Ekki ást við fyrstu sýn en einlæg vinátta

 

Sumar og sól á jólum.

Sumar og sól á jólum.

Matthildur Björnsdóttir hefur búið í Ástralíu í 30 ár. Hún segir að sig hafi aldrei langað að snúa til baka eftir að hún flutti. „Ég var orðin langþreytt á löngum vetrum snjó og hálku. Ég hafði beðið alla góða vætti um að senda mig þangað sem enginn væri snjórinn eða hálkan og mér var svarað. Ég kynntist manni fá Ástralíu. Svo er það fámennið á Íslandi það er heftandi,“ segir Matthildur.

Andlegum þörfum ekki sinnt

Hún fæddist í húsi afa síns og ömmu við Ásvallagötu skömmu fyrir miðja síðustu öld. Hún var í umsjá þeirra fyrstu misserin því hún fæddist með mjöðmina úr liði og þurfti á spítalavist að halda. Móðir hennar hélt hins vegar til Ameríku til að vera með föður hennar sem var þar í námi. „Ég man ósköp lítið eftir mér fyrstu sjö æviárin eða svo. Veit þó að mamma kom að ná í mig og með henni flutti ég til pabba í Ameríku. Fjölskyldan flutti svo til Japan en ég man heldur ekkert eftir því. Hef bara séð myndir af mér og systur minni sem voru teknar þar. Fjölskyldan flutti til Íslands árið1954,“ segir Matthildur. „Foreldrar mínir voru vansælir. Ég fékk ekki gott upp-eldi en ég fékk það sem ég kalla í dag barna-gæslu. Andlegum þörfum  var ekki sinnt og mér talin trú um ýmislegt sem ég hafði engar forsendur til að vega og meta sem barn. Þegar ég var unglingur mátti ekki segja styggðaryrði um foreldra.  Ef ég leyfði mér að segja að ekki væri allt sem sýndist á mínu heimili var mér sagt að ég væri vanþakklát, svikari og slæm manneskja. Það tók tíma að vinna úr þessu öllu saman en í dag get ég sagt með sanni að líf mitt er fullt af reynslu og innsæi. En það var ekki fyrr en ég var flutt til Adelaide sem ég fór að vinna almennilega úr reynslu minni,“ segir Matthildur og bætir við að það þurfi að elska börn. Það sé ekki nóg að næra líkamann, sálin þurfi sitt. „Börn ganga í gegnum margt sem unglingar. Öll börn, hvort sem það eru mín eigin eða önnur reikna með að eiga hina fullkomnu móður, það er erfitt þegar það gerist ekki. Maður þarf að læra að verða sannur og takast í hreinskilni á við það sem á undan er gengið í lífi manns. Ég er hætt að gera þá kröfu til mín að ég hafi verið hin fullkomna móðir og aðrir hafi séð mig á þann hátt. Það gerðist eftir að ég var búin að gera upp mína eign barnæsku.“

Langaði að læra hárgreiðslu

Í Botanic Gardens

Í Botanic Gardens

Matthildur hóf skólagöngu í Melaskólanum. „Minningar mínar þaðan einskorðast við lýsi. Ég man þegar það var verið að hella volgu lýsi upp í okkur. Það var hræðilegt,“ segir hún. Ekki varð dvölin í Melaskóla löng því fjölskyldan flutti nokkuð oft fyrstu árin sem hún bjó á Íslandi. „Það má segja að ég hafi ekki vaknað til lífsins fyrr en ég kom í Langholtsskóla. Þar lenti ég hjá yndislegum kennara. Ég naut hans þó ekki mjög lengi því pabbi og mamma byggðu hús í Hlíðunum og þaðan lá leið mín í Breiðagerðisskóla. Þar var ég óheppin með kennara og viðbrigðin voru mikil. Á unglingsárunum lá svo leiðin í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og þaðan í hússtjórnardeild Lindargötuskólans.“ Matthildi langaði að læra hárgreiðslu. Hún var lærlingur í tvö ár á stofu á Laugavegi. „Þar þvoði ég hár, sópaði gólf, hellti upp á kaffi og setti bláa dropa í hár sumra viðskiptavinanna. Ég kláraði námið hins vegar ekki. Mig skorti sjálfstraust til þess, fannst óþægilegt þegar fólk var að horfa á mig þegar ég var að vinna. Konan sem átti stofuna glímdi við ýmisskonar vandamál og gat ekki hjálpað þessum óþroskaða unglingi til að vinna bug á feimninni.“ Matthildur ákvað því að hætta og fór að vinna í Landsbankanum.

