Nýtt útlit með gömlu fötunum

Flestar konur kannast við að eiga fullan skáp af fötum en finnast þær samt ekki hafa neitt að fara í. Þær eru orðnar leiðar á öllu sem við þeim blasir, hafa klæðst þessar peysu hundrað sinnum og gömlu gallabuxunum ábyggilega þrisvar sinnum oftar. Það er hvimleitt að vera verða of seinn í vinnuna en róta í skápnum á morgnana, finna ekkert sem mann langar að klæðast. Nokkur góð ráð geta dugað til að lífga upp á klæðaburðinn án þess að kaupa nýja flík.

Eitt besta ráðið til að forðast ergelsi og pirring yfir fötum á morgnana er að taka til á kvöldin það sem þú ætlar í að morgni. Leggðu fyrst af öllu á rúmið toppinn, pilsið eða buxurnar, sokkana og skóna. Horfðu á hvernig þetta fer saman og veltu fyrir þér hvort þú viljir einhverju breyta. Til dæmis getur sett allt annan svip á klæðnaðinn að velja litríkar sokkabuxur með dökku pilsi eða öfugt. Prófaðu líka að para saman eitthvað sem þér hefði aldrei dottið í hug að passaði, t.d. mynstraðri blússu og mynstruðu pilsi. Stundum geta algjörar andstæður virkað svo skemmtilega saman að líkja megi við nýstárlegan galdur. Þetta geta verið litir, snið, mynstur og ólík efni. Ekki er mjög langt síðan að við uppgötvuðum hversu fallegt það er að vera í silkblússum við gallabuxur, háum hælum við íþróttabuxur og strigaskóm við pils.

Allar konur vita að slæður og klútar geta gert kraftaverk. Einfaldur bolur, gömul blússa eða ljótur kjóll allt þetta batnar ef fallegur trefill eða slæða er bundin um hálsinn og látið liggja framan á flíkinni. Með þessu móti má gera heildarútlitið litríkara. Ótal aðferðir eru til að binda trefla, slæður og klúta en myndbönd sem kenna þær er að finna víða á netinu og það er gaman að prófa þær.

Skór og aðrir fylgihlutir skipta einnig mjög miklu máli. Stundum má brjóta upp mjög hefðbundin fatnað með áberandi og stórum fylgihlutum. Á sama hátt geta lítil en litrík veski í stíl við skóna lyft gömlu gallabuxunum og bolnum upp á annað plan. Stór hálsmen eiga sérstaklega vel við einfalda kjóla og toppa og nota má belti til að brjóta upp mjög beinar línur. Yfirleitt er nóg til af fylgihlutum í skápnum líka og gaman að leika sér að því að nota þá á nýjan og spennandi hátt.

Margir stílistar mæla með að konur fari reglulega yfir skápana sína. Raði fatnaði eftir litum og hendi út öllu sem er slitið eða hætt að passa. Það tryggir að ekki safnast upp eitthvað sem aldrei er notað. Skipulag eftir litum gerir það að verkum að konur eru fljótari að velja saman klæðnað þegar ekki þarf að leita að hvíta bolnum undir svörtu peysunum. Tískugúrúar mæla líka með að konur kaupi aðeins eina til tvær flíkur úr hverri tískulínu. Sumar-, vetur, vor og haust en hendi einhverri gamalli í staðinn.

Ritstjórn nóvember 16, 2023 08:00