Búslóð dótturinnar árum saman í bílskúrnum

„Ég hef aðstoðað fólk sem er að minnka við sig, eða er að taka til í bílskúrnum sínum. Ég hef aðstoðað fjölskyldu við að koma skikki á þvott og þvottahús og hjálpað fólki við að endurhugsa fataskápana“, segir Virpi Jokinen sem um síðustu áramót stofnaði fyrirtækið Á réttri hillu. Það er fyrirtæki sem aðstoðar fólk og lítil fyrirtæki við að flokka og skipuleggja eigur sínar. Á heimasíðu Á réttri hillu segir:

Við erum sífellt að takast á við breyttar aðstæður; börn fæðast, unglingar flytja að heiman, hjón skilja, efnahagsaðstæður breytast, nákomnir deyja, við skiptum um vinnu eða flytjum oft. Allar þessar breytingar hafa í för með sér gamla og nýja hluti, oft ofgnótt af hlutum – og stundum er ekki auðvelt að eiga við þetta allt, að minnsta kosti ekki ein og óstudd.

Skipulagsleysi getur endurspeglast í líðan; þegar maður hugsar um tiltekt en veit ekki hvar á að byrja og fallast hreinlega hendur. Öll getum við lent í því að vera einn daginn stödd þar í lífinu að verkefnin virðast óyfirstíganleg og maður veit ekki hvar á að byrja.“

Virpi Jokinen er finnsk, tveggja barna móðir sem hefur búið á Íslandi í um aldarfjórðung. Hún talar íslensku reiprennandi, er menntuð í myndlist og leiðsögn og hefur 15 ára reynslu af verkefnastjórnun, þar af ellefu ár í starfi skipulagsstjóra Íslensku óperunnar, þar sem hún vann m.a. við framleiðslu á óperusýningum. Virpi ákvað að nýta reynslu sína og þekkingu í að stofna þetta litla fyrirtæki og segist finna þörfina fyrir þjónustuna. „Ég get tekið að mér ýmis hlutverk“, segir hún. „Þegar fólk hefur samband við mig, byrjum við á að hittast í klukkustund og þá fæ ég tilfinningu fyrir því um hvað málið snýst. Hvað þarf til að komast í gang með verkefnið? Ég aðstoða fólk við að ná sínu markmiði, sjá leiðir að því og styðja það þangað.“

Dótið farið að hamla fólki

„Mannfólkið hefur aldrei áður verið í þessari stöðu, að eiga svona margt“, segir Virpi. „Dót er farið að hamla fólki, það kemst ekki lengur inn í geymsluna eða bílskúrinn. Margir vilja létta sér lífið með því að fækka hlutunum sem þeir eiga, en eiga erfitt með að koma sér að verki. Þjónustan sem ég veiti getur falist í því að hitta fólk einu sinni, eða um helgi eða á hverjum morgni í viku, allt eftir því hvað hentar. Ég byrja á því í fyrsta viðtali að koma með uppástungur um það sem hægt er að gera.“

Ekki óyfirstíganlegt að flytja og minnka við sig

Virpi aðstoðar fólk við að undirbúa flutninga, til dæmis þá sem eru að minnka við sig. Mörgum vex í augum að þurfa að flytja í minna húsnæði og losa sig við mikið magn af dóti. „Verkefnið er ekki óyfirstíganlegt, það eru margar aðferðir við að meðhöndla og flokka eignir. Það þarf að huga að ýmsu og fer til dæmis eftir heilsu viðkomandi, hversu mikið hann á af munum og hversu mikill tími er til stefnu. Það skiptir líka máli hvort afhending gamla húsnæðisins og þess nýja stenst á, eða hvort það er tími þar á milli.“

Ekki enn rekist á neinn sem á of lítið af fötum

Aðstoð við að taka til í fataskápum er einnig meðal verkefna Virpi. „Fólk þarf stundum aðstoð við að fara í gegnum fötin sín og skipuleggja skápana. Ég kalla það að hugsa fataskápinn upp á nýtt, þannig að hann þjóni eiganda sínum. Þegar fólk opnar fataskápinn á það að sjá fötin sem það er líklegt til að fara í, miðað við hvað stendur til að gera þann daginn. Yfirleitt er fötunum líka fækkað, ég hef að minnsta kosti ekki ennþá hitt neinn sem á of lítið af fötum. Ég færði minn eigin fataskáp yfir í svona kerfi og er núna mun sneggri að velja föt til að fara í á morgnana.

