Níu ráð fyrir eldri ökumenn sem ætla á bílnum í sumarfríið

Þegar lagt er í sumarleyfið á bíl, getur það þýtt margra klukkustunda akstur framundan. Það er nauðsynlegt  að gaumgæfa alla hluti vel áður en lagt er af stað. Það getur til dæmis verið varasamt ef fólki verður of heitt í bílnum.  Eftirfarandi ráð fyrir ökumenn á leið í frí, birtust á vef danskra eftirlaunamanna og þó hiti sé ekki endilega algengt vandamál hjá íslenskum ökumönnum, getur hann verið það.  Rætt er við tvo umferðaröryggissérfræðinga í dönsku greininni sem gefa eldri ökumönnum níu ráð, ætli þeir á bíl í fríið og hafa eftirfarandi að segja um eldri ökumenn.

„Eldri ökumenn eru hvorki hættulegri eða verri ökumenn, en fólk í öðrum aldurshópum – þvert á móti. En á sumrin getur fólki orðið heitt í bílnum og það getur verið hættulegt. Sérstaklega ef það leiðir til þess að menn fái hitaslag, sem getur gerst ef þeir eru á vatnslosandi lyfjum. Þess vegna þurfa menn að muna að drekka nóg í ferðinni og gæta þess að þeim verði ekki of heitt“.

 1 – Skipuleggið ferðina.

Gerðu áætlun fyrir ferðina áður en þú leggur af stað. Hvaða leið ætlar þú að fara? Ætlar þú að fara eftir aðalvegunum, eða kannski sveitavegum? Eða ætlar þú að aka vegarslóða? Ef fólk þekkir leiðina sem það ætlar að fara og áfangastaðinn, verður það ekki eins stressað, þó það missi af mikilvægri beygju eða útafakstursbraut.

2  – Pakkaðu farangrinum rétt.

Þegar þú setur farangurinn í bílinn, gættu þess að hann sé ekki of mikill og settu létta hluti í box sem auðvelt er að nálgast. Þungur farangur er best geymdur neðst í farangursgeymslunni. Forðist að vera með lausa hluti inni í bílnum.

3 –   Skoðaðu bílinn.

Athugaðu hvort bíllinn er í góðu standi. Það er ágætt að tékka á ljósum, þrýstingi í dekkjum, olíu, rúðupissi og á bremsum, áður en lagt er í hann.

4 – Takið ykkur hlé í akstrinum.

Það er ástæða til að stöðva bílinn af og til, til að rétta út fótunum. Það er nefnilega ekki bara í flugferðum sem hætta er á að menn fái blóðtappa í fæturna. Ef fólk ekur í meira en þrjá klukkutíma í bíl, eykst hættan á blóðtappa fjórfalt.

5 –  Líður þér vel?

Það er ágætt að tékka á dagsforminu áður en lagt er af stað. Finnst þér þú vera nógu hress til að aka bíl. Slepptu því að fara á bílnum ef þú ert þreyttur,  þér líður illa eða ert illa fyrir kallaður af öðrum ástæðum.

6  – Skiptist á að aka.

Ef þið eruð tvö á ferð eða fleiri, skiptist þá á að keyra. Það er gott að skipta á 1,5 klukkustunda fresti, þannig að sá sem keyrir hverju sinni sé með einbeitinguna í lagi.

 7  – Stillið speglana.

Munið að stilla speglana og hnakkapúðana, þegar skipt er um bílstjóra.

8 – Drekkið nóg.

Það er gott að drekka nóg áður en farið er í ökuferðina og ef fara á í lengri ferð, takið þá líka með ykkur vatn til að drekka á leiðinni. Sumt eldra fólk gætir þess ekki að drekka nóg af vatni yfir daginn og er hætt við ofþornun.

9 –  Passið uppá hitann í bílnum.

Fylgstu með því að þér verði ekki of heitt í bílnum. Farðu úr jakka eða peysu í sumarhitanum og notaðu kælinguna í  bílnum ef á þarf að halda.

 

Ritstjórn júlí 9, 2020 09:49