Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir

Fyrir þessa bók, sem er önnur skáldsaga Kristínar, hlaut hún íslensku bókmenntaverðlaunin 2017 í flokki fagurbókmennta. Sagan segir frá Elínu sem er rúmlega sjötug og hefur alla sína starfsævi unnið við leikmunagerð og gervi fyrir kvikmyndir og leikhús og Ellen Álfsdóttur nýtt leikritaskáld sem miklar vonir eru bundnar við. Leiðir þeirra liggja saman í leikhúsi en þar á að setja upp nýtt leikrit eftir Ellen og Elín á að sjá um leikmyndina. Elín áttar sig strax á því hver faðir Ellenar var enda frægur rithöfundur sem hafði á miðjum aldri farið að búa með mun yngri konu og eignast með henni barn. Hún fær áhuga á þessari ungu konu sem aldrei náði að kynnast föður sínum þar sem hann lést þegar Ellen var smábarn. Ellen er ekki á því að láta þessa fullorðnu skrýtnu konu koma nálægt sér og forðast hana eins og hún getur enda á hún nóg með veika móður sína sem aldrei er hægt að stóla á.

Báðar sögupersónurnar kljást við erfiðleika úr fortíðinni sem rista lesandann djúpt og tekur á að fylgjast með því hvernig sjúkdómur Elínar hrifsar hana til sín kalt en örugglega. Lesandinn er skilinn eftir í óvissu um hvað verður um Ellen en móðir hennar hverfur úr lífi hennar jafn snögglega og faðirinn gerði á sínum tíma en þó á allt annan máta. Bókin er ekki síðri við annan lestur.

Textabrot úr bókinni.

Þegar hér er komið sögu er kannski mikilvægt að ég viðurkenni svolítið. Á tímabili frá því ég hitti Ellen fyrst í leikhúsinu og þangað til verkið hennar var frumsýnt njósnaði ég um hana og mömmu hennar.

Ekki stanslaust auðvitað en annað slagið. Ég lagði ekki á bílastæðinu í myrkrinu og horfði inn til þeirra með kíki, en ég fann allt sem hugsast gat af upplýsingum á netinu. Ég las minningargreinar um ættingja þeirra og setti saman fjölskyldutréð með hjálp samfélagsmiðla og stundum veitti ég þeim eftirför. Það kom fyrir. Jú. Það kom fyrir að ég sat í köldum bílnum á planinu og fylgdist með ljósflöktinu í gluggunum þeirra, og jú, það getur verið að ég hafi notast við kíki.

Aðallega hugsaði ég um þær og bjó til úr þeim persónur sem voru mér kærkomnar. Ég blés í þær lífi ef svo má segja og og mér fannst ég þekkja þær. Því betur sem mér fannst ég þekkja þær, því fjarstæðukenndari varð hugmyndin um að nálgast þær í raunveruleikanum.

 

Ritstjórn mars 6, 2018 09:40