Það er ekkert rétt eða rangt í sorg

Það er sama hversu gömul við verðum það fylgir því oftast  tregi og mikil sorg þegar foreldrar okkar falla frá, jafnvel þó þau hafi verið orðin háöldruð. Líka þó að sambandið við þau hafi verið slæmt. Flestir bera ást í brjósti til foreldra sinna og harma brotthvarf þeirra af þessari jörð, segir prófessor Alan D. Wolfelt í grein á vefnum aarp.org. Lifðu núna stytti og endursagði.

Sorg sérhvers manns er einstök. Fólk syrgir á mismunandi hátt engir tveir syrgja eins. Aðstæður eru mismunandi, sambönd fullorðinna barna og foreldra þeirra eru mismunandi. Hver og einn verður að syrgja á sinn hátt. Ekki bera reynslu þína saman við reynslu annarra. Taktu þann tíma sem þú þarft, sorgin hefur engin tímamörk. Gott ráð er að taka einn dag í einu, það gerir fólki oft kleift að syrgja á eigin hraða.

Samband foreldra og barna er eitthvert sterkasta samband sem til er. Þegar annað foreldrið deyr rofnar þetta samband. Fólk finnur oft fyrir sterkum tilfinningum, ást, reiði, ótta, sekt, létti og svo framvegis. Stundum koma þessar tilfinningar fram samtímis stundum finnur fólk bara fyrir einni tilfinningu í einu.

Fólk býst oft við að verða dapurt þegar það missir foreldra sína en þegar dauðinn er orðinn staðreynd verða margir hissa á hversu sterkar tilfinningar brjótast fram. Fólk upplifir sig „munaðarlaust“ á miðjum aldri. Það geta verið mjög sársaukafull umskipti. Sorgin brýst fram. Það er margt sem fólk syrgir. Eitt af því er til að mynda að börnin þín hafa ekki lengur tækifæri til að umgangast afa sinn og ömmu. Svo er það allt sem fólk vildi svo gjarnan hafa sagt við hinn látna. Það getur líka verið að þið hafið gert á hlut foreldra ykkar en aldrei komið ykkur að því að biðjast fyrirgefningar. Allt í einu er það of seint. Eða fólk hefur ekki gefið sér tíma til að heimsækja pabba eða mömmu og eyða með þeim tíma, margir iðrast þess þegar dauðinn bankar upp á.

Fólk getur líka fundið fyrir létti þegar foreldrar þeirra deyja. Þessi tilfinning getur verið sterk ef fólk hefur verið ábyrgt fyrir umönnun foreldris síns eða ef foreldrið hefur verið lengi veikt. Það þýðir ekki að fólk elski ekki foreldra sína, þetta er gangur lífsins.

Sumir finna fyrir mikilli reiði þegar foreldrar þeirra deyja. Ástæðan getur verið að ekki hefur verið leyst úr erfiðum ágreiningsefnum innan fjölskyldunnar eða að foreldrar þínir hafa brotið gegn þér. Það er líka hægt að verða reiður út í almættið fyrir dauða foreldra. Eða annað fólk sem kann að hafa orsakað dauða annars hvors þeirra eða beggja. Reynið að skilgreina reiðina hvers vegna hún brýst fram og leitið aðstoðar við að ráða fram úr þessum erfiðu tilfinningum.

Eins og sagt var í upphafi þá er sorg hvers manns einstök. Bræður ykkar og systur upplifa dauða foreldra ykkar á annan hátt en þið. Ágreiningsefni koma oft upp í fjölskyldum við dauða foreldra. Systkini eru ekki sammála um hvernig jarðarförin á að vera, hver á að fá hvað og svo framvegis. Dauðinn getur líka fært fólk nær hvert öðru og ný vinátta myndast. En að lokum að eftirlifandi maka, reynið að skilja áhrif dauðans á hann eða hana. Fólk er ekki ábyrgt fyrir sorg og lífi móður eða föður sem hefur misst maka sinn en það sakar ekki að minna sig á að reyna að sýna eftirlifandanum þann skilning sem hann þarf á að halda.

Það er ekkert rétt eða rangt í sorg.

Ritstjórn nóvember 6, 2018 09:17