Barist við bumbur og þjóhnappa

 

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

Rasskinn mannsins þrýstist fast að öxlinni á mér, fyrst önnur, svo hin. Þetta var fullorðinn maður og kinnarnar nokkuð farnar að slappast, þótt eflaust hafi hann verið með kúlurass á yngri árum. Ég reyndi að víkja mér undan en átti ekki hægt um vik, í gangsæti í sætaröð númer 34  af 35 í flugvél á leið til lands þar sem viðrar betur í febrúar en á landinu bláa.

Mín góða kona ákvað þetta einhvern daginn þegar veðrið var sem djöfullegast. „Ég verð að komast burt,” sagði hún og tilkynnti mér að hún hefði pantað viku sólarferð fyrir okkur hjónin. Hún kvartar stundum undan því að ég sé harla landfastur en þarna var nei ekki í boði. „Út vil ek,” sagði frúin, „og við bæði.” Þar með var það ákveðið. Ég hafði svo sem ekkert á móti þessari tilbreytingu, að hvíla lúin bein í sól og hita – og sötra eitthvað kalt, ef þannig stæði á.

Öngva tölu hef ég á utanlandsferðum okkar hjóna en sá vandi hefur fylgt okkur alla tíð að við erum sein á flugvelli. Það er ekki gaman að bíða á flugvöllum en við erum sérstaklega slæm með þetta. Eitt sinn lentum við meira að segja í því í London að það þurfti að senda okkur með bíl út að flugvél, eftir hraðferð í gegnum Heathrow, því búið var að loka vélinni þar sem hún stóð ferðbúin á flughlaðinu. Þetta var áður en öryggiskröfur allar voru hertar. Nú værum við einfaldlega skilin eftir á flugvellinum.

Vegna þessa flugvallarslugs okkar höfum við oft setið í sitt hvorum enda flugvéla þar sem ekki hafa verið til sæti saman fyrir svo seina flugfarþega. Þetta hefur skánað eftir að við fórum að bóka sætin fyrirfram á netinu. Þá fáum við sæti saman.

Það átti hins vegar ekki við um sólarferðina góðu í febrúar sem bókuð var í gegnum ferðaskrifstofu. Frúin þarf að klára ýmislega í sinni vinnu áður en hún heldur af landi brott. Það er í lagi ef um morgunflug er að ræða. Þá vinnur hún fram á nótt og við dratthölumst vansvefta á flugvöllinn um miðja nótt. Sólarlandaflugið var hins vegar um miðjan dag. Það þýddi að við héldum af stað frá Kópavogi svona um það bil sem skiltið „Boarding” birtist á skjánum fyrir aðra farþega á Keflavíkurflugvelli. Þeir höfðu þá um tveggja tíma skeið spreyjað á sig imvötnum í fríhöfninni, mátað sólgleraugu, stungið koníaksfleyg og súkkulaði í poka, svo ekki sé minnst á smörrebrauðið sem þeir höfðu hesthúsað í rólegheitum og skolað niður með bjór.

Tengdasonur okkar skutlaði okkur suður á Keflavíkurflugvöll – og ók létt. Ekki veitti af. Við skunduðum að afgreiðsluborði með okkar flugnúmeri. Kosturinn við að koma svona seint er að þá er engin biðröð. Afgreiðslustúlkan skáskaut augunum á klukkuna um leið og hún tók við vegabréfunum. „Gætum við fengið sæti saman?” sagði ég, bjartur í framan, eins og það væri sjálfsagðasti hlutur í heimi. Stúlkan horfði undurfurðulega á mig. „Vélin er full, þið eruð langsíðust að bóka ykkur. Ég get komið ykkur fyrir í sitt hvoru gangsætinu.” Við sættum okkur við það, án þess að átta okkur á því að gangsætin tvö væru aftast í vélinni, við klósettin.

Þetta var í lagi í flugtaki, meðan allir farþegarnir voru spenntir í sæti sín. Eftir það varð andskotinn laus. Það eru meiri ósköpin sem fólk þarf að pissa þegar það ferðast milli landa. Jú, þetta var nærri sex tíma flug og margir höfðu augljóslega skolað smörrebrauðinu niður með stórum bjór í stað lítils – og vera kann að blaðran sé eitthvað farin að gefa sig í þeim sem leita á suðrænar slóðir í febrúar – en fyrr má nú vera.

Um leið og slökkt var á beltisljósunum myndaðist biðröð við klósettin þar sem við hjónin sátum, hvort fyrir aftan annað í gangsætum, hún í sætaröð 33, ég í 34. Troðningurinn var mikill því fólkið þurfti að mætast á þröngum ganginum þegar það fór fram og til baka af klósettinu, auk þess sem áhöfnin þurfti að komast leiðar sinnar með vagn og vörur. Ef við hefðum komið snemma á flugvöllinn, svona eins og flestir gera, þá hefðum við fengið sæti saman. Þá hefði verið möguleiki fyrir mig, þótt ég hefði fengið gangsæti svona aftarlega, að halla mér að minni elskulegu eiginkonu og losna með því við mesta átroðninginn. Því var ekki að heilsa því við hlið mér sat bláókunnugt par sem ég kunni ómögulega við að halla mér að.

Því fann ég verulega fyrir rasskinnum fullorðna mannsins og því að þær höfðu – að öllum líkindum – linast með árunum. Það var ekki allt. Það er ekki nóg með að rasskinnar linist á mönnum sem sækja suður í höf í febrúar, heldur safna aðrir á svipuðu reki bumbu. Þegar margir slíkir koma saman í klósettbiðröð í flugvél fer ekki hjá því að þær strjúkist við þá sem hvergi eiga höfði sínu að halla í gangsætum. Ónefnd eru önnur líffæri sem í námunda voru.

Ókyrrð í lofti er ekki eftirsóknarverð en það skal játast að það var nokkur léttir þegar flugstjórinn rak farþegana, í tvígang, í sæti sín vegna ókyrrðar. Rétt á meðan mátti um frjálst höfuð strjúka. Ég hef flugstjórann raunar grunaðan um að hafa kveikt á beltaljósunum í síðara skiptið til þess að auðvelda flugáhöfn sinni að komast um ganginn án pissuliðsins, því vélin hreyfðist varla. En söm var hans gjörð og hafi hann þökk fyrir.

Ég rétt drap á það við minn betri helming, eftir lendingu, hvort við ættum að stefna að því að mæta aðeins fyrr á völlinn í næstu ferð. Hún tók ekki illa í það, sjálf nokkuð löskuð eftir bumbur og þjóhnappa – en ég þekki mína konu.

Við verðum síðust – að vanda.

Þessi pistill birtist fyrst á Lifðu núna fyrir Covid.

 

 

 

Jónas Haraldsson febrúar 27, 2023 07:00