Pálmi Matthíasson stefndi á hótelrekstur

Pálmi og Unnur eru mikið útivistarfólk. Hér eru þau í höfuðstöðvum PING í Arizona þangað sem þau fóru í golfferð.

Pálmi Matthíasson hefur nú annað aðalnafn sem er afi Pálmi enda hefur afahlutverkið verið honum mjög dýrmætt í mörg ár og nú getur hann sinnt því hlutverki enn meira en áður.

Þegar kom til að fá Pálma í viðtal gekk það ekki þrautalaust því hann var þá á leiðinni upp á Vatnajökul að gifta par. Næst þegar við höfðum samband var hann að fara að kistuleggja en þetta hafðist í þriðju atrennu. Pálmi er því ekki hættur að sinna prestsstörfum þótt hann sé hættur að vera sóknarprestur.

Pálmi er Akureyringur og ættaður frá Grenivík. Flestir í föðurfjölskyldunni voru tengdir sjónum og afi hans í móðurætt rak útgerð og faðir hans átti bát. Hann fór því ungur á sjóinn með þeim og minnist þess að afi hans fór gjarnan með sjóferðabæn í upphafi ferðar.

„Ég var alinn upp í sjómannsfjölskyldu þar sem trúin var eðlilegur hluti af lífinu. Ég hugsaði oft um samferðamenn sem fóru í vegferð til að leita Guðs og fundu. Vissu hvar og hvenær trúin varð þeirra. Ég átti ekki slíkan stað og stund og var hugsi yfir því. Það rann síðan upp fyrir mér að ég hafði átt samleið með Guði frá barnæsku, hann var bara alltaf hluti af lífinu. Trúin er góð tilfinning og gott að finna nálægð Guðs,“ segir Pálmi Matthíasson sem náði sjötugsaldri fyrir skömmu. Hann hefur starfað sem sóknarprestur norðan heiða og sunnan og síðustu 32 árin í Bústaðakirkju í Reykjavík. Eiginkona Pálma er Unnur Ólafsdóttir og eiga þau eina dóttur og þrjú barnabörn.

Hefur komið víða við

Pálmi hjólar mikið og hér er hann í Elliðaárdalnum.

Í fjölskyldu Pálma voru ættmenn hans sjómenn upp til hópa. Sjórinn heillaði og hann byrjaði snemma að fara með á sjóinn. Um leið missti hann af ýmsu sem var að gerast í landi eins og íþróttum. Hann réði sig því í byggingavinnu og vann einnig á hótelum á Akureyri. Hann var til dæmis pikkaló á Hótel KEA 12 ára gamall og síðar varð hann næturvörður og í gestamóttöku bæði á Hótel Varðborg og Hótel KEA. Pálmi var síðan fenginn til að stökkva inn í reksturinn þegar upp komu veikindi og það kveikti áhuga hans á hótelrekstri. „Ég stefndi lengi vel á að fara að læra hótelrekstur og var búinn að fá inni á frægum hótelskóla í Sviss,“ segir Pálmi. „Þegar leið á sumarið spurði mamma mig hvort ég væri að fara til Sviss eða Reykjavíkur eða hvert ég ætlaði eiginlega að fara,“ segir Pálmi og brosir. „Ég svaraði henni hreinskilnislega og sagðist bara ekki vita það. Mér þótti ég vera að svíkja sjálfan mig ef ég færi ekki í guðfræðina því ég vissi að mig langaði til að vinna með fólki og leggja lið í ólíkum aðstæðum. Það væri bara spurning hvernig ég myndi nálgast það verkefni. Auðvitað voru ýmsar leiðir til þess og hótelrekstur gat verið ein þeirra og guðfræðin önnur,“ segir Pálmi sem lærði ungur að þakka Guði í lífi og leik. „Maður þakkaði fyrir góða leiðsögn ef vel gekk á sjónum, þakkaði fyrir góðan leik í íþróttum og annað eftir því. Ég lærði að bera virðingu fyrir náttúrunni því hún væri gjöf sem við yrðum að fara vel með. Ég var svo heppinn að kynnast þessu viðhorfi til lífsins ungur og það hefur fylgt mér alla tíð.“

Gömlu lögreglumennirnir stunduðu áfallahjálp

Þegar Pálmi settist svo í Háskólann fór hann að vinna í rannsóknarlögreglunni í Reykjavík og svo RLR. „Það var einhver besti skóli fyrir lífið sem ég hef farið í gegnum. Gömlu karlarnir kenndu okkur ýmislegt sem núna er kennt í skólum. Lífið hafði kennt þeim margt sem nú er til dæmis kallað áfallahjálp. Þegar mikið hafði gengið á eftir erfiðar vaktir man ég eftir að Njörður heitinn Snæhólm sagði gjarnan: „Strákar, nú skulum við koma út á Loftleiðir og fá okkur morgunmat saman. Þar sátum við og ræddum um það sem hafði gengið á og áttum góða stund. Svo sagði hann okkur að fara heim og hvíla okkur og koma svo aftur ferskir. Þetta var eftirfylgnin sem lífið hafði kennt þeim að skipti svo miklu máli. Sálgæslan sem kirkjan hefur sinnt frá örófi alda hefur ekkert breyst og er í raun nákvæmlega það sem menn kalla í dag áfallahjálp og er í boði daga og nætur,“ segir Pálmi og brosir.

