Eldri borgarinn er íþróttamaður

Martha Árnadóttir

Martha Árnadóttir framkvæmdastjóri og eigandi Dokkunnar, þekkingar-og tengslanets skrifaði og þýddi þessa grein.                                                                                                                                               martha@dokkan.is

 

Það er einstök upplifun að sjá áttræðan hlaupara koma í mark eftir heilt maraþonhlaup og með hækkandi lífaldri jarðarbúa og virkari lífsstíl eldri borgara eigum við eftir að sjá fjölmarga áttræða maraþonhlaupara bæði konur og karla koma í mark.

Samkvæmt fjölmörgum rannsóknum er eldri borgari dagsins í dag líklegri til að vera mun betur á sig kominn, hraustari og umfram allt mun virkari en fyrirrennarar hans, merki um þetta er síaukin þátttaka eldra fólks í allskonar íþróttum.

Af hverju þessi aukni áhugi á íþróttum?

Fólk vill lifa vel og lengi ekki bara í árum talið heldur mun frekar er mælikvarðinn lífsgæði, getan til að vera virkur alla ævi – kveðja með stæl á fjallstindi á 91. aldursári.

Eldra fólk er vel upplýst um áhrif hreyfingar sem forvarnar gegn allskyns kvillum eins og streitu, ofþyngd, fallhættu, háu kólesteróli og þunglyndi svo eitthvað sé nefnt. Það er einnig þekkt að aukinn líkamlegur styrkur vinnur gegn rýrnun vöðvamassa sem er óhjákvæmilegur á efri árum. Það kemur því ekki á óvart að eldri borgari nútímans er íþróttamaður.

Á verðlaunapalli í hjólreiðakeppni. Allir komnir yfir sextugt

Þessi aukna þátttaka í íþróttum hefur ekki síst höfðað til eldri kvenna sem stöðugt verða virkari í öllum tegundum íþrótta. Það  er áhugaverð þróun því margar hverjar eru að stunda íþróttir í fyrsta sinn á ævinni.

Nútíma eldri borgari kýs að búa eins lengi og mögulegt er í öryggi heima hjá sér. Engu að síður vill hann skemmtilegan félagsskap og þar koma íþróttir sterkar inn.

Svo eru það kynslóða áhrifin. X kynslóðin, sem þessi misserin er að verða sextug, er alin upp við að stunda íþróttir og hefur gert það meira og minna alla ævi. Þau eru vel meðvituð um mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna og félagslífið og leggja ekki árar í bát þótt þau eldist. Baby Boom kynslóðin aftur á móti, hin fjölmenna kynslóð eftirstríðsáranna, stundaði síður einhvers konar íþróttir frá fyrstu tíð, það var bara ekki talið mikilvægt og mun minna var um skipulagt íþróttastarf.

Sjálfsmyndin skiptir líka miklu máli. Eldri borgarinn sér sig sem síungan, lifir virku lífi og er ungur í anda. Þetta hugarfar styður vel við íþróttaiðkun og virkan lífsstíl.

Tökum þetta aðeins saman – eldri borgari dagsins í dag:

 • Er upplýstur og lifir í nútímanum, á vini á mismunandi aldri og veit hvað er að gerast í heiminum.
 • Er virkur, tekur fullan þátt í lífinu, hittir vini og félaga, ferðast og tekur þátt í margvíslegum viðburðum og uppákomum.
 • Er fjárhagslega ágætlega settur og getur notað ráðstöfunarfé sitt að vild.
 • Verður sífellt tæknivæddari.
 • Hefur nægan frítíma og notar hann vel.

Tækifæri fyrir fyrirtæki og félagasamtök

Þessi nýi lífsstíll eldri borgarans mun kalla á ýmsar nýjungar í vöruþróun og markaðssetningu á öllu sem tengist íþróttum. Nokkur dæmi:

 • Nýjar íþróttatengdar vörur og þjónusta sem sérstaklega eru hannaðar fyrir þá sem eru eldri.
 • Heilbrigðisyfirvöld munu hvetja eldra fólk í auknu mæli til þátttöku í íþróttum og jafnvel umbuna fyrir það á einhvern hátt.
 • Eldri borgarar verða stöðugt tæknivæddari. Íþróttir í sýndarveruleika munu verða áberandi meðal þessa hóps og þau munu nýta sér alla þá tæki sem í boði er til að skrásetja, mæla árangur og kortleggja ferilinn.
 • Heilsuræktarstöðvar munu í auknum mæli útfæra alvöru dagskrá fyrir eldri íþróttamenn þar sem sá hópur getur stundað sínar æfingar á tímum þegar aðrar kynslóðir eru í vinnu.
 • Gervigreind verður stöðugt útbreiddari. Öppin sem notuð eru til að halda utan um æfingar koma líka með tillögur að ákefð, tíðni og tímasetningum æfinga út frá markmiðum og líkamlegu formi íþróttamannsins.
 • Talið er að þær íþróttagreinar sem munu njóta hvað mestrar hylli eldri borgara séu golf, alhliða líkamsrækt þar sem styrkur og þol er markvisst þjálfað, hjólreiðar, fjallgöngur og jóga svo eitthvað sé nefnt.
 • Búast má við að valdar hópíþróttir verði vinsælar en aðlagaðar eldri hópnum.
 • Því er spáð að fleiri stórmót öldunga eins og Íslandsmeistara-, heimsmeistara-, Evrópumót og þ.h. verði sett á laggirnar.
 • Ný fyrirtæki og félagasamtök munu verða til sem sérhæfa sig í fræðslu og þjálfun eldri borgara.

Eldri íþróttamönnum mun halda áfram að fjölga á komandi árum og þar leynist einstakt tækifæri fyrir íþróttafélög, þjálfara og íþróttaiðnaðinn allan að þjóna þessum markhópi með sérhæfðum lausnum á fjölmörgum sviðum.

Áfram eldri borgarar!

 

 

Ritstjórn apríl 12, 2022 13:00