Erfitt að vera höfuð ættarinnar

Sumum finnst það tilfinningalega krefjandi reynsla að missa smátt og smátt alla eldri ættingja og átta sig síðan á að þeir séu orðnir þeir elstu í stórfjölskyldunni. Tilfinningin um að baklandið sé farið, þeir sem litið var upp til og voru leiðbeinandi allan uppvöxt einstaklingsins og fullorðins ár getur verið yfirþyrmandi. Ákveðið tómarúm myndast en jafnfram áttar viðkomandi sig á því að hann er kominn í hóp þeirra sem líklegastir eru til að kveðja næst.

Á Íslandi hafa fram að þessu verið meiri tengsl innan stórfjölskyldna en gildir annars staðar. Afar og ömmur, systkini foreldra manns og systkinabörn eru oft í nánu sambandi. Fólk hittist í sumum tilfellum daglega og stundum er samhjálp mikil. Það getur því kallað fram djúpar hugleiðingar og breytingar á viðhorfi manna til lífsins þegar ættingjarnir taka að tínast burtu einn af öðrum yfir móðuna miklu. Í einhverjum tilfellum getur þetta aukið á tilvistarkvíða en aðrir verða staðráðnir í að njóta þeirra stunda sem þeir eiga eftir sem mest og best, enda eru þeir minntir bæði á eigin dauðleika og annarra um leið og mikið af þeim stuðningi og öryggi sem viðkomandi naut fram að þessu hverfur.

Það er einnig annað hlutverk að vera elsta kynslóðin og jafnvel sá elsti. Því fylgir oft að litið er til þín þegar eitthvað vantar og aðrir taka að sækja til þín stuðning. Það getur tekið tíma að átta sig á þeirri stöðu og átta sig á afstöðu sinni til þessa nýja hlutverk. Hugsanlega munu sumir finna fyrir meiri einangrun, finnast þeir yfirgefnir og vera óöruggari en áður. Söknuður eftir hinum sem farnir eru kann einnig að vera djúpstæðastur hjá þér og það eitt og sér veldur stundum einmanaleikatilfinningu. Sífellt færri deila minningum þínum og sumir hafa engan áhuga á að heyra þig rifja þær upp. Sögur af fortíðinni og fyrri kynslóðum eru misheillandi í augum yngri kynslóða.

Sorgin yfir því sem aldrei var

En fólk saknar ekki bara þess sem var, sumir sakna þess sem aldrei varð. Hafi fjölskyldan verið sundruð eða fólk átt í erfiðu sambandi við foreldra sína eða foreldri getur þess tími einkennst af djúpstæðum söknuði eftir því sem aldrei var, því sem það hefði viljað að gerðist. Margir geyma það of lengi að laga samskipti sín við fjölskyldumeðlimi og skyndilega er það orðið of seint, amma, afi, faðir, móðir, systir, bróðir eru skyndilega horfin og viðkomandi situr eftir án þess að hafa möguleika á að endurheimta sambandið, bæta það eða fá svör við knýjandi spurningum.

Þá verður tilhugsunin um eigin dauðleika nærtæk og líkt og gerist þegar fólk veikist af lífshættulegum sjúkdómi og lifir af breytir það viðhorfi viðkomandi til lífsins varanlega. Fólk tekur að endur skoða gildi sín, endurmeta hvernig þeir vilja verja tíma sínum og finna út hvað er þeim raunverulega mikilvægt. Þeir verða meðvitaðri um eigið val og velja af meiri varkárni og yfirvegun hvert þeir stefna og í hvað þeir verja tíma sínum. Forgangsröðun og sambönd verða önnur og sumir íhuga hvers konar arfleifð þeir vilja skilja eftir sig.

Að vera meðvitaður um dauðann og hversu stutt getur verið milli lífs og dauða þarf ekki að vera slæmt. Það getur hjálpað manneskjunni að meta hvert augnablik og njóta þeirra sem hún deilir með ástvinum sínum til fulls. Það er líka alltaf tilefni til að hugleiða og endurskoða eigin óskir og markmið í lífinu.

Persónulegur vöxtur og þroski

Margir telja að tilgangur lífsins sé persónulegur vöxtur og þroski. Að læra af öllu því sem hendir í lífinu og nýta slæmar lexíur á góðan hátt. Reiði, biturð og eftirsjá eru ekki góðar tilfinningar og lita allar upplifanir þeirra sem halda í slíkar tilfinningar. Það getur verið erfitt að sleppa en nú á dögum er víða hægt að fá hjálp til þess og ná sátt. Að vera góð fyrirmynd fyrir aðra á efri árum og njóta lífsins til fulls er gott markmið að setja sér hvort sem menn gera það ungir, miðaldra eða á rosknir.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 14, 2025 08:15