Eldgos eða vírus; koma tækifæri í kjölfarið?

Perlur Reykjavíkur: Baðströndin í Nauthólsvík, HR byggingin, Öskjuhlíðin, Perlan og perlan bakvið allt er Esjan.

Í Lesbók Morgunblaðsins  frá 1987 má lesa grein um það þegar Þorkell Sigurlaugsson, þá 34 ára gamall viðskiptafræðingur, var fenginn  ásamt hópi nokkurra ungra Íslendinga til að horfa 25 ár fram í tímann og spá fyrir um breytingar í íslensku samfélagi. Þorkell lýsti líf Jónu Jóns þannig: “Áður en þú byrjar að vinna, greiðir þú nokkra reikninga. Til þess notarðu tölvuskerm, sem tengdur er gegnum símalínu við bankann. Þú tekur út af reikningnum og greiðir bílatrygginguna, símareikninginn og matarreikninginn. Úr því að þú ert sest við skerminn, velurðu þér einnig myndir sem þú vilt sjá í sjónvarpinu í kvöld og tekur frá sæti nr. 57 og 58 í Þjóðleikhúsinu á laugardagskvöldið.“

Árið 1987 þótti mörgum þessi spá Þorkels fjarstæðukennd. Hann var þá framkvæmdastjóri þróunardeildar Eimskips og það var um það leyti sem þessi framsýni maður lenti í hjólastól og hefur þurft að nýta sér hann síðan. Þorkell lenti ekki í slysi sem orsakaði lömunina heldur má rekja hana til aðgerðar sem gerð var á honum þegar hann var 6 ára gamall. “Ég varð allt í einu dettinn og þegar búið var að útiloka að það var ekki fíflagangur var ég sendur til Kaupmannahafnar þar sem læknar fundu út að ég var með góðkynja æxli við mænuna.” Æxlið var fjarlægt og Þorkell var sendur í endurhæfingu í hálft ár og fékk máttinn aftur. Í mörg ár var hann í fínu standi en gekk þó við staf eða þar til hann var kominn undir fertugt. Þá var hann orðinn máttfarinn aftur og fótbrotnaði við fall. Við það lenti Þorkell í hjólastól og þar með var ekki aftur snúið.

Allt góða fólkið í kringum mig

Þorkell og Kristín í Berlín.

Þorkell segist hafa verið einstaklega heppinn í lífinu. Hann nefnir þar fyrst og fremst fjölskyldu sína en hann er kvæntur Kristínu H. Vignisdóttur og eiga þau þrjú börn sem Þorkell segir brosandi að hafi verið svo heppin að hafa notið uppeldis Kristínar. Hann hafi sett vinnuna í forgang en hefur í seinni tíð haft meiri tíma fyrir fjölskylduna. Hann njóti þess að fylgjast með hversu vel hafi tekist til með uppeldi barna sinna þótt hann hafi lítið komið þar við sögu.

Þorkell segist líka hafa verið svo heppinn að vinna með ótrúlega góðu fólki. Hann nefnir sérstaklega Hörð Sigurgestsson forstjóra Eimskips 1980-2000. Einnig Guðfinnu Bjarnadóttur, Svöfu Grönfeldt og Ara Kristin Jónsson, öll rektora Háskólans í Reykjavík auk fjölmargra annarra í tengslum við þau fyrirtæki og stofnanir sem hann hefur starfað með sem stjórnarmaður eða í öðru hlutverki.

Velur nú áhugaverð verkefni

Þorkell hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi, var til dæmis ráðinn stjórnarmaður og síðan formaður Framtakssjóðs Íslands sem var stofnaður í lok árs 2009 að frumkvæði lífeyrissjóðanna. Sá sjóður hafði það hlutverk að taka þátt í að endurreisa fyrirtæki eftir kreppuna.

Nú forgangsraðar Þorkell meira og metur frítíma mikils, en vill gjarnan miðla af sinni reynslu og þekkingu. “Ég  stunda ekki golf, fótbolta eða fjallgöngur og það þýðir að ég hef sótt í verkefni þar sem ég hef getað notað höfuðið meira en líkamlegt afl,” segir Þorkell. Hann var staddur í sumarbústað þeirra hjóna þegar viðtalið átti sér stað og sagði að ef hann væri ekki í hjólastól væri hann eflaust að smíða kofa eða fara í göngutúr. “Ég hef haft meiri tíma en margir til að lesa og hugsa, en veit aftur á móti mjög lítið um margt  eins og t.d. golf eða laxveiðar. Eiginkona mín veit allt um laxveiðar, en ég hef fylgst með því sporti úr fjarlægð.”

