Gleðin við að vera komin yfir sjötugt

Þessi grein „The joy of being a woman in her 70´s“ birtist í New York Times snemma árs, en hún er eftir bandaríska sálfræðinginn Mary Pipher. Hún birtist hér í lauslegri þýðingu, fyrir þá sem hafa gaman af hugleiðingum konu sem er rúmlega sjötug, um konur og aldur.

Þegar ég sagði vinkonum mínum frá því að ég ætlaði að skrifa bók, um eldri konur eins og okkur, mótmæltu þær hástöfum. „Ég er ekkert gömul“ var viðkvæðið. Það sem þær meintu var að þeim fannst þær ekki líkjast staðalímyndinni af konum á sínum aldri. Gamall eða eldri, þýddi í þeirra augum að vera kröfuharður, gagnslaus, óhamingjusamur og einfaldlega fyrir. Hugmyndir okkar Bandaríkjamanna um gamlar konur er svo ömurleg, að það vill nær engin kona, sama á hvaða aldri hún er, viðurkenna að hún sé gömul.

Hér eru aldursfordómar meira vandamál fyrir konur, en aldurinn sjálfur. Það er gert lítið úr okkkur og kynferði okkar. Við erum niðurlægðar með tengdamömmu bröndurum og erum ósýnilegar í fjölmiðlum.  Samt sem áður segja  flestar konur um sjötugt, sem ég þekki að að þær séu í góðu formi og ánægðar með lífið. Við höfum aðlögunarhæfileika og getum látið okkur líða vel við ótrúlegustu aðstæður. Hamingja okkar stafar af því að við þekkjum okkur sjálfar og höfum öðlast tilfinningagreind og samkennd með öðru fólki.

Flestar okkar sakna ekki aðdáunarbliks í augum karla. Því fylgdu blístur, áreiti og athygli sem við kærðum okkur ekki um. Þvert á móti finnst okkur gott að vera lausar við að þurfa stöðugt að hafa áhyggjur af því hvernig við lítum út. Í fyrsta sinn síðan við vorum 10 ára, getum við verið afslappaðar yfir því. Við getum verið í leggings í stað nælonsokka og gallabuxum í stað þess að vera í dragt.

En þrátt fyrir það, þurfum við á þessum aldri að takast á við erfið verkefni. Við komumst ekki hjá því að upplifa sorg. Við upplifum þjáningu, en sumar okkar þroskast ekkert við það. Þær sem gera það verða hins vegar frjálslyndari og færni þeirra til að upplifa sorg og gleði, eykst.  Það er í raun þessi sveifla milli ánægju og depurðar, sem gerir okkur fær um að þroskast bæði andlega og tilfinningalega.

Þegar við erum sjötugar, höfum við haft marga áratugi til að læra að verða sveigjanlegar. Margar hafa gert sér grein fyrir því að hamingjan er val og það þarf að rækta hæfileikann til að öðlast hana. Við þurfum ekki að lesa stjörnuspána í blaðinu til að fá vitneskju um hvernig dagurinn verður. Við vitum hvernig við eigum að upplifa góðan dag.

Við höfum lært að bera okkur eftir húmor, ást og fegurð á hverjum degi. Við höfum öðlast hæfileikann til að vera ánægðar með lífið.  Þakklæti er ekki dyggð, heldur leið til þess að komast af og þakklætið vex þegar við þurfum að þjást. Þess vegna eru það frekar þeir sem ekki hafa allt til alls, sem læra að meta það sem lífið gefur þeim.

Margar konur blómstra, við að læra hvernig á að fá hlutina til að virka. Já allt. Þegar við komum út úr kirkjunni í jarðarför vinkonu, finnum við lykt af viðarbruna og bragð af snjókorni á tungunni.

Við höndlum hamingjuna vegna þess að við viljum það og ætlum okkur það. Viðhorf er ekki allt, en það er næstum því allt. Ég heimsótti jazz listamanninn Jane Jarvis þegar hún var orðin gömul, komin í hjólastól og bjó í pínulítilli íbúð, með glugga sem vísaði að múrvegg. Ég spurði hana hvort hún væri hamingjusöm og hún svaraði. „Ég hef allt sem ég þarf til að vera hamingjusöm, á milli eyrnanna“.

