Eins og stórt heimili

Þorvaldur Víðisson er sóknarprestur í Fossvogsprestakalli þar sem eru Bústaðakirkja og Grensáskirkja. Hann var ráðinn til Bústaðakirkju þegar sr. Pálmi Matthíasson lét af störfum og þar voru fyrir prestarnir sr. María Guðrúnardóttir Ágústsdóttir og sr. Eva Björk Valdimarsdóttir. Nú ætla þau þrjú að skiptast á að vera sóknarprestar en í október næstkomandi tekur sr. María við af Þorvaldi og verður starfandi í tvö ár. Hún mun þá bera ábyrgð á daglegum störfum og að þeim tíma liðnum mun sr. Eva Björk taka við í tvö ár áður en Þorvaldur tekur aftur við. ,,Hér er mjög heimilisleg stemmning og við göngum öll í þau störf sem þarf að sinna,“ segir Þorvaldur. ,,Í haust þurfti til dæmis að klifra upp í rennur og hreinsa lauf úr þeim svo þær stífluðust ekki og þá gekk ég bara í það starf. Aðrir eru betri en ég í öðru,“ segir hann og brosir. Þorvaldur bætir við að þau haldi á lofti þeirri sterku hefð sem Pálmi Matthíasson skildi eftir þegar hann hætti.

Eiginkona Þorvaldar er Sólveig Huld, félagsráðgjafi í málefnum fatlaðra i Kópavogsbæ. Þau eiga þrjú börn, Jón Víði 26 ára, Ásdísi Magdalenu 20 ára og Fróða Kristin 14 ára. Þorvaldur er alinn upp í Kópavogi og býr þar enn með sína fjölskyldu. Mikil tónlist er á heimilinu því fyrir utan hann sjálfan spila krakkarnir á píanó og þau hlusta öll mikið á tónlist. Þorvaldur verður fimmtugur á næsta ári en þótt hann sé hættur að spila fótbolta eins og hann gerði áður, stundar  hann og fjölskylda hans mikla útiveru. Þau eru í kajakróðri og fara gjarnan út að sigla með veiðistöng bæði á sjó og vötnum. Þorvaldur fór til dæmis í Snæfellsjökulshlaupið í fyrra með syni sínum. Þá er hlaupið frá Arnarstapa, með fram jöklinum og yfir til Ólafsvíkur.

Þorvaldur var á eðlisfræðibraut í menntaskóla og þreifaði fyrir sér lögfræðinni og hafði hugsað sér verkfræði uppi í Háskóla en guðfræðin varð ofan á. ,,Ég prófaði guðfræðina og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Þorvaldur. Námið sjálft er ótrúlega spennandi og geysilega fjölbreytt. Þar er komið við í fornu tungumálunum, trúfræði, siðfræði, félagsfræði og sálfræði og þetta heillaði mig mikið. Markmiðið er auðvitað að maður skilji þessa fornu texta þar sem eru mikil sannindi en þetta eru sumir 3000 ára gamlir textar. Við erum svo upptekin af því í nútímanum í dag, að vera á ferðinni áfram og horfum ekki mikið til baka. En þessir gömlu textar hafa töluvert að segja við okkur, bæði á gleði- og sorgarstundum. Þar er að finna mikinn lærdóm, dýpt og visku án þess að við göngum út í  einhverja öfga. Mér þykir mjög spennandi að skoða lífið og ná kjarna úr þessum gömlu textum því hann skiptir máli. Það á bæði við þegar verið er að skíra eða jarða eða bara að halda jól. Þá leita ég í þessi gömlu fræði og finn þar svör fyrir mig og margt sem er svo ótrúlega magnað, eitthvað sem ég finn ekki annars staðar.“

Mikið félagslíf í kirkjunni

Þorvaldur segir að fyrir utan heimsóknir þeirra út á við sé mjög mikið starf í kirkjunni sjálfri, bæði þegar eldri borgarar, skólar og vinnustaðir koma í heimsókn.

