Hugleiðingar um einsemd í sorg

Við þurfum flest að takast á við sorg einhvern tímann á ævinni. Í kjölfar andláts þeirra sem eru nákomnir okkur er fólk oft ótrúlega duglegt að hringja, koma í heimsókn og sýna samúð. En þessi tími tekur enda og fólk hættir að hafa samband.  Lifðu núna fékk þennan pistil frá konu sem er að glíma við sorg og einmanaleika. Hann er þörf áminning um að  gleyma þeim ekki sem standa okkur nærri þegar illa árar í lífi þeirra.

 

– Ég sit við gluggann, samanhnipruð í stólnum mínum, athvarfinu mínu. Horfi á rigninguna renna niður rúðuna, einn dropinn af öðrum og ég fylgist með honum. Hann skellur á rúðuna, breytist í blauta klessu sem rennur niður og verður að bleytu á gluggakistunni utanverðri. Ég sé ekki hvað verður svo um bleytuna en ég veit að jörðin blotnar og pollar myndast hér og þar. En það kemur alltaf annar dropi. Svona eins og tárin mín koma, endalaus straumur.

Síminn minn liggur á borðinu og ég horfi á hann. Píri augun og það myndast regnboga árur í kringum hann. Ætli þetta séu árur þeirra sem hringt hafa í mig ?  Eða ekki hringt ? Eða mínar árur ? Hvað er annars ára ?

Hann hringir sjaldan núna. Þegar sorgin skall á mér fyrst, hringdi hann stöðugt. einmitt þá vildi ég helst ekki að hann hringdi, átti bágt með að svara og tala. Það hringdu gamlir vinir mínir, ættingjar og allir vildu segja mér að þeir hugsuðu stöðugt til mín og að þeir vildu gjarnan hjálpa.  En smá saman hægði á símtölunum og vinirnir og ættingjarnir höfðu annað að gera.

Þvílíkt sem þögnin getur stundum haft hátt.  Þögn dauðans.

Ég horfi á rykið á hillunni, rykið á borðinu og hugsa um skápatiltekt og bílskúrstiltekt. Halla mér aftur í stólnum og teygi mig í makkintos dósina (stærstu gerð) – það eru bara þrír eftir, þessir grænu sem eru ekki mjög góðir.

Ég læt mig hafa það og hugsa með skelfingu til þess að ég verð að fara í Bónus í dag, kaupa kex, pepsimax, ost og brauð. Og ég veit að ég kaupi þetta og líka allt það sem er óhollt og fitandi. Kannski líka eins og eina dós af bláberjum, svona til að friða samviskuna (og kassadömuna sem þekkir mig vel) –  smá hollustu.  Nenni lítið að elda og fæ engin matarboð lengur, eins og fyrr segir þegir síminn og dyrabjallan hefur lítið að gera.

Held að öllum finnist þetta ætti að vera liðið hjá, ætti að vera batnað. Veit að ég er ódugleg og veit að ég er sú sem verð að gera – ekki bara vera.

En samt sit ég bara við gluggann og horfi á regnið.

 

Kona að vestan.

Ritstjórn febrúar 5, 2019 06:47