Tengdar greinar

Hanna G. Sigurðardóttir útvarpskona

Klisjan um það þegar einar dyr lokast opnist aðrar á sannarlega við þegar saga Hönnu G. Sigurðardóttur er sögð. Hún lenti í því að dyr lokuðust fyrirvaralaust í lífi hennar þegar henni var sagt upp störfum hjá Ríkisútvarpinu 2015 eftir rúmlega 30 ára starf. Óhætt er að segja að Hanna hafi átt sinn aðdáendahóp sem útvarpsmanneskja því hennar var sárt saknað af hlustendum rásar 1. Hún var á hættulegum aldri þegar uppsögnin kom óvænt og án útskýringa eða 58 ára gömul. “Þetta var óneitanlega áfall, sér í lagi af því ástæður voru ekki gefnar. En úr því svo var komið var ekki um annað að ræða en halda áfram og leita á önnur mið,” segir Hanna. Nú er spurning hvort hægt sé að tala um heppni því Hönnu leið frekar eins og óheppinni manneskju þegar hún var búin að sækja um yfir fjörutíu störf í tvö ár og fékk alls staðar höfnun. “Ég reyndi að sýna fram á getu mína með því að senda krækjur á ýmislegt sem ég hafði gert í útvarpi en allt kom fyrir ekki,” segir Hanna og vonbrigðin leyna sér ekki. En í dag, fimm árum síðar, er hún sátt og þykir hún vera heppin að vera á góðum vinnustað. Hanna er reyndar ekki manneskja stórra fullyrðinga en segir samt að á Lyfjastofnun, þar sem hún er nú búin að vera í tæp þrjú ár, sé haldið sérlega vel á málum og starfsandi þar sé góður.

Heppni Hönnu fólst til að byrja með í því að upp kom staða á Lyfjastofnun þar sem fyrirvaralítið vantaði starfsfólk í stuttan tíma. Vinkona Hönnu var þá starfsmaður þar og vissi af högum Hönnu. Hún sá að hagsmunir stofnunarinnar og Hönnu gætu farið saman þótt í stuttan tíma væri. Þannig kom það til að Hanna byrjaði sem starfsmaður Lyfjastofnunar þar sem vinna við mjög viðamikið átaksverkefni var að hefjast en það snerist um grisjun á skjalasafni. Starfsmennirnir hnipptu í fólk nálægt sér sem þeir vissu að gátu lagt eitthvað af mörkum því það lá á. “Þá benti þessi vinkona mín á mig,” segir Hanna. “Ég var í þessu hlutastarfi frá því haustið eftir að ég missti vinnuna í RÚV, fram að áramótum. Þetta var sannarlega alveg nýr og framandi heimur fyrir mig að kynnast,” segir Hanna. “Þegar ljóst varð að fleira fólk þurfti til að koma að verkefninu benti ég á Sigríði Stephensen sem hafði fengið uppsögn um leið og ég hjá RÚV og var atvinnulaus eins og ég. Við vorum þarna saman í þrjá mánuði alveg eins og sauðir til að byrja með í þessu lyfjamáli en okkur var vel tekið,” segir Hanna og hlær. Síðan lauk því verkefni, en fjölmörgum mánuðum og umsóknum síðar, einmitt þegar Hanna var orðin úrkula vonar um að fá nokkra vinnu, hringdi einn deildarstjóri stofnunarinnar í hana. “Þá vantaði afleysingu í móttökuna með mjög stuttum fyrirvara. Þeim datt í hug að ég gæti hugsanlega tekið þetta að mér sem ég og gerði. Starfið fólst í að svara í síma, og ýmis konar tölvuvinnu.”. Hanna ílengdist í afleysingastarfinu, og svo gerðist það einn góðan veðurdag að auglýst var laust til umsóknar starf í deildinni sem nú heitir samskiptadeild. Þar er unnið að upplýsingamiðlun innan húss og utan, m.a. með skrifum á vef stofnunarinnar. Hún sá að í slíku starfi hefði hún möguleika á að nýta betur kunnáttu sína og reynslu, sótti um og var ráðin. Sjálfsagt hefur ekki spillt fyrir að hún hafði leyst störf sín hjá stofnuninni af kostgæfni. “Og nú er ég að vinna á samskiptadeildinni þar sem ég skrifa fréttir á vef Lyfjastofnunar, les yfir fréttir og ýmsa texta, og margt fleira. Svo þegar allt kemur til alls er ég að sinna ýmsu sem er í sama fagi og ég var í um margra ára skeið svo reynsla mín og kunnátta nýtist vel.” Niðurstaðan var því sú að fyrir tilviljun fékk Hanna starf hjá stórri stofnun sem hún hefði fyrirfram ekki látið sér detta í hug að sækja um vinnu hjá. “Svo kom hlaðvarp Lyfjastofnunar til sögunnar fyrir ári síðan. Í því verkefni er ég komin í mínar gömlu stellingar, að taka upp viðtöl og setja saman, og þar finn ég mig sérstaklega vel. Ég lít á það sem mikla heppni að ég skyldi fá þessa vinnu á svo góðum vinnustað þar sem mjög vel er hugsað um starfsfólkið,” segir Hanna.

Eitt sinn snerust hádegisumræður meðal starfsmanna Lyfjastofnunar um það hvort í hópnum leyndust hljóðfæraleikarar. Í ljós kom að meðal þeirra voru nokkrir og þeir spiluðu á trompet, víólu, selló, saxófón og svo hafði einhver heyrt að  „nýja stelpan” spilaði á píanó. Það var laukrétt því Hanna var um árabil í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Þar stundaði hún píanónám og fór að lokum í tónfræðideildina og lauk þaðan námi 1984.

Þetta var sagan um konuna sem var hafnað en þegar hún fékk loks tækifæri til að sýna hvað í henni bjó lenti hún í starfi þar sem reynsla hennar og kunnátta fá að njóta sín. Þar opnuðust sannarlega aðrar dyr þegar einar lokuðust  og Hanna er þakklát fyrir að hafa fengið vinnu á góðum stað, sem er ekki sjálfgefið um sextugsaldurinn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 13, 2020 08:20