Eftirspurn eftir eldra fólki á vinnumarkaði ætti að aukast

Hækkun lífaldurs og áhrif hennar á lífeyrissjóðina var megininntak umræðu á málþingi sem Landssamtök lífeyrissjóða og Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga héldu í Reykjavík í gær.  Næstu áratugi mun þeim fjölga hratt hér á landi, sem fara á eftirlaun og menn verða lengur á eftirlaunum en áður, þar sem lífaldur hækkar.  Nokkuð almenn samstaða er orðin í nefndum sem um þetta hafa fjallað, um að hækka lífeyrisaldurinn í þrepum,  úr 67 ára í 70 ára.

Fólki hættir að fjölga á vinnumarkaði

Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins benti á það í pallborðsumræðu á málþinginu að nýliðun á vinnumarkaði væri þegar orðin lítil.  Þeir hópar sem kæmu inn á vinnumarkaðinn væru ekki fjölmennari en þeir sem væru að fara út af honum.  „Eftir örfá ár verða þeir bara nokkur hundruð“, sagði Hannes og bætti við að það ætti þess vegna að vera eftirspurn eftir eldra starfsfólki í atvinulífinu.

Að fara í hlutastarf í stað þess að hætta

Hannes sagði að það væri jafnframt áhugi á því hjá mörgum að vinna lengur.  Hann benti á að hjá Ísal væri fólki gefinn kostur á að fara í hlutastarf, í stað þess að hætta alveg að vinna. Þetta væri eitthvað sem þyrfti að verða útbreiddara.  En Hannes sagði jafnframt að eldri starfsmenn mættu ekki vera dýrari en þeir sem yngri eru og gætu þess vegna þurft að sætta sig við lægri laun.

Umræðan fer ekki víða

Hannes sagði það undrunarefni hvað lítið væri rætt um þessi mál á hinum pólitíska vettvangi, kannski væri það ekki til vinsælda fallið.  Pólitíkusar í nágrannalöndum sem við berum okkur saman við hefðu hins vegar tekið á þessu og meira að segja Frakkland, en þar hefði lífeyrisaldur verið hækkaður eftir mikil mótmæli.  Hér á Íslandi hefði lítið verið rætt um þetta á vettvangi stjórnmálanna, en málið sett í nefnd.  Þótt aðilar vinnumarkaðarins tækju þátt í nefndarstarfinu, færi umræðan ekki mjög víða.

 

Ritstjórn nóvember 25, 2014 11:12