gott-ad-tylla-serRáðskona í sveit

Lífið féll í skorður og var líkt lífi flestra annarra. Hún gifti sig og eignaðist tvö börn. Þau hjónin skildu og Matthildur var einstæð móðir næstu sjö árin. „Börnin mín eru Snædís Róbertsdóttir fædd 1971 og Björn Róbertsson fæddur 1973. Ég á orðið fimm barnabörn. Samskipti mín og barnanna voru góð þegar við vorum saman. Eftir að ég skilidi réði ég mig sem ráðskonu austur á firði og var þar á tveimur bæjum. Börnin voru svo ung að ég taldi þetta góðan kost. Ég var ekki tilbúin að ráða mig í vinnu í Reykjavík og hafa þau í gæslu á meðan ég væri að vinna. Mér fannst það athyglisverð reynsla að fara út á land að vinna. Ég fékk nýja sýn á lífið og tilveruna og ég og börnin gátum aðlagað okkur breyttum aðstæðum. Á þessum tíma hugsaði ég mikið um hvers vegna svo mörg hjón skildu. Mín niðurstaða var sú að fólk laðist að hvort öðru líkamlega en gleymi að að huga að andlega sambandinu. Fólk kann ekki eða getur ekki tjáð sig hvort við annað, hefur mismunandi gildi og verðmætamat.  Á meðan ég var á lausu hitti ég marga menn í Þórskaffi en enginn þeirra náði að heilla mig. Þeir höfðu ekki þá andlegu dýpt sem ég var að sækjast eftir,“ segir Matthildur sem segist ekki hafa verið í góðu sambandi við foreldra sína á þessum tíma. En þá gerðist undrið.

Hitti mann í óbyggðum

„Sumarið 1983 ákvað ég að fara í hálendisferð um Ísland. Þar hitti ég Malcolm John Sheard sem er maðurinn  minn í dag. Hann settist við hliðina á mér í rútunni og sagði mér strax að hann hefði mikinn áhuga á Íslandi og  hefði haft það allar götur síðan hann var barn. Áhuginn var svo mikill að hann hafði reynt að læra íslensku af grammafónplötum áður en hann kom til landsins.  Enskan mín var ekki neitt sérstök á þessum tíma en ég gerði hvað ég gat og reyndi að svara öllum hans spurningum. Ég man að hann spurði mikið um hvað nöfnin á vegaskiltunum þýddu. Okkur kom vel saman og mér þótti gaman að tala við hann í ferðinni.“  Matthildi þótti maðurinn raunar svo áhugaverður og djúpvitur að hún bauð honum að búa hjá sér í nokkra daga áður en hann hélt utan aftur. „Börnin voru í sveit svo ég var ein heima. Þetta var vinátta en ekki ást við fyrstu sýn. Við töluðum og töluðum og Malcolm var sá fyrsti sem ég hafði hitt á lífsleiðinni sem gat gefið mér skýringar á því hvernig foreldrar mínir höfðu komið fram við mig. Dvöl hans hér á landi lauk en við vorum áfram í sambandi.“  Ástralinn lét ekki þar við sitja hann vitjaði Matthildar tveimur árum síðar þegar hann kom aftur til landsins og þá tókust með þeim ástir. Hún fór til Ástralíu ári síðar. „Malcolm bauð mér í heimsókn. Við fórum í átta vikna ferðalag um Eyjaálfu. Mér fannst þetta stórkostlegt land og þegar ég kom heim skrifaði ég fimm greinar í Morgunblaðið með yfirskriftinni „Þannig sá ég Ástralíu“.  Ef einhver hefur áhuga getur hann flett þessum greinum upp.“

 Ástfangin í Adelaide

Lesið fyrir ungar konu.

Lesið fyrir ungar konu.