Sumir vilja létta á heimilinu

Stundum vill fólk líka einfaldlega létta á heimilinu. „Fjölskyldan hefur safnað miklu af munum í gegnum tíðina, sem eru ekki lengur til gagns eða gamans. Þá þarf að létta á, losa sig til dæmis við stólinn sem engum hefur nokkurn tímann líkað og þá verður rýmra um sófann. Markmiðið er að fólki líði vel heima hjá sér. Heimilið á að vera griðastaður og það er vont að koma heim og sjá bara allt sem er ógert“, segir Virpi.

Hætta að bjóða fólki heim

Stundum er staðan þannig heima að menn eru ekki ánægðir með heimilið og eru hættir að bjóða fólki heim. „Það er miklu algengara en við höldum, þetta er alls ekkert einsdæmi,“ segir Virpi. „ En það er hægt að bæta stöðuna hjá þessum hópi eins og öðrum.“ Virpi segir að stundum gerist það við áföll í lífinu að hlutirnir fari úr böndunum og á mörgum árum geti staðan orðið erfið. „Þá er ekki við því að búast að það sé hægt að snúa hlutunum við í einu vetfangi. Það þarf að gefa sér tíma og þolinmæði og það getur tekið á. Þá gildir að vera þolinmóður og gera eitthvað svolítið á hverjum degi. Þetta er eins og þegar þarf að byggja upp þol, þá er það gert smátt og smátt yfir lengri tíma“, segir hún.

Falla í verði um leið og komið er út úr búðinni

Varðandi bækurnar segir Virpi að bók í bókakassa sé ekki sérstaklega aðgengileg. En það sé ekkert rétt eða rangt við að geyma bækur í kössum. Það sem sé rétt, sé það sem veiti eigandanum mesta vellíðan. Hún segir líka að notaðir hlutir sem fólk vill kannski selja, hafi miklu meira gildi og séu verðmætari fyrir þann sem á þá, en hina sem hugsanlega kaupa þá. „Ef ég á eitthvað sem var mikils virði fyrir mig, held ég að einhver sé tilbúinn að greiða háa upphæð fyrir það. En það er þannig að um leið og þú kaupir hlut og gengur með hann út úr búðinni, þá fellur hann í verði“, segir hún. Sumir velji þá að sitja frekar uppi með gömlu kommóðuna, jafnvel þó þeir vilji það ekki í raun, en selja hana fyrir lítinn pening, nú eða gefa.

Hvernig viltu hafa bílskúrinn?

En hvað ráðleggur Virpi fólki sem er með fullan bílskúr af dóti, bókum, gömlum munum og hlutum sem það þarf að losa sig við? „Mikilvægast er að meta stöðuna og setja sér síðan markmið. Það er gott að segja upphátt hvernig menn líta á bílskúrinn sinn og finna út hvort til dæmis hjónin eru sömu skoðunar varðandi það. Það er hægt að vera hæstánægður með að bílskúrinn sé fullnýttur, kannski hefur til dæmis verið komið þar fyrir lager af bókinni sem til stendur að selja. Svo geta menn verið óánægðir með sinn fullnýtta bílskúr. Þar er kannski búslóð frá dótturinni sem fór út í skiptinám. Búslóðin átti bara að vera í skúrnum í stuttan tíma, en svo ílentist dóttirin í útlöndum og nú hefur búslóðin verið þar árum saman í geymslu. Eða það getur verið fullt af dóti sem á að fara í Sorpu, en svo hefur dregist að fara með það“, segir Virpi.

Mikilvægt að hafa skýrt markmið

Virpi segir að það sem þarf að gera, áður en menn byrji á verkefnum eins og þessum, sé að hafa skýrt markmið. Hvað vilja menn? Vilja þeir að það sé hægt að ganga um gólfið í bílskúrnum, eða vilja þeir koma bílnum sínum inn í hann? „Ef fólk er svo lánsamt að eiga bílskúr, þá getur það haft hann eins og það vill. Það erum við sem eigum að stjórna eigum okkar og hlutum, en ekki öfugt. Við eigum ekki að láta þá stjórna okkur“, segir Virpi að lokum. Hér má sjá heimasíðu fyrirtækisins hennar.  http://arettrihillu.is/

 

 

Ritstjórn júní 12, 2018 08:04