„Hvers vegna eiga eldri borgarar að sætta sig við að búið sé að ákveða 3,4% hækkun greiðslna til þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins um næstu áramót? Samkvæmt fjármálafrumvarpi næsta árs er ekki gert ráð fyrir meiri hækkun. Þessi hækkun kemur á mjög lágar tölur eða hæst hjá einstaklingum sem búa einir eða á 300 þúsund krónur fyrir skatt. Hjá hjónum og sambúðarfólki á 240 þúsund krónur fyrir skatt“ segir Sigurður Jónsson varaformaður Landsambands eldri borgara í grein í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður segir ennfremur: „Þjóðin þarf að standa með eldri borgurum í baráttunni fyrir bættum kjörum. Á síðustu mánuðum hafa verst settu eldri borgararnir horft upp á marga hópa í þjóðfélaginu fá tugi prósenta hækkun í sinn vasa. Nú eru kjarasamningaviðræður að fara í gang af fullri alvöru hjá miklum fjölda stéttarfélaga. Kröfurnar eru miklar og m.a. er krafist 375 þúsund króna lágmarkslauna fyrir einstakling. Enn og aftur skora ég á stéttarfélög landsins að taka sérstaklega upp baráttu til að bæta hag fyrrverandi félaga sinna, sem nú tilheyra eldri borgurum landsins. Það getur ekki gengið að eldri borgarar fái aðeins 3,4% hækkun um næstu áramót og sú hækkun gildi fyrir allt árið 2019. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, skipaði fyrir nokkrum mánuðum nefnd sem á að kanna stöðu verst setta hópsins meðal eldri borgara landsins. Þessi nefnd á einnig að koma með hugmyndir til að bæta hag þessa hóps. Nefndin á að skila áliti sínu fyrir 1. nóvember 2018. Stjórnvöld verða að bregða skjótt við eftir að tillögur nefndarinnar liggja fyrir. Það gengur ekki að ætla að draga og velta þessu máli á milli í embættismannakerfinu. Það verður að leiðrétta kjör verst settu eldri borgaranna strax. Ég trúi því ekki að það sé meirihluti fyrir því meðal þingmanna að þessi smánarkjör stórs hóps eldri borgara haldist óbreytt.,“ segir Sigurður í grein sinni í Morgunblaðinu í dag.