Að fá að lifa uppfyllingu drauma sinna

Draumar liggja í loftinu á stóra sviði Borgarleikhússins og þrjú ungmenni úr Dölunum reyna að fanga þá. Gallinn er bara sá að draumar þeirra eru óraunhæfir miðað við þann tíðaranda sem þau búa við. Konur eru ekki skáld og samkynhneigðir karlmenn eiga sér ekki tilverurétt. „We are such stuff as dreams are made on; and our little life is rounded with a sleep“ segir Prospero í Ofviðrinu eftir Shakespeare og Hekla Gottskálksdóttir tekur undir. Hún segir okkur vera drauma okkar.

En konur geta ekki skrifað að mati skálda og útgefenda árið 1963. Þeir sitja á Mokka og mæra hvern annan, dást að orðsnilld og hugmyndaauðgi, stíl og byggingu en konur skrifa ekki af djarfleika og einlægni. Þær skrifa kerlingabækur um kaffiþamb í Dölunum. Þess vegna sverja þau Jón John og Hekla þess dýran eið að varðveita leyndarmál hvors annars, samkynhneigð hans og þörf hennar fyrir að skrifa. Ísey er ekki síðra skáld. Allt nærir sköpunargáfu hennar, konan í næsta húsi sem horfir tómu augnaráði út um eldhúsglugga kjallaraíbúðarinnar og gat í sængurveri barns svo brot af himninum skín í gegn. En hún verður að gefa dagbækur sínar og rithöfundadrauma upp á bátinn því það er erfitt að hugsa um eitt barn hvað þá tvö. Jón John dreymir hins vegar um samfélag, veröld þar sem hann fær frelsi til að vera hann sjálfur og starfa við búningahönnun og saumskap í leikhúsi. Hans draumur er jafnfjarlægur og vinkvenna hans.

Þetta er inntakið í sýningunni Ungfrú Ísland sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu þann 17. janúar síðastliðinn. Leikgerð Bjarna Jónssonar var unnin í samvinnu við Grétu Kristínu Ómarsdóttur sem er jafnframt leikstjóri og skáldsaga Auðar Övu Ólafsdóttur lifnar við á heillandi og frumlegan hátt. Hér stíga þær fram persónur Auðar Övu og eru jafn heillandi og áhugaverðar og á síðum bókarinnar.

Skýrar og áhugaverðar aukapersónur 

Auði Övu er líka svo óskaplega lagið að skapa ógleymanlegar og skýrar aukapersónur og það tekst einkar vel að draga þær upp hér og gæða lífi. Foreldrar Heklu, bóndinn sem lýsti veðrinu í dagbókum sínum og elskaði eldfjöll og bóndakonan sem fékk ekki að nefna dóttur sína eftir að hafa barist í tvo sólarhringa við að koma henni í heiminn. Og við má bæta drykkfelldu skáldunum, misheppnaða skáldinu sem lá ekkert á hjarta og konunni sem fékk aldrei að klára setningarnar sínar og var hætt að geta hugsað heila hugsun af þeim sökum. Hér spretta þær fram og er skilað frábærlega af einstaklega færum og flottum leikurum. Esther Talía Casey, Haraldur Ari Stefánsson, Valur Freyr Einarsson, Villhelm Neto, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Sólveig Arnarsdóttir eru óaðfinnanleg og sannfærandi í öllum sínum hlutverkum. Unnsteinn Manuel Stefánson sér um tónlistina og hann og Esther Talía skila nokkrum einstaklega fallegum tónlistaratriðum.

Stjörnurnar eru hins vegar þau Íris Tanja Flygenring, Birna Pétursdóttir og Fannar Arnarson. Íris Tanja er lifandi og falleg og skilar vel því kyrra yfirborði persónunnar sem lesendur skynja svo vel þegar bókin er lesin. Hekla er rismikið eldfjall en alla jafna sjást engin merki um eldinn sem kraumar undir niðri, um kvikuna í kvikuhólfinu. Útrás fyrir sinn innra eld fær Hekla í skrifum sínum. Þar verða hennar gos og neistaflug þótt karlmenn sjái ekki annað en ytra borðið, fegurð hennar og bjóða henni þess vegna að taka þátt í keppninni Ungfrú Ísland.

Birna í hlutverki Íseyjar er hins vegar ekkert nema tilfinningar og þversagnir. Hún er hamingjusöm í hjónabandinu og móðurhlutverkinu en jafnframt einmana og ófullnægð og er áður en hún veit af búin að skrifa ótal síður í dagbókina um dagrenninguna. Birna hefur alveg sérstaka útgeislun á sviði og nær vekja samúð áhorfenda og reiði yfir því hlutskipti að hún verði að velja, leggja drauminn á hilluna. Fannar skilar vel sársauka mannsins sem er útskúfað, ýtt út á jaðar samfélagsins og neyddur til að lifa í lygi vegna þess að hvergi er rými fyrir karlmenn eins og hann.

Þetta er feikilega vel unnin sýning og þótt hún sé löng finnur áhorfandinn ekkert fyrir því. Eftirtektarvert er hvernig lýsing í bland við vörpun af skjá er notuð til að skapa nostalgíska tilfinningu, eins og verið væri að fletta í gegnum myndaalbúm og ljósið var einnig notað til að skapa tilfinningu fyrir eldgosi. Búningarnir drógu fram einkenni persónanna á lúmskan og skemmtilegan hátt auk þess að heiðra tíðarandann og tískubylgjur þessara ára. En einnig brá fyrir búningum sem eru svo ævintýralegir og töfrandi að þeir eru meira eins og skúlptúrar sem blanda saman tilvísunum í tímann og vísunum í náttúruöflin. Leikmyndin er einnig lifandi og vel náðist að skapa tilfinningu fyrir bæ að breytast í borg.

Sagan er frábær og gerist á tímum þegar umbylting á tíðaranda og viðhorfum er í burðarliðnum. Martin Luther King Jr. hefur nýlega leitt göngu mörg þúsunda manna inn í Washington DC og flutt ræðu sína um drauminn sem hann ber í brjósti. Rétt handan við hornið er uppreisn ungs fólks gegn fastmótuðu samfélagi foreldra sinna og barátta fyrir kvenfrelsi og mannréttindum hinsegin fólks. En það er svo gott að láta minna sig á það reglulega að þannig var það ekki alltaf. Það er ekki langt síðan að fólk fékk ekki að lifa uppfyllingu drauma sinna, fengu ekki að læra það sem hugur þeirra stóð til, ekki að vinna við það starf sem vakti mestan áhuga og ekki að lifa við tilfinningalegt frelsi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 18, 2025 11:32