibú til að Hrefna hefði vinnu. „Ég hafði mjög gaman af að vinna þar og seldi bæði úr, klukkur og skartgripi. Svo man ég til dæmis eftir að hafa selt stóra stofuklukku til fólks frá Noregi sem átti leið um Grindavík,” segir Hrefna og hlær.

Fór aftur á Grund

Hrefna með barnabarni sínu Tinnu á brúðkaupsdegi hennar.

Þegar Hrefna og Sigurður fluttu til Reykjavíkur aftur var Hrefna líka um sjötugt og fékk aftur vinnu á Grund. „Ég fór að vinna við morgunstundina sem var alltaf á milli 9:30 og 11 og það var óskaplega skemmtileg vinna. Ég fór inn á herbergin og sótti fólkið og fór með það inn í sal.  Séra Pétur Þorsteinsson hjá óháða söfnuðinum hefur séð um þessa stund og gerir enn og hefur alltaf verið svo duglegur að fá helstu skemmtikrafta bæjarins til að koma og skemmta heimilismönnum hér. Þar má nefna Kristján Jóhannsson, Ragga Bjarna heitinn og marga fleiri. Svo er aðstaða fyrir heimilismenn til að troða upp ef þeir vilja og þar á meðal er Jón Þorsteinsson harmonikkuleikari. Hann gengur reglulega um gangana og spilar fyrir heimilisfólkið og annar sest reglulega við píanóið og spilar jasslög fyrir þá sem vilja heyra. Morgunstundin hefur verið mjög vinsæl allan tímann en lá niðri á meðan heimsfaraldurinn geisaði.” Hrefna sá lengi vel um bókavagninn og fékk þá tækifæri til að spjalla við heimilisfólkið og hún segir að það hafi verið mjög skemmtilegar stundir. Hún man eftir einu skipti þegar hún var komin inn til einnar konunnar og þurfti að bregða sér frá og skildi vagninn eftir hjá honunni með þeim orðum að hún gæti valið sér bók á meðan. Þegar hún kom aftur og spurði hún konuna hvort hún væri ekki búin að velja bók sagði hún: ,,Nei nei, þú veist miklu betur en ég hvað ég vil lesa“.

Hjólastólinn mesta þarfaþing

Hrefna ferðast um í hjólastól sínum og virðist hafa lúmskt gaman af. Hún fer meira að segja út í garð á stólnum sínum og bíður eftir tækifæri til að geta rúllað sér niður á tjörn til að sitja hjá „borgarskáldinu” Tómasi Guðmundssyni því hún kann ljóðin hans og fleiri skálda utan að.

Húsnæðið á Grund er gamalt og á göngum eru gjarnan litlar brekkur á milli hæða. Hrefna er búin að ná tökum á að bruna brekkurnar upp en þykir óþægilegt að fara þær niður af ótta við að missa hjólastólinn á fulla fart. En það er dæmigert fyrir lund þessarar konu á tíræðis aldri. Hún sér björtu hliðarnar á tilverunni því þannig er miklu skemmtilegra að lifa.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Viðtalið úr safni Lifðu núna er hér endurbirt.

 

Ritstjórn júní 2, 2023 07:00