Nýtti ósýnileikan til að skapa óviðeigandi og ögrandi götulistaverk

Martha Árnadóttir

Á vafri mínu um vef The Guardian um daginn rakst ég á ótrúlega skemmtilegt og ögrandi viðtal við nýsjálensku götulistakonuna Deborah Wood, sem er búsett í Melbourne í Ástralíu. Í viðtalinu talar Deborah opinskátt um ósýnileika eldri kvenna og jafnvel hvarf þeirra úr samfélaginu og hvernig hún ákvað að virkja ósýnileikann til að framkvæma alls konar ögrandi og að eigin sögn óviðeigandi hluti.

Neitaði að dofna upp í reiði og gremju

Hugmyndin um að verða ósýnileg sem eldri kona er orðið viðurkennt norm í samfélaginu okkar, segir Deborah og lýsir því hvernig hún og vinkonur hennar, frá því seint á fimmtugsaldri og uppúr, hafi til að byrja með orðið dolfallnar og síðan æfareiðar yfir ýmsum smáatvikum og uppákomum eins og að fá ekki þjónustu, vera ekki svarað, vera ýtt til hliðar eða ekki teknar alvarlega. Stöðugt öráreiti og móðganir sem rýrðu áunnið sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Deborah heldur áfram og segir að í stað þess að dofna upp í forarpytti reiði og gremju, hafi hún farið að velta því fyrir mér hvort hægt væri að virkja þennan ósýnileika til að gera alls konar óviðeigandi hluti miðað við aldur. Deborah fór þó ekki í það að ræna banka (þó hún sé sannfærð um að hún hefði komist undan óséð með ránsfenginn) en beindi þess í stað allri sinni orku og athygli að götulist og gerðist skæruliða götulistamaður (guerrilla streetartist) en það er götulistamaður sem skapar myndlist í opinberu rými án leyfis.

Hvernig Debroah virkjaði ósýnileikann

Fyrsta listaverkið sem Deborah setti upp í leyfisleysi var úti á götu og var hún óróleg og skíthrædd um að verða að minnsta kosti sektuð, ef ekki handtekin fyrir uppátækið þannig að hún fékk vini til hafa auga með sér – en segist ekki hafa þurft að hafa neinar áhyggjur, því auðvitað sá hana engin. Skikkja ósýnileikans virkaði og það þýddi aðeins eitt fyrir Deborah að hún gæti óhindrað tekið listaverk sín út og komið þeim fyrir á opinberum stöðum en listaverkin eru aðallega teikningar af dansandi eldri konum í tjúllpilsum, konum sem taka pláss og hafa hátt í almannarýminu. Stundum segist Deborah hafa fengið leyfi fyrir verkum sínum en segir það mun áhrifaríkara og skemmtilegra að koma þeim upp í leyfisleysi og öllum að óvörum.

Deborah notar nú hvert tækifæri til að dreifa hugmyndinni um sýnileika og sjálfstæði eldri kvenna sem mikilvægan þátt í að viðhalda lífsgleði og sjálfstrausti og nefnir að þegar hún er að líma upp konurnar sínar (listaverkin) á hún oftar en ekki yndisleg samtöl við eldri kvenkyns vegfarendur sem segja henni hversu gott það er að sjá myndir sem þær geta samsamað sig við.

Öskrandi höfuð gegn útilokun

En verkin hennar Deborah eru ekki bara dansandi eldri konur í tjulli. Risastórt andlit af öskrandi eldri konu birtist líka óvænt í almannarýminu og með því vill hún leggja áherslu á að ósýnileiki eldri kvenna er ekkert grín. Hann er í raun hættulegur og getur leitt til margskonar mismununar og útilokunar, fjárhagslegrar óvissu, slæms heilsufars, þöggunar og aðgerðaleysis í mikilvægum málefnum aldraðra.

Þegar Deborah var að setja upp öskrandi andlitið sitt spurði hún konur sem fóru framhjá hvað þær myndu vilja öskra um og skrifaði svo orð þeirra og límdi þau komandi út úr öskrandi munni andlitsins. Hér eru nokkur þessara orða: Ég skipti máli! Elska líkama minn! Meiri virðingu! Heyrðu mig, sjáðu mig! Eldri konur skipta máli! Ást og virðing! Vertu svívirðileg! Ég er ekki ósýnileg! Öskra reiði!

Hjúpum okkur ósýnileikanum á eigin forsendum

Í enda viðtalsins leggur Deborah áherslu á að hvort tveggja gleðin; dansandi eldri konur í tjullpilsum og reiðin; öskrandi æfareið andlit eldri kvenna, eru nauðsynleg tæki til að stemma stigu við áhrifum aldurshyggju sem samfara kynjahyggju er lamandi afl á lífsgleði og virkni eldri kvenna. Við skulum ekki sætta okkur við gamlar og úreltar staðalmyndir og með því að hjúpa okkur ósýnileikanum á eigin forsendum, getum við verið truflandi og haft áhrif á væntingar okkar allra gagnvart því að eldast. Okkur tekst kannski ekki að mylja þessa síðustu hindrun þreytts ferðaveldis á einum degi – en við getum skemmt okkur á leiðinni við að dansa okkar eigin dans úti á götu – jafnvel í tjulli.

Martha Árnadóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Dokkunnar skrifar.

Ritstjórn febrúar 21, 2024 09:00