,,Við erum í góðu samstarfi við félagsmiðstöðvar fyrir eldri borgara sem við heimsækjum reglulega, yfirleitt tvisvar í mánuði. Þá erum við með helgistund og spjöllum við þá sem við hittum þar. Oftast er Jónas Þórir Þórisson organisti Bústaðakirkju með í för eða Ásta Haraldsdóttir organisti Grensáskirkju en ef ekki þá tek ég sjálfur í píanóið því við flytjum alltaf einhverja tónlist og fáum fólk til að syngja.“

Alltaf gaman í vinnunni

Þorvaldur segir að ein ástæðan fyrir því að hann hlakkar alltaf til að mæta í vinnuna sé þessi góði hópur sem starfar með honum. ,,Hér er valinn maður í hverju rúmi, sumir sjálfboðaliðar og aðrir launamenn og allir eru jafn áhugasamir. Ég nefni sem dæmi organista kirkjunnar, Jónas Þóri Þórisson sem er galdramaður í tónlist. Hann er ótrúlega styðjandi við allt kirkjustarfið og hugmyndaríkur. Jónas er alltaf að hugsa fram í tímann sem er hluti af því sem við leggjum okkur fram um að gera. Hann hefur skilgreint hugtakið ,,ómögulegt“ upp á nýtt og segir að það sé í raun ekkert til sem er ómögulegt heldur taki sumt bara heldur meiri tíma. Um daginn báðu aðstandendur þess sem verið var að jarða til dæmis um sérstakt lag sem það hafði heyrt sinfóníuhljómsveit spila og langaði óskaplega til að fá þetta sérstaka lag spilað við jarðarförina. Við bárum þetta undir  Jónas sem hikstaði aðeins þegar hann heyrði lagið flutt af sinfóníuhljómsveit en sagði svo að ef hann fengi fiðluleikara með sér gæti hann gert þetta og það varð út og allir voru ánægðir.

Flóttinn úr þjóðkirkjunni 

Þorvaldur segir að flóttinn úr þjóðkirkjunni sé bara stórt verkefni sem kirkjan verði að taka á og það sé að gerast alls staðar í hinum vestræna heimi. Nú sé að fækka í stóru þjóðkirkjunum og fjölbreytni að aukast sem sé í sjálfu sér eðlileg þróun. ,,Við hér í þessu prestakalli, sem er Bústaðakirkja og Grensáskirkja, höfum sett okkur markmið. Hér eru mjög margir starfandi en hér eru þrír prestar, djáknar, organistar, sóknarnefndir og messuþjónar og við erum ákveðin í að vinna gegn þessari þróun eins og við getum. Við ætlum að setja okkur það markmið að fjölga í sóknunum á næstu fimm árum með því að laða fólk í starfið með ýmsum ráðum og byrja á börnunum. Síðan ætlum við að tala um starfið almennt, t.d. af hverju fólk er ekki í þjóðkirkjunni en vill samt láta skíra barnið sitt í kirkjunni. Hluti af ástæðu fyrir fækkuninni eru ákveðnar kerfisbreytingar þótt það sé ekki aðalástæðan. Þannig er að áður fylgdi barn alltaf móður í trúfélag en nú eru lögin þannig að foreldrar verða að vera í sama trúfélagi til að barnið skráist sjálfkrafa, annars er það ekki skráð í neitt trúfélag. Þess vegna fjölgar  börnum sem eru ekki skráð í neitt félag. Fólk vill samt láta skíra barnið sitt í kirkju en verður sjálft að skrá barnið ef þau kjósa. Við getum ekki gert  það. Þetta er eitt af því sem hefur áhrif á fækkunina og við ætlum að tala um þetta og ýmislegt annað upphátt.

Leiðinlegast við að vera prestur

Þorvaldur segir að það sé næstum allt skemmtilegt sem við kemur starfi prests en nefnir þó eitt sem getur talist leiðinlegt. Það eru atriði eins og stór mál varðandi trúnaðarbrest presta sem hafa komið til. ,,Annað en það er skemmtilegt en stundum erfitt en næstum aldrei leiðinlegt,“ segir Þorvaldur sáttur við sitt starf og hlakkar til jólanna.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 22, 2022 07:00