Þegar Halldór Ásgrímsson féll á landsprófi

Kafli úr nýútkominni ævisögu Halldórs Ásgrímssonar ráðherra eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing er birtur hér fyrir neðan. Guðjón er löngu landskunnur fyrir ævisögur sínar og ritverk. Hann hefur nú ritað ævisögur tveggja formanna Framsóknarflokksins, Halldórs og Jónasar frá Hriflu.

Þegar Halldór var 14 ára langaði hann mest til að verða sjómaður en það vóg upp á móti löngun hans að hann var alltaf sjóveikur þegar eitthvað var að veðri. Að loknu unglingaprófi í Barnaskólanum í Höfn var því afráðið að hann freistaði þess að ganga menntaveginn. Lykillinn að því var að taka svokallað landspróf sem veitti aðgang að menntaskóla. En það var nálarauga sem ekki var öllum gefið að ganga í gegnum. Ná þurfti aðaleinkunninni 6 á prófinu til að komast í menntaskóla en fjöldi unglinga, sem það þreyttu, náði ekki þeirri einkunn. Ekki var óalgengt að um helmingur félli í hverjum landsprófsbekk.

Ekkert landspróf var á Höfn þannig að Halldór hélt til Reykjavíkur haustið 1961, nýorðinn 14 ára gamall. Þangað voru afi hans og amma, Halldór og Anna Guðný, nú flutt. Halldór var orðinn útibússtjóri Búnaðarbankans á Egilsstöðum en dvaldi þar einungis á sumrum. Á veturna sat hann sem fyrr á Alþingi í Reykjavík. Gömlu hjónin fögnuðu komu Halldórs, uppáhaldsbarnabarnsins, og hjá þeim bjó hann í Stigahlíð 2 þennan vetur, 1961-1962, og stundaði nám í Gagnfræðaskóla Austurbæjar sem var til húsa í Skólavörðuholtinu.

Halldór kom ókunnugur inn í 3 bekk Y í Gaggó Aust, þekkti engan og var þar að auki ári yngri en flestir í bekknum. Þetta var talinn úrvalsbekkur og Halldór kom í hann sem “súpernemandi” frá Höfn í Hornafirði, að sögn eins bekkjarfélaga hans. Að vera í 30 manna bekk var dálítið yfirþyrmandi. Þar sátu 18 Reykjavíkurstrákar, sumir uppivöðslusamir, og 12 stelpur. Hann eignaðist að vísu fljótt vini en fann sig ekki í náminu auk þess sem í ljós kom að undirbúningur hans úr skólanum í Hornafirði var hreint ekki nógur. Engin enska hafði t.d. verið kennd þar eystra. Hornfirðingum, sem fóru í landspróf á þessum árum, gekk yfirleitt illa í fyrstu tilraun.

Sveinn Aðalsteinsson, síðar viðskiptafræðingur, varð einn helsti kunningi Halldórs þennan vetur. Hann bjó í Lönguhlíð og Halldór kom jafnan við hjá honum á leið í skólann og þeir gengu saman niður eftir og í skólann upp á Skólavörðuholtið. Ásmundur Jakobsson, síðar eðlisfræðingur, sem einnig bjó í Hlíðunum slóst einnig oft í för með þeim.  Sveinn sagði að Halldór hefði verið á skóm með plastsólum og hafi alltaf verið að detta á leiðinni þegar hálka var.

Sveinn sagðist reikna með að fyrir Halldór hafi það verið álíka stórt stökk að koma til Reykjavíkur eins og fyrir reykvíska stráka að fara til útlanda. Honum er minnisstætt að hann fór mikið í bíó og sérstaklega í Trípolíbíó sem Halldór kallaði Trippolíbíó. Sjálfur sagði Halldór síðar um reynslu sína þennan vetur að hann hefði ekki farið neina frægðarför til Reykjavíkur:

“Mér líkaði vistin illa. Ég fann það fljótt að ég var ekki jafn vel undirbúinn og aðrir nemendur, svo að það setti í mig einhvern mótþróa. Ég lærði frekar lítið og þar kom að ég hætti, nennti þessu ekki lengur.”

Í öðru viðtali sagði Halldór:

“Ég held að það sé mikið áfall fyrir margan dreifbýlisunglinginn að vera sendur frá ástvinum sínum og félögum til að stunda nám í framandi umhverfi… Ég brást við þeim vanda, sem mætti mér á þessum árum, með því að snúast gegn öllu kerfinu með hástemmdum yfirlýsingum um hvað þetta væri allt vitlaust.”

Hann gaf skít í námið. Útkoman var sú að Halldór fékk 4,93 í aðaleinkunn um vorið og var lægstur allra í bekknum. Hann fékk ekki einu sinni framhaldseinkunn.

Einn af skólafélögum Halldórs í Gaggó Aust var Jón Sigurðsson, síðar skólastjóri, ritstjóri Tímans, Seðlabankastjóri og arftaki Halldórs sem formaður Framsóknarflokksins um stutt skeið. Þeir urðu vinir þennan vetur þrátt fyrir ólíkar skoðanir. Jón var eitt sinn spurður um þessi fyrstu kynni sín af honum og hann sagði:

“Hann var mjög mótaður af aðstæðunum eystra og fann sig aldrei þarna í höfuðborginni á þessum árum… Honum hundleiddist skólinn eins og okkur hinum. Og skólinn sem slíkur var mjög fjarlægur því lífi sem hann hafði lifað fram að þessu. Landsprófsfallið var viss uppreisn hans gegn borgarvaldinu, held ég.”

Þrátt fyrir þetta tók Halldór virkan þátt í félagslífi skólans. Hann virtist ekki þjást af neinni minnimáttarkennd að þessu leyti þó að hann væri hlédrægur að eðlisfari. Miklu fremur efldist hann á vissan hátt í austfirskum mótþróa sínum. Meðal bekkjarbræðra hans voru mjög pólitískir strákar, flestir töldu þeir sig sósíalista eða voru eindregnir Sjálfstæðismenn. En Halldór lá ekki á skoðunum sínum við þá. Hann kom fram sem grjótharður Framsóknarmaður, samvinnumaður og landsbyggðarmaður og átti það til að setja í brýrnar þegar í brýnu sló.

Einn af sósíalistunum, sem var í bekk með Halldóri, var fyrrnefndur Sveinn. Hann skrifaði seinna að mikið hafi verið rætt um lífið og tilveruna þennan vetur og þá ekki hvað síst stjórnmál. Í huga hans var þá þegar engin efi á því að Halldór yrði stjórnmálamaður í framtíðinni.

Jón Sigurðsson og fleiri höfðu stofnað málfundafélag, sem nefndist Fræðafélagið Fróði, og á fundum þess tók Halldórs til máls. Það þurfti visst hugrekki til þess af drengstaula sem ekki var orðinn 15 ára. Kannski kom reynslan af félagsstarfi í stúkunum á Vopnafirði og Höfn honum til góða. Um ræðumennsku hans segir Jón Sigurðsson:

“Þar varð festunnar vart sem hefur einkennt hann síðan. Hann var ekkert að láta spana sig upp og lét engan segja sér eitt eða neitt, heldur leit alla hluti sínum eigin augum. Hann var þykkur, þéttur, sterklegur og stöðugur í rásinni. Og góður ræðