Tengdar greinar

Ekki deyja án þess að hafa lifað

„Þeir sem lifa lengst eru þeir sem spjalla við alla sem þeir hitta“ segir Charlotte Bøving leikkona þar sem hún stendur á nýja sviði Borgarleikhússins og talar um dauðann.  Hún er  höfundur og eini leikari  verksins Ég dey. Hún segir líka að þeir sem lifi heilbrigðu lífi lifi ekki endilega lengur en aðrir og það séu ekki alltaf þeir sem reykja og drekka sem deyi fyrst. Svo mörg voru þau orð. Blaðamaður Lifðu núna brá sér á sýninguna, forvitinn að vita hvernig tiltölulega ung kona fjallar um dauðann.

Leikskrá sýningarinnar lítur út eins og sálmaskrá og þar er að sjálfsögðu að finna æviágrip Charlotte sem fæddist árið 1964 í Árósum í Danmörku. Hún útskrifaðist sem leikari frá Leiklistarskólanum í Árósum árið 1992 og átti farsælan feril á fjölum danskra leikhúsa að námi loknu. Þegar hún var 34 ára urðu straumhvörf í lífi hennar. Hún flutti til Íslands, eignaðist þrjár dætur, gifti sig á Eyrarbakka og hóf að starfa á íslensku leiksviði, en þá líka sem höfundur og leikstjóri. Hún hefur leikið í fjölda kvikmynda og leikverka hér á landi undanfarin ár. Ég dey er þriðji einleikur Charlotte. Hinir fyrri eru Hin smyrjandi jómfrú og Þetta er lífið – og nu er kaffen klar.

Fyrri hluti sýngarinnar Ég dey, var hreint frábær. Leikurinn góður og leikmynd og leikhljóð einkar skemmtilega gerð. Í hléinu var boðið í erfidrykkju og síðan haldið áfram. Síðari hlutinn hefði mátt vera aðeins þéttari og markvissari, að mati þess sem hér skrifar, en upplifun leiksýningar er auðvitað í hæsta máta persónuleg og þess vegna ræddum við, við nokkra leikhúsgesti í hléinu og eftir sýninguna.

Búningar og leikmynd eru alveg sérstaklega vel gerð

Ragnheiður Steindórsdóttir. Þetta er mjög skemmtilegt, ekta „lugn“ stemming. Þetta eru allt hugsanir sem hafa velkst um í kollinum á mér. Nokkuð sem maður fer að velta fyrir sér eftir miðjan aldur. Ég tala nú ekki um þegar maður er að verða löggilt gamalmenni. Maður er að nálgast það að verða sturtað af færibandinu, er bara einn þorskurinn þar, á leiðinni eitthvert útí óvissuna.  Ég les ekki oft sjálfshjálparbækur og það er tímasparnaður fyrir mann þegar einhver dregur saman á  einn stað staðreyndir og þanka um eitthvert ákveðið efni sem maður hefur verið að velta fyrir sér.  Þegar maður hefur misst sjálfur, þá auðvitað hugsar maður allt upp á nýtt og allt verður svo dýrmætt í þessu lífi.

Hilmar Knudsen.  Mér fannst handritið að verkinu ekki gott. Þetta voru „sketsar“ án samhengis. En Charlotte gerði þetta vel. Við vorum sex saman og vorum ekki hrifin. Maður er vanur því að hafa gaman í leikhúsinu, en svo verður maður kröfuharðari með árunum, vegna þess að maður ber verkin alltaf saman við það besta sem maður hefur áður séð. Við erum svolítill hópur sem fer saman í leikhús og þær ráða því yfirleitt konurnar hvað við sjáum.

Ólöf Kjaran. Það er alveg rétt hjá honum, við stjórnum þessu konurnar. Þeir koma með. Við reynum að hafa þetta fjölbreytt, veljum til dæmis eitthvað létt einu sinni á ári. Okkur finnst Charlotte svo skemmtileg og sjarmerandi. Hún leikur svo mikið með andlitinu og heldur þessu alveg uppi. Svo er hún frábær kabarett leikona. Þegar hún setti upp pípuhattinn og fór að syngja, heillaði hún mig alveg uppúr skónum. Hún er draumaleikkona en mér fannst hún leggja þarna í of erfitt verkefni. Dauðinn er mjög erfitt verkefni. Hún var að syrgja vinkonu sína og sá partur fannst mér bestur.

Kristín Jónsdóttir. Mér fannst þetta mjög góð sýning. Við fórum tvær saman og vorum báðar búnar að lesa gagnrýnina, þannig að við fórum ekki með miklar væntingar. Charlotte er svo flínk, hún getur dansað og sungið, svo hafði hún þögn þarna, það var mjög flott. Hún hefði kannski  getað sagt frá fleirum. Hún sagði frá afa sínum, mömmu sinni og svolítið frá föður sínum. Svo talaði hún mikið um vinkonu sína sem dó.  Mér fannst frábær senan þar sem hún er með kerti að segja frá afa sínum í fangabúðunum. Hléið truflaði mig ekki, þetta var erfidrykkja og við ræddum um verkið, bæði í hléinu og eftir sýninguna. Mér fannst þetta stórkostlega vel gert hjá henni.  Búningar og leikmynd voru góð.  Charlotte fyllti svo vel út í rýmið þó hún væri bara ein á sviðinu. Ég var alveg hæst ánægð með þessa sýningu.

Ritstjórn febrúar 8, 2019 11:42