Útvarp og smíðar

Pálmi byrjaði að vinna við svæðisútvarpið á Akureyri með Jónasi Jónassyni, Ólafi H. Torfasyni og Birni Sigmundssyni þegar það var sett á stofn. Til að byrja með fóru þeir á fætur fyrir allar aldir til að vinna útvarpsefni fyrir morgunútvarpið áður en þeir mættu síðan í sína föstu vinnu.

Pálmi er líka með próf í húsasmíði sem hann hefur ekki nýtt sér en líklega nýtist manni allt nám segir hann. Þegar hann tók sveinsprófið dró hann snúinn hringstiga með öllu sem því fylgdi. Hann segir að prófdómarinn hafi eiginlega talað hann í gegnum prófið. Hann tók líka meiraprófið og þá sem valgrein í menntaskóla, sem var nýlunda og það nýttist í sumarvinnu. Pálmi var liðtækur í íþróttum en segist ekki hafa verið nógu lengi í neinni íþrótt til að verða virkilega góður.

Fékk aðstoð við að undirbúa starfslokin

Pálmi segist hafa komist að því að starfslokin væru flóknari en hann hefði gert sér grein fyrir. „Góðir vinir mínir voru búnir að segja mér að ég þyrfti að undirbúa mig fyrir þessi tímamót en ég hafði ekki spáð í að ég hefði þurft að gera einhverjar ráðstafanir varðandi eftirlaunin o.s.frv. En svo stóð ég allt í einu frammi fyrir því að tíminn var kominn. Ég komst líka að því að alls staðar sem ég þurfti að sækja aðstoð, í stofnanir og sjóði, mætti mér gott og hæft fólk sem ráðlagði mér og leiðbeindi af mikilli einlægni. Allt þetta kerfi er flókið og eins gott að fá aðstoð í þeim frumskógi. Ég var mjög heppinn þar.“

Byggðu hús í hverfi eldri borgara

Hér er Pálmi í íshelli í Vatnajökli.

Pálmi segir að hann og Unnur hafi ákveðið að flytja sig um set úr Bústaðahverfinu þegar Unnur hætti að vinna og flytja í Garðabæinn. Þau gengu í félag eldri borgara í Garðabæ og gátu tekið þátt í byggingu raðhúsa á einni hæð niður við sjóinn fyrir þremur árum. „Þetta er frábært samfélag þar sem fólkið, sem býr í hverfinu, er mjög samhent. Við getum hvatt dyra hvert hjá öðru og notið samvista.“

Unnur er heldur yngri en Pálmi en valdi að haga málum sínum á þennan veg að hætta snemma að vinna og tekur nú ríkan þátt í að gæta barnabarnanna. Dóttir þeirra og tengdasonur búa í Garðabæ með þrjú börn sem sækja mikið til þeirra. Foreldrar Pálma bjuggu þar í námunda og nú er móðir hans á lífi en faðir hans fallinn frá. „Barnabörnin koma gjarnan hingað í hádeginu og svo er Unnur til staðar eftir skóla. Stundum er hringt og spurt hvort vinurinn megi ekki koma með. Stundum fjölgar vinunum á leiðinni og það er bara skemmtilegt og allir jafn svangir. „Við höfum óskaplega gaman af þessu og njótum þess að kynnast vel þessu merkilega, unga fólki,“ segir Pálmi.

Borðum saman einu sinni í viku

Pálmi segir að gömul skólasystkini Unnar úr Breiðagerðisskóla, gamlir grannar úr Hverfinu, séu nágrannar þeirra í þessum nýju húsum. Þau eru saman í hópi sem borðar saman reglulega heima hjá hvert öðru. Það er bannað að hafa mikið fyrir og allir hjálpast að. Markmiðið er að hittast og spjalla en svo þegar við erum komin hringinn förum við kannski út að borða einu sinni og svo byrjar rúnturinn aftur. Þessi siður er ómetanlegur fyrir alla,“ segir Pálmi. „Vináttan er nefnilega það mikilvægasta sem hægt er að taka með sér inn í árin eftir starfslok.“

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Greinin birtist fyrst á Lifðu núna 8.október 2021

Ritstjórn júlí 15, 2022 06:49