Össur vill lækka tryggingagjaldið en Bjarni ekki

Össur Skarphéðinsson

Össur Skarphéðinsson

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar telur að það væri skynsamlegt að lækka tryggingagjald atvinnurekenda fyrir þá sem eru orðnir 60 ára og eldri svo það verði auðveldara fyrir þennan hóp að fá atvinnu. „Ég er þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt af Alþingi að skoða hvort ekki sé hægt að ráðast í að búa til úr lækkuninni efnahagslegan hvata fyrir fyrirtæki til að ráða til sín það fólk sem á öðrum fremur erfitt á vinnumarkaði,“ sagði Össur sem spurði fjármálaráðherra á Alþingi um tryggingagjaldsgreiðslur vegna 60 ára og eldri. Bjarni Benediksson fjármálaráðherra sagði  að fyrirtæki greiddu tryggingagjald vegna 26 þúsund manns sem væru orðin 60+. Tryggingargjald vegna þessa hóps er rúmlega 13 prósent af hlutfalli gjaldsins og nemur um 8,5 milljörðum króna á ári.

Vill draga úr tekjutenginum

Ráðherrann sagði að það væri virðingarvert af Össuri að huga að því með hvaða hætti væri helst hægt að koma þeim til hjálpar sem erfiðast eiga á vinnumarkaði og hvort tryggingagjaldið gæti þar eitthvað spilað inn í.„Í mínum huga er þó ekki síður mikilvægt að huga að því hvernig við getum dregið úr tekjutengingum bóta hjá þessum hópi fólks vegna þess að á þessu aldursbili, upp undir sjötugt og jafnvel yfir sjötugu, er margt fólk með býsna takmörkuð lífeyrisréttindi og þegar það fer út á vinnumarkaðinn verður það fyrir allharkalegum skerðingum,“ sagði Bjarni og bætti við að ef ætlunin væri að bæta kjör þessa hóps mætti skoða leiðir til að draga úr tekjuskerðingum sérstaklega fyrir þá sem hafa minnstu lífeyrisréttindin.

Of lág lífeyrisréttindi

Bjarni Benediktsson

Bjarni Benediktsson

„Það má alveg velta fyrir sér hvort það eigi sérstaklega að lækka tryggingagjaldið vegna þessa aldurshóps en þó finnst mér helsti ókosturinn við þá hugmynd sá að það myndi flækja tryggingagjaldskerfið töluvert mikið,“ sagði Bjarni. Össur sagði að það væri fín hugmynd að minnka skerðingar. „En það sem fyrir mér vakir er ekki bara að bæta kjörin hjá þessum hópum. Auðvitað vakir í huga mér að skapa stöðu þannig að það fólk geti aflað sér tekna á vinnumarkaði, en ég held líka að við og vinnumarkaðurinn munum í vaxandi mæli þurfa á eldra fólki að halda.“  Bjarni sagði verkefnið verðugt en að of margir væru með of lág lífeyrisréttindi  og þar væri nær að bæta úr.„Ég tel að við stöndum engu að síður frammi fyrir því, óháð því í sjálfu sér hvernig við getum betur hlúð að atvinnutækifærum fyrir þessa hópa, að það er einkennandi fyrir efri aldursbilin á vinnumarkaði og þá sem eru komnir á eftirlaunaaldur að of margir eru með of lág lífeyrisréttindi,“ sagði fjármálaráðherra.

Ritstjórn mars 25, 2015 13:32