Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík lýsir yfir fullum stuðningi við kröfu Starfsgreinasambandsins um, að mánaðarlaun verkafólks í sambandinu hækki í 300 þúsund krónur á þremur árum. Kjaranefndin telur, að aldraðir og öryrkjar eigi að fá sömu hækkun og lífeyrir þeirra frá Tryggingastofnun að hækka í 300 þúsund krónur á mánuði. Í framhaldi af því beri að stefna að því, að lífeyrir aldraðra hækki í samræmi við niðurstöðu neyslukönnunar Hagstofunnar eins og Félag eldri borgara í Reykjavík hefur ályktað um. Krafan um 300 þúsund króna lágmarkslaun á án efa eftir að óma á baráttudegi verkalýðsins, 1.maí.
Fyrsta kröfugangan fyrir nærri öld
Það er ekki svo langt síðan að 1. maí, varð lögskipaður frídagur á Íslandi. Það var árið 1972 eða fyrir 43 árum. Fyrsta kröfugangan hér á landi var þó farin mun fyrr eða 1923. Á Vísindavefnum er greint frá tilurð baráttudags verkalýðsins en það mun hafa verið ákveðið á þingi evrópskra verkalýðsfélaga í París árið 1899 að gera þennan dag að alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Það voru Frakkar sem lögðu þetta til, þeir lögðu jafnframt til að að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum.
Endalok vetrar og upphaf sumars
Valið á þessum degi styðst við rótgróna hefð í sunnanverðri Evrópu þar sem menn tóku sér oft frí 1.maí. Í heiðnum sið var dagurinn táknrænn fyrir endalok vetrarins og upphaf sumarsins. Í Skandinavíu var 1. maí fyrsti dagur sumars. Kirkjan helgaði 1. maí dýrlingnum Valborgu sem var ensk prinsessa, trúboði og abbadís í Þýskalandi. Svíar halda enn þann dag í dag upp á Valborgarmessu kvöldið fyrir 1.maí.