Börn Þorkels og Kristínar frá vinstri eru Sæunn, Sigurlaugur og Ester.

Frumkvöðlastarf og nýsköpun

Þorkell hefur alltaf haft mikinn áhuga á frumkvöðlastarfi og nýsköpun en þessi tvö atriði hafa verið helsti drifkrafturinn í lífi hans. Hann hefur skrifað nokkrar bækur og smárit um það málefni og hét fyrsta bókin Framtíðarsýn frá árinu 1989. Hann var auk þess einn stofnenda Viðskiptablaðsins árið 1994. Hann var einnig í stjórn ýmissa fyrirtækja eins og Össurar og Marels þar sem frumkvöðlastarf og nýsköpun hefur einkennt starfsemina. Þegar Þorkell hætti í Eimskip 2004 fór hann yfir í HR sem þá var nýr háskóli. Þar hitti hann fyrir nýjan rektor sem var Guðfinna Bjarnadóttir og hana vantaði einhvern með sér, úr hinu svokallað atvinnulífi, til að vinna að þróun skólans. Þorkell segir það hafa verið sérlega skemmtilegan tíma en jafnframt erfiðan því hann var verkefnastjóri við byggingu nýrrar háskólabyggingar í Nauthólsvík árið 2007, ári fyrir hrun.

Velur verkefni sem vekja áhuga hans

Árið 2017 hætti Þorkell hjá HR og um svipað leyti  var verið að ljúka sölu síðustu fyrirtækja Framtakssjóðsins. Eins og áður elskar Þorkell að verja tíma sínum við verkefni sem hann hefur gaman af og áhuga á.  Hann gerir sér grein fyrir því að hann hvorki getur né vill ráða sig í starf þar sem allir dagar eru pakkaðir í vinnu. Hann hefur að undanförnu verið stjórnarformaður félags sem heldur utan um vörumerkið ICELANDIC í samstarfi við Íslandsstofu, og koma því vörumerki meira á framfæri erlendis með íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Nú telur Þorkell að tækifæri sé fyrir Ísland að sækja fram og kynna Ísland sem gott land, m.a. með tilliti til gæðaafurða í sjávarútvegi. Hvað er þá betra en nota vörumerkið ICELANDIC og ICELANDIC SEAFOOD, sem er skráð og verndað víða um heim.

Þorkell hefur líka starfað í stjórn samtakanna  “Spítalinn okkar” sem eru nokkurs konar bakhjarlar Landspítala í uppbyggingu hans. “Nú sjáum við berlega hversu mikilvægt er að spítalinn geti gegnt hlutverki sínu vel, Allt of lengi hefur dregist að klára byggingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss við spítalann. Því verkefni væri lokið hefði verið farið af krafti í það eftir hrun árið 2009,” segir Þorkell. Það hefði gjörbreytt þeirri stöðu sem spítalinn væri í dag við að takast á við COVID-19 veiruna. “Á sama tíma er ég sannfærður um að við þurfum að eiga tvo spítala þótt annar þeirra, Landspítali, verði  bráða-, háskóla- og rannsóknarsjúkrahús.”

Þorkell og Alma Landlæknir í móttöku tengdri upphafi framkvæmda við nýjan Landspítala

Heilbrigðis- og líftækniklasi

Þorkell og Hans Guttormur Þormar líffræðingur eru báðir áhugamenn um Landspítala og heilbrigðismál  og upp úr því samstarfi fóru þeir að velta upp hugmyndinni hvort ekki væri tækifæri fyrir Íslendinga að stofna heilbrigðis- og líftækniklasa. Þeir vilja virkja þekkingu og tækifæri okkar í heilbrigðis- og líftækni sem er mikil vaxtargrein um allan heim. Þorkell segir að víða sjái fólk þessa grein sem viðskiptatækifæri. “Hér erum við lítið samfélag og þess vegna svo viðbragðsfljót. Nú hafa heilbrigðis- og líftæknimál hvað varðar útflutningstækifæri verið metin eitt af stærstu möguleikum okkar til að auka hagvöxt og þjóðartekjur á Íslandi til næstu 10 – 15 ára. Rannsóknir og frumkvöðlastarf tekur tíma og kosta peninga, en nú gefst okkur aukið tækifæri í framhaldi af þessari heilsuvá sem steðjar að allri heimsbyggðinni,” segir Þorkell.