Þar með var ekki aftur snúið. Matthildur var orðin ástfangin og ákvað að flytja hinu megin á hnöttinn til borgarinnar Adelaide í Ástralíu. Þar sem sólin skín allt árið og engin er hálkan eða snjórinn.  „Þetta var náttúrulega allt öðru vísi líf. En mér líkuðu umskiptin vel. Það gladdi mig ósegjanlega mikið hvað fólkið var opið og glatt í viðmóti. Ástralir taka útlendingum miklu betur en Íslendingar gera. Þeir hafa áhuga á hvaðan fólk kemur. Svo var það öll þessi sól, hún er ólýsanlega góð fyrir sálina. Auðvitað saknaði ég fólks á Íslandi og sumra siðvenja sem þar eru í heiðri hafðar. Fyrst í stað var maður í bréfasambandi við fólk en svo kom netið og það breytti miklu. Ég á alltaf mínar gömlu og góðu vinkonur á Íslandi, vinataugin á milli okkar slitnar ekki. En ég þurfti á þessum umskiptum í lífi mínu að halda. Mér fannst ég hálfgert vélmenni á Íslandi, maður þurfti að þræla sér út til að sjá fyrir sér og sínum. Það var enginn tími til finna út hver maður væri í raun og veru. Ef einhver var að líta inn á við, var það kallað „naflaskoðun“ og þótti ekki góð hegðun og mikil tímasóun.“  Matthildur segist frá fyrsta degi hafa ákveðið að laga sig að siðum Ástrala. Hún fór í auknum mæli að snúa sér að andlegum málefnum. „Það var eins og að koma til Paradísar að koma hingað til Adelaide. Hér eru pálmar, fallegur gróður og fólkið svo vingjarnlegt. Ástalir eru svo opnar manneskjur þeir eru ekki hræddir við að tjá sig um sín mál eins og mér finnst Íslendingar vera. Ég var fertug þegar ég flutti hingað og hafði mikla þörf fyrir að kynnast sjálfri mér. Um leið þurfti ég svör við því hvers vegna lífið hafði ekki verið eins og “lofað var.”

Langar ekki að snúa til baka

Andleg málefni eru Matthildi hugleikin.

Andleg málefni eru Matthildi hugleikin.

„Fyrstu mánuðina eftir að ég flutti sótti ég námskeið fyrir innflytjendur. Það var gaman og maður kynntist fólk frá mismunandi löndum. Kennarinn okkar var ógleymanlegur og hafði mjög gott eyra fyrir mismunandi framburði. Ég fór líka að þrífa í heimahúsum og varð það sem kallað er „Avon Lady“. Þetta var góð æfing og mér líkaði þessi vinna vel þau rúmu sex ár sem ég sinnti henni. Ég ræktaði andann á sama tíma og fór á námskeið í andlegum fræðum. Svo fór ég að nota meðfædda eiginleika mína öðrum til góðs. Ég fór meðal annars að vinna við heilun og lesa í orkuhjúp fólks og rýna í fyrri líf þess.“ Matthildur hefur skrifað nokkrar bækur fyrir sjálfa sig og aðra. Hún segir að skrif liggi vel fyrir sér og hún fái ákveðna útrás við skriftirnar. „Hér finnst öllum sjálfsagt að maður líti inná við öfugt við það Íslendingum finnst. Síðasta bókin sem ég skrifaði varð til með því að ég lét fingurna flæða um lyklaborðið  á þann hátt uppgvötvaði ég svo margt sem hefði annars verið mér hulið. Ætli megi ekki segja að sú bók sé skrifuð út frá mínu innra sjálfi.“ Matthildur segir að hana hafi aldrei langað til að flytja til Íslands aftur en ef kringumstæður og heilsa hennar leyfðu væri hún alveg til í að heimsækja landið aftur  „Ég ólst upp við það viðhorf að þeir sem voru fæddir á Íslandi ættu alltaf að vera þar. Ef þeir flyttu eitthvert annað ættu þeir að vera uppfullir af heimþrá. Ef þeir væru það ekki væri eitthvað að þeim. En í Adelaide uni ég mér vel og hef enga heimþrá. Hef komið til Íslands í heimsóknir og það dugar mér.  Ég er komin í hjólastól og það er gott að komast um hér borgin er svo flöt og hér eru allir boðnir og búnir við að hjálpa manni að komast um.“

Ritstjórn nóvember 4, 2016 10:43