Við ráðum ekki öllu, en við höfum val. Ef við erum nógu ákveðnar getum við alltaf fundið leiðina fram á við. Við finnum það sem við leitum að. Ef við leitum að sönnun fyrir kærleika í alheiminum, þá finnum við hana. Ef við erum að leita að fegurð, kemur hún inn í líf okkar þegar við óskum þess. Ef við leitum að skemmtilegum viðburðum, munum við uppgötva að það er nóg af þeim í gangi.

Það er eitt alveg sérstakt við að eldast. Þegar við missum eitthvað, fáum við eitthvað annað í staðinn sem gleður hjartað. Við upplifum sælu reglulega. Ein vinkona sagði „Þegar ég var ung þurfti ég kynferðislegt algleymi eða ferð uppá fjallstind til að upplifa sælu. Nú get ég upplifað hana við að horfa á lirfu á stígnum í garðinum mínum.

Þegar við eldumst höfum við lært hversu mikilvægt það er að stilla væntingum okkar í hóf. Við vitum að við fáum ekki allar óskir uppfylltar og heimurinn snýst ekki sérstaklega um okkar persónulegu þarfir og að aðrir, einkum börnin okkar, eru ekki að bíða eftir okkar skoðunum eða áliti á hlutunum. Við vitum að gleði og sorgir lífsins blandast eins og salt blandast sjó. Við búumst ekki við fullkomnun, eða að við sleppum við allar þjáningar. Góð bók, sneið af heimabakaðri köku, eða símtal frá vini getur gert okkur hamingjusöm. Svo ég vitni í frænku mína sem var vön að segja. „Ég fæ það sem ég vil, en ég veit líka hvað ég vil“.

Við megum alveg vera betri við okkur sjálfar, jafnframt því að vera heiðarlegri við okkur sjálfar. Við þurfum ekki að gera öðrum ril hæfis, heldur gera meira af því að halda skoðunum okkar á lofti. Við eigum ekki að telja okkur eða öðrum trú um að við höfum engar eigin þarfir. Við getum sagt nei, við því sem okkur langar ekki til að gera. Við getum fylgt hjartanu og farið eftir því sem við teljum okkur fyrir bestu. Við finnum minna fyrir kvíða, en meira fyrir ánægju, enda afslappaðri og færari um að lifa fyrir líðandi stundu með öllum þeim frábæru möguleikum sem það felur í sér.

Margar okkar eiga mikið af góðum vinum og félögum sem hafa fylgt okkur í gegnum lífið. Það er eitthvað við það að hafa átt vini eða verið giftur í 50 ár, sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Við þekkjum kosti og galla hvers og annars, höfum líka rifist, en erum þakklát fyrir að vera saman. Eitt orð eða ákveðið augntillit, getur haft mikla þýðingu . Heppnar konur eiga stóran hóp af vinkonum. Þær eru trygging okkar fyrir góðri andlegri heilsu.

Það er eitt sem er breytist ekki í lífinu, en það er að allt er breytingum háð. En ef höldum áfram að þroskast og auka við þekkingu okkar og samkennd með öðrum, er hægt að horfa á þetta úr fjarlægð. Við höfum lifað sjö tugi af sögu landsins okkar, frá Truman til Trump. Ég þekkti langömmu mína, og ef ég lifi nógu lengi, mun ég kynnst langömmubörnunum mínum. Ég mun þekkja sjö kynslóðir fjölskyldunnar. Ég sé að ég er einn hlekkur í langri keðju skosk-írskra forfeðra. Ég er á lífi í dag vegna þess að þúsundir kynslóða, eignuðust börn og ólu þau upp. Ég hef á bak við mig heilan herskara af fólki, og það höfum við öll, annars værum við ekki hér.

Þegar við erum sjötug, höfum við öll upplifað meiri sorg og meiri gleði en okkur óraði fyrir. Ef við erum klók, þá sjáum við að við erum einungis dropi í vatni árinnar, sem við köllum líf og að það er kraftaverk og forréttindi að fá að lifa því.

Mary Pipher er starfandi sálfræðingur í Lincoln Nebraska og höfundur bókarinnar “Women Rowing North: Navigating Life’s Currents and Flourishing as We Age.”  Hér má sjá greinina á ensku.

Ritstjórn maí 22, 2019 07:30