Eldgosið reyndist besta auglýsingin

Þorkell hefur frá upphafi verið stjórnarmaður í Framtakssjóði Íslands sem sextán lífeyrissjóðir stofnuðu í desember 2009. Lífeyrissjóðirnir fjárfestu fyrir 43 milljarða og hafa fengið þá til baka með 23% raunávöxtun á ári þegar sjóðurinn verður endanlega gerður upp, væntanlega í lok þess árs. Eitt fyrirtækjanna af mörgum sem Framtakssjóðurinn kom að var Icelandair sem átti í miklum erfiðleikum 2010 þegar eldgosið í Eyjafjallajökli átti sér stað. Fyrirtækið var þá ekki búið að ná sér eftir hrunið svo staðan var slæm. Gengi hlutabréfanna fór niður í 2.5. Framtakssjóðurinn keypti 30% eignarhlut og tók virkan þátt í uppbyggingu félagsins með stjórnarþátttöku. Þegar upp var staðið varð 20 milljarða hagnaður af fjárfestingunni. “Það var auðvitað ekki það sem skipti mestu máli heldur það að koma félaginu í gegnum erfiðleikatímana og leggja þannig grunn að uppbyggingu ferðaþjónustu undanfarinna ára,” segir Þorkell. “Nú er komin upp ný erfið staða og gengi hlutabréfa Icelandair komið niður undir 3. Vonandi tekst að koma félaginu í gegnum þessa erfiðleika núna, sem eru reyndar erfiðari en nokkru sinni fyrr. Ef við erum klók þá notum við okkur tækifærin sem felast í því að fara hratt út úr þessari kreppu. Nýtum okkur að þetta er öruggt land, hér er ekki stríð, þjóðin réðst snemma til atlögu gegn þessari veiru og tekst vonandi með samstilltu átaki að vinna sigur.” Þorkell nefnir Bandaríkin og England sem dæmi þar sem bæði Donald Trump og Boris Johnson hagi sér afar óskynsamlega. Það eigi eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar. Nú segir Þorkell að hafi komið í ljós hvað er mikilvægt að eiga farsæla leiðtoga, lausa við lýðskrum og vel menntað heilbrigðisstarsfólk og vísindamenn sem leggja sig fram og fá frelsi, svigrúm og stuðning til athafna. “Við vorum sú þjóð sem féll dýpst og hraðast í bankahruninu, en við vorum jafnframt þjóðin sem náði sér hraðast upp.” segir Þorkell og er bjartsýnn fyrir okkar hönd núna, svo framarlega sem við nýtum tækifærin.

Sumarbústaður fjölskyldunnar við Eyrarvatn tekin 25. mars 2020.

Heilbrigðis- og menntakerfin gjörbreytist

Árið 2015 þótti blaðamönnum Morgunblaðsins ástæða til að rifja upp spádóma Þorkels frá 1987 og leita aftur til hans til að spá fyrir um næstu 25 ár. Í því viðtali segist Þorkell ekki hafa haft miklar áhyggjur af heimsfriðnum þegar hann var spurður 1987, en því miður sjái hann fyrir sér meiri óvissutíma eftir önnur 25 ár. Hann sagðist sjá fyrir sér að tvö kerfi muni taka grundvallarbreytingum, annars vegar menntakerfið og hins vegar heilbrigðiskerfið. Ungt fólk eigi nú þegar ekki í vandræðum með að horfa á kvikmynd, vera í símanum og gera lokaverkefni sitt um leið. Þau vinni saman í hópum og hugsi þverfaglega. Menntakerfið muni aðlaga sig að þörfum þessarar kynslóðar og kennaramenntun muni þar með gjörbreytast. Fólk muni hugsa betur um sig og allt  forvarnarstarf verði mjög mikilvægt. Þorkell taldi auk þess að peningar (seðlar og mynt) í núverandi mynd verði að mestu horfnir eftir 25 ár. Allar aðgerðir verði komnar í símana og þar með muni íslenska krónan deyja, a.m.k. í núverandi mynd. Hann telur að til verði alþjóðleg mynt sem notuð verði til að tengjast hagkerfum heimsins.

Þorkell taldi líka í þessu viðtali að eftir 25 ár yrði  kominn orkusæstrengur til Evrópu og eldsneyti verði orðið umhverfisvænt með öllu.

Sjálfbærni verði leiðarljósið

Þorkell spáði vaxandi ferðamannastraumi til Íslands í spánni 1987 og gerði það líka í spánni 2015 sem rættist svo sannarlega þar til árið 2019, hvað sem síðar verður. Hann spáði því árið 2015 að eftir 25 ár verði Ísland orðið að vörumerki sem standi fyrir óspillta náttúru og góð lífskjör. Vörumerkið standi fyrir nýsköpun, heilbrigði og umhverfisvernd. Til þess að þetta geti orðið segir Þorkell núna að allir verði að vera samstíga í þeirri hugsun. Sjálfbærni verði leiðarljósið.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn mars 27, 2020 07:40