Draumurinn var húsasmíðanám

Hanna Lára Gylfadóttir er á miðjum aldri, með fjórar háskólagráður en ákvað í upphafi árs á láta draum sinn rætast og stundar nú húsasmíðanám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Hanna Lára útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands árið 1990. Hún fór í enskudeildina í Háskóla Íslands beint eftir  stúdentspróf en enskunámið átti ekki við hana. Hún segist ekki hafa haft mikið álit á sjálfri sér sem námsmanni til að byrja með. Hún hafði farið sem skiptinemi til Ástralíu í eitt ár og eftir þá dvöl var hún svolítið ráðvillt. Hún fór þá út á vinnumarkaðinn þar sem hún var næstu 10 árin eða þangað henni fannst sinn tími kominn til að fara í framhaldsnám og fór þá á eigin forsendum. Hún var því orðin þrítug þegar hún settist í hjúkrunarfræði við HÍ. Hanna er svo lánsöm að hafa snemma áttað sig á að allt nám væri gott nám og segir að reynslan, sem hún öðlaðist á vinnumarkaðnum, áður en hún fór í framhaldsnám, hafi líka verið dýrmætt nám.

Hanna Lára gekk með yngsta son sinn af þremur þegar hún var á síðasta árinu í hjúkrunarfræðinni og eignaðist drenginn nánast daginn sem hún skilaði lokaritgerðinni. “Ég var ein heima í barneignarfríi þarna 35 ára gömul og fór að leiðast svolítið þegar líða tók á árið. Mig hafði alltaf langað að læra meira í bókfærslu en ég hafði starfað við bókhald árin á undan og hafði tekið eitt og eitt fag í viðskiptafræði mér til skemmtunar. Hagstæðasta námið tímalega séð fyrir mig með lítil börn var í Háskóla Íslands svo ég álpaðist þangað inn á bókfærslunámskeið sem varð síðan að BS í viðskiptafræði og næstum því að MS í stjórnun og stefnumótun. Ég kláraði M.Acc (reikningsskil og endurskoðun) námið í framhaldinu og bætti síðan kennslufræði ofan á þetta allt,” segir Hanna Lára og er nokkuð ánægð með sig og má vera það.

Starfaði við hjúkrun allan tímann með náminu

Hanna Lára átti 20 ára starfsafmæli í hjúkrun og umönnun á síðasta ári því hún byrjaði strax á fyrsta ári í hjúkrun að vinna sem sjúkraliði í öldrunargeiranum. Og vegna vöntunar á hjúkrunarfræðingum í heilbrigðiskerfinu var hún ráðin sem slíkur strax á öðru árinu í náminu. Hún hefur starfað eingöngu með öldruðum frá námslokum en hún var í Sunnuhlíð í 13 ár. Fyrst með námi og svo í fullu starfi. Hún segir ákvörðunina um að læra hjúkrunarfræði til komna meðal annars vegna þess að það nám sé einstaklega hagkvæmt því alltaf sé vinnu að finna og hægt sé að laga vinnuna að fjölskylduaðstæðum á hverjum tíma. Hún hafi í gegnum tíðina ákveðið af og til að sækja um vinnu annars staðar, vitandi að hún gæti alltaf leitað aftur í hjúkrunina og það sé mikill kostur.

Kláraði viðskiptafræðina

Þegar Hanna kláraði viðskiptafræðina 2010 réði hún sig til Hafnarfjarðarbæjar og starfaði þar í tvö ár sem sérfræðingur á fjármálaskrifstofu. Eftir tvö ár var hún farin að sakna hjúkrunarstarfsins og þá var þess farið á leit við hana að hún tæki við deildarstjórastarfi í Sunnuhlíð þar sem hún hafði verið áður. Þar var hún í eitt ár og hætti rétt áður en heimilið var tekið yfir af ríkinu. “Ég var í raun handalaus stjórnandi með ekkert fjármagn og orka mín fór mest í að hvetja uppgefið starfsfólk áfram og draga úr væntingum aðstandenda. Þarna var ég nálægt því að brenna út því róðurinn var mjög þungur,” segir Hanna Lára sem er ein af þeim sem brennur fyrir starfi sínu. Hún áttaði sig samt á því að maður verður að forgangsraða í lífinu og hugsa um sjálfan sig til að geta orðið öðrum að liði.

Söðlaði um og fór í ferðabransann

Eftir deildarstjórastarfið í Sunnuhlíð ákvað Hanna Lára að söðla um og fara í ferðabransann. “Það atvikaðist þannig að gamall skólabróðir heyrði af því að ég væri á milli starfa en hann vantaði fjármálastjóra í fyrirtækið Arctic Adventure. Ég réð mig í verkið sem var mjög krefjandi og þar átti ég tvö góð ár. Frá Arctic Adventure lá leiðin til Ormsson eftir stutt stopp sem fjármálastjóri hjá Ion Hotel árið 2016. Í Ormsson starfaði Hanna Lára í tæp tvö ár eða þangað til hún rakst á vegg og ákvað að segja því starfi upp.”

Var með samviskubit á öllum vígstöðvum

Kveikjan að uppsögninni var þegar yngsti sonur Hönnu Láru sem þá var 12 ára fingurbrotnaði og hún þrufti að fara með hann upp á bráðamóttöku. “Ég var á leiðinni frá því að keyra hann aftur heim og skilja hann eftir þegar ég áttaði mig á að ég var uppfull af samviskubiti. Fyrst á spítalanum yfir að hafa þurft að svíkjast undan vinnu til að fara með son minn til læknis og svo yfir að vera alltaf að flýta mér og hafa þurft að skilja hann eftir heima á meðan ég færi aftur í vinnuna til að standi mig nú nógu vel. Ég man eftir að hafa hugsað að lífið gæti ekki átt að vera svona. Endalaust kapplaup við tímann og að ég væri alltaf að uppfylla annarra væntingar sem hefðu ekkert með mig að gera. Ég fékk þar og þá einhverja uppljómun og skrifaði uppsagnarbréf þegar ég kom aftur niður í vinnu. Ég vissi að ég gat alltaf farið til baka í hjúkrunina svo ég ákvað að láta slag standa, hlúa að mér og mínum og ég vissi í hjarta mínu að ég var að gera rétt.“

Nei Hanna, nú lætur þú drauminn þinn rætast!

Þarna gerði Hanna sér ljóst að hún varð að láta drauminn rætast og ákvað að fara í húsasmíðanám.

Sumarið 2018 stóð Hanna Lára úti í hagléli í lok júní að smíða pall fyrir utan hús sem þau hjónin höfðu fest kaup á árið 2011. “Þar sem ég stóð í élinu skælbrosandi hugsaði ég: “Nei Hanna, nú lætur þú drauminn þinn um smíðanámið rætast,” segir Hanna Lára hlæjandi. Hún hafði ráðið sig á Hrafnistu í Hafnarfirði frá og með haustinu og sótti ekki um í húsasmíðinni fyrr en á vorönn 2019 og komst inn.

Eiginmaðurinn hafði mikið fyrir því að finna FB merkta hettupeysu til að gefa henni í jólagjöf eftir að skólavist var í höfn og gerir óspart grín að því að hann hefði aldei trúað því að hann, á fullorðnsaldri, ætti eftir að “deita” menntaskólastelpu.

“Valmöguleikarnir voru að fara í Tækniskólann eða í Fjölbraut í Breiðholti. Ég valdi FB því ég hafði heyrt góða hluti um þann skóla og svo réð úrslitum að bílastæðamál í miðborg Reykjavíkur eru ekki til að létta álagið í lífinu,” segir hún og ljóst er að þessi kona kann að forgangsraða. “Þetta er með betri ákvörðunum sem ég hef tekið í lífinu svo ég er alsæl,” segir Hanna Lára.

Ég vildi að ég hefði…..

Hanna Lára hefur starfað mikið með öldruðum og segist hafa lært gífurlega mikið af þeim. “Þegar ég byrjaði að starfa sem hjúkrunarfræðingur voru aðstæður öðruvísi. Það komu stundir þar sem ég gat gefið mér tíma til að sitja með heimilisfólki og spjalla við það en í dag er hraðinn í starfinu meiri.

Ég átti mörg dýrmæt augnablik með fólki sem sagði mér gjarnan frá lífi sínu. Sumir voru ánægðir með lífhlaup sitt en of margir voru fullir eftirsjár og vildu óska að þeir hefðu breytt öðruvísi í lífinu. Ég vil ekki þurfa að horfa í baksýnisspegilinn og segja: “Ég vildi að ég hefði nú bara…..”

Ég þreytist seint að segja við börnin mín að það sé enginn annar en maður sjálfur sem getur ráðið því hvernig við nýtum tímann okkar og það er eins gott að gera það vel því við eigum bara eitt líf,” segir þessi kraftmikla kona sem hefur dregið lærdóm af lífinu og er komin í húsasmíðanám af því það var draumurinn hennar.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 17, 2020 08:28