Íslenskar þjóðsögur herma að á nýársnótt öðlist kýrnar í fjósinu mál og margt megi læra af tali þeirra. Dýravinir halda því hins vegar fram að dýrin tjái sig ekkert síður en menn og þótt þau noti ekki orð séu þau engu að síður skýr og auðvelt að greina nákvæmlega hvað þau vilja segja.
Dýr þurfa ekki að vera stór til að hafa tilfinningar og þarfir. Systir mín átti naggrís sem tók slíku ástfóstri við mömmu að hann varð þunglyndur þegar hún fór að heiman. Eitt sinn fór hún í hálfsmánaðarferðalag og naggrísin nærðist lítið sem ekkert allan þann tíma. Hann hékk úti í horni á búrinu og það var alveg sama hvernig honum var klappað og kjassað hann fór aftur að sama stað og hímdi með hengdan haus þegar honum var skilað í búrið aftur. Þegar mamma kom aftur og heilsaði fjölskyldunni í dyrunum heyrðist hávært ákall úr búrinu: „Gví, gví, gví,“ argaði naggrísinn og þegar mamma fór inn í herbergi talaði við hann og færði honum kál stóð ekki á því að hann tæki til matar síns. Eftir þetta kölluðum við mömmu gjarnan móður okkar í gví gví.
Ég á hund og hef átt í gegnum lífið fjóra ketti og annan hund sem öll hafa tjáð sig með mjög mismunandi hætti Hundarnir ævinlega fullir eldmóðs og gleði, heilsa góðum gestum af miklum fögnuði. Fyrri hundurinn minn, tíkin Freyja, þannig að hún gersamlega missiti stjórn á sér, ýlfraði, veltist um gólfið og hringsnérist. Ef hana vantaði eitthvað fór það aldrei á milli mála. Hún stillti sér upp og horfði fast og stíft á eiganda sinn eða þann sem var að hugsa um hana í það sinnið. Svaraði viðkomandi ekki strax gaf hún frá sér eitt bofs og þá var eins gott að standa á fætur og spyrja hvað væri að. Þar með skokkaði hún af stað og lét manneskjuna elta ýmist að vatnsdalli, tómum matardisk eða leikfangakassanum sínum. Í dag er á heimilinu tíkin Kría og hún er sjúk í bolta. Ef ekki hefur verið sinnt um að kasta einum slíkum fyrir hana nægilega oft fyrir hennar smekk kemur hún og sækir fólk með góðu eða illu, dregur það fram að bekknum þar sem boltinn er geymdur og stendur þar á afturfótunum þar til manneskjan grípur boltann. Hún veit líka í hvaða skúffu í eldhúsinu nammið er geymt, hvernær tími gönguferðanna hennar er runninn upp og hvenær er tímabært að fara sofa. Hún hefur mjög fastmótaðar hugmyndir um háttatíma okkar hjóna og sækir okkur gjarnan ef við drollum of lengi yfir sjónvarpinu um helgar. Kjósi annað okkar að verða eftir frammi þegar hitt í farið inn kemur hún reglulega fram og horfir ásakandi á næturhrafninn og heldur uppteknum hætti þar til hann gefst upp og kemur sér í bólið.

Læðan Týra var mikil dama og lét frekar stela af sér nammi en að slá af góðum borðsiðum.
Ketill skrækur
Kötturinn Matti varð sautján ára. Hann hafði mjög skerandi og skræk hljóð og fékk því viðurnefnið Ketill skrækur. Hann vissi alveg hvernig ætti að fá sitt fram því hann hefur lærði fljótt að eigendur hans þoldu ekki bjart og hávært mjálmið nema stutta stund. Hann og tíkin Freyja voru samtíða á heimilinu og elskuðu harðfisk og ef þau vissu af slíku sælgæti í eldhússkápnum var Freyja send til að sækja mannfólkið hvar sem það var statt í húsinu og Matti beið fyrir neðan skápinn góða. Um leið og einhver tvífættur einstaklingur birtist í eldhúsinu byrjaði hann að mjálma hátt og snjallt og hætti ekki fyrr en honum hafði verið gefinn harðfiskur og að sjálfsögðu beið senditíkin með opinn munninn eftir að fá sín laun líka.

Kötturinn Matti réði því sem hann vildi ráða og sendi hundinn til að sækja tvífætlinga þegar hann langaði í nammi.
Læðan Týra, var einnig í sambýlinu samtíða Freyju og Matt, en var ákaflega fáguð dama. Það heyriðst nánast aldrei í henni. Hún gekk um húsið stillt og hljóð, hafði sig aldrei í frammi þegar gestir voru og lét harðfisksníkjur hinna sem vind um eyru þjóta. Hún þáði vissulega sælgæti væri það boði en aldrei úr hendi neins. Sá sem gaf henni varð að færa góðgætið upp að nefninu á henni og leggja það síðan á borðið fyrir framan hana. Hún sat svo róleg þar til viðkomandi hafði fært sig frá þá beygði hún sig niður, krækti kló í bitann, færði hann upp að munninum og borðaði settlega og hægt. Þetta kostaði hana oft missi því að hin tvö stálu frá henni væru þau einhvers staðar nálægt. Einhver dýr tækju því líklega ekki þegjandi en hún er yfir það hafin að slást um harðfisklús. Hún hristir sig bara og gengur virðuleg burtu. Til allrar lukku fyrir hana eru eigendur hennar meðvitaðir um hvílíkur hefðarköttur þetta er og þeir gæta þess að gefa henni ávallt einni eða sjá til þess að henni sé bættur skaðinn nái hin tvö að ræna hana.

Í dag er Kría einráð.
Hópurinn hafði innbyrðis mjög skýrar línur. Matti var æðstur og gekk fyrstur að öllum gæðum. Enginn hróflaði við hans mat eða tók af honum bæli. Þegar hann laggði sig í körfu Freyju lagðist hún á gólfið. Týra þurfti að sætta sig við að vera neðst í goggunarröðinni en ef tíkin gerðist of aðgangshörð við hana var Matta að mæta. Fimmtán ára gamall stökk hann af eldhúsbekknum og þvert yfir eldhúsið, til að ráðast á tíkina sem ætlaði að reka Týru frá matardallinum sínum. Hann réðst á nefið á henni og hún sá sitt óvænna og flúði. Dýrin vita líka öll hvaða hlutverk mannfólkið í lífi þeirra hefur. Sumir eru klapparar aðrir mun vænlegri til matargjafa. Þau voru blíð og góð og kunna að bræða alla þá sem komu inn á heimilið.
Í dag er Kría einráð og stjórnar eigendum sínum með ýmsum brögðum. Við reyndum að vera án dýra í eitt ár eftir að Freyja féll frá, síðust þríeykisins en það gekk ekki. Húsið var of tómt og tilveran of einmanaleg. En um hver áramót verður mér hugsað til þeirra. Þau áttu sannarlega sitt mál, sinn tjáningarmáta og kannski hafa þau fengið mannamál á nýársnótt og þá talað tungum þótt ég hafi sofið það af mér.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







