Karlar í skúrum en ekki konur

Jón Bjarni með smíðagrip en þetta er Möbíusarborði sem hefur aðeins eina hlið.

Umræðan um andlega heilsu þeirra sem fara á eftirlaun hefur verið hávær. Allmargir fara illa út úr þessum tíma og þar er nokkur munur á kynjunum. Sumir standa í þeirri meiningu að við starfslok verði loksins tími til að gera það sem ekki vannst tími til á meðan fólk mætti daglega til vinnu en raunin verður stundum önnur. Sjálfsmynd margra miðast of oft við starfið sem þeir sinna og þegar þess nýtur ekki lengur við getur farið að bera á andlegum þyngslum og vanlíðan. Konur virðast fara betur út úr þessum tíma því þær eiga að jafnaði sterkara net í kringum sig en karlar. Þar koma til margskonar klúbbar sem konur eru meðlimir í á meðan karlarnir hafa síður þróað með sér þess konar tengslanet. En vegna þess að þetta vandamál er svo algengt um allan heim hafa ýmsar þjóðir fundið svar fyrir karla sem miðar m.a. að því að rjúfa einangrun. Þegar starfsemin er eðlileg koma félagsmenn saman á mánaðarlegum félagsfundum og tvisvar í viku er opið hús á milli klukkan 10 og 12 að Helluhrauni 8 í Hafnarfirði.

Stöndum upp úr sófanum og hittum aðra karla

„Starfsemi „Karla í skúrum“ snýst um að veita körlum athvarf og aðstöðu til að sinna hugðarefnum sínum, rjúfa einangrun þeirra og efla félagsleg tengsl,“ segir Jón Bjarni Bjarnason formaður félagsskaparins en hann kom inn í félagsskapinn haustið 2018 þegar hann hafði verið stofnaður. Jón Bjarni var myndlistarkennari og stafaði síðar við bókahönnun. „Markmið félagsskaparins er að hjálpa körlum við að halda andlegri og líkamlegri heilsu lengur en ella,“ bætir Jón Bjarni við. „Við hvetjum þá til að standa upp úr sófanum og hitta aðra karla. Hjá okkur er hægt að vinna ýmiss konar handverk og svo hafa myndast hópar sem fara í gönguferðir saman eða bara hittast yfir kaffibolla og spjalla.“

Jón Bjarni segir að félagið hafi verið stofnað á Íslandi af Rauða Krossi Íslands 2018 en upphaflega varð hugmyndafræði „Karla í skúrum“ eða „Men in Sheds“ til í Ástralíu upp úr 1990. Sama vandamál er því í öllum samfélögum og slík starfsemi hefur alls staðar sannað gildi sitt.

Allir velkomnir!

Jón Bjarni segir að allir séu velkomnir til þeirra og mikið gleðiefni ef hópurinn stækkar. Nú eru nokkrir slíkir hópar starfræktir á landinu og þrír þeirra á höfuðborgarsvæðinu. „Við fögnum hverjum nýjum meðlim og höfum þá trú að líf manna geti breyst gífurlega við að taka þátt í slíkum félagsskap,“ segir Jón Bjarni.

Ákváðu að rjúfa tengslin við Rauða krossinn

Rauði Krossinn hlaut þróunarstyrk frá Virk starfsendurhæfingasjóði 2018 sem var lyftistöng fyrir félagsskapinn. En í desember 2020 ákváðu félgsmenn að rjúfa tengslin við Rauða Krossinn svo nú starfa  þeir alveg sjálfstætt á eigin kennitölu. Jón, sem er fæddur 1949, segir að það hafi verið gert af því þeir vildu vera eigin herrar og ráða sjálfir framvindu mála. Það eru góð samskipti við Rauða krossinn en nú tökum við ákvarðanir sjálfir.“ Jón Bjarni segir að þeir séu nú oftast 5 sem mæta í húsnæðið á hverjum degi og fari fjölgandi.

„Félagsmenn eru nú um 40–50 og félagsgjald er 3000 krónur á mánuði. Við höfum fengið styrk frá Hafnarfjarðarbæ í tvígang sem hefur skipt gríðarlegu máli fyrir reksturinn. Við gátum til dæmis keypt gám sem við getum notað fyrir geymslu því svona starfsemi þarf að geta geymt hluti sem henni áskotnast og nýtist félagsmönnum við iðju sína.“

Félagsmenn hafsjór af fróðleik og þekkingu

„Við leggjum til góða aðstöðu til allskonar föndurvinnu hvort sem það er í tré, stein, gler, járn eða annað efni sem félagar vilja vinna með,“ segir Jón Bjarni. „Það er „opið hús fyrir alla“ hjá okkur kl. 10–12 á þriðjudögum og fimmtudögum og er þá oft glatt á hjalla og þá koma þeir sem fyrst og fremst sækjast eftir kaffispjalli við félagana. Þeir sem vilja geta fengið lykil að húsnæðinu og koma þá og nýta sér húsnæðið þegar þeim hentar. Félagarnir eru duglegir að nýta sér þennan möguleika og er aðstaðan notuð flesta daga vikunnar, frá morgni til kvölds.”

Jón Bjarni segir að reglulega séu haldin námskeið fyrir félaga og má þar til dæmis nefna tálgun, útskurð, hnífasmíði, renninámskeið (notkun á rennibekk kennd), fuglatálgun, yfirborðsmeðhöndlun á tré, fyrsta hjálp og notkun á hjartastuðtæki, meðferð lita í listmálun o.fl. „Kennarar á námskeiðum eru oftast fengnir úr hópi félaga, enda búum við að miklum mannauði, en við höfum líka fengið sérfræðinga annars staðar frá þar sem við á. Þetta eru óskaplega skemmtileg námskeið.“

Mikill mannauður

Félagið býr yfir miklum mannauði og má þar nefna: Trésmiði, járnsmiði, smíðakennara, markþjálfa, myndmenntakennara, lyfjafræðing, arkitekt, handmenntakennara og háskólaprófessora. Allt eru þetta menn sem hafa verið úti á vinnumarkaðnum langa ævi og eru hafsjór af fróðleik og þekkingu.

Sjö rennibekkir og ekki veitir af

Karlar í skúrum er vel tækjum búið félag. Húsnæðið er að Helluhrauni 8 í Hafnarfirði þar sem eru sjö rennibekkir og ýmis áhöld til smíða. Á meðan á viðtalinu stóð heyrðust vélarhljóð og innan skamms kom maður sem hafði verið að smíða inni í salnum. Þetta var Alexander Vilmarsson sem hefur verið að smiða skipa- og bátamódel. Alexander var sjómaður og hefur nú að áhugamáli að smíða skip og báta.

Jón Bjarni stendur hér við skiptibókavitann sem hann og félagsmenn eru að smíða fyrir Hafnarfjarðarbæ.

Skiptibókaviti fyrir Hafnarfjarðarbæ

Jón Bjarni tekur þátt í smíðinni á skiptibókavitanum.

Svona teiknuðu karlarnir bókavitann upp og eftir teikningunni er hann smíðaður.

Hugmyndafræðin um „karla í skúrum“ kom til Íslands frá Írlandi, sjá hér: menssheds.ie. GSM-númer hjá Jóni Bjarna er 898-0714 og hann tekur öllum áhugasömum mjög vel.

Ritstjórn ágúst 17, 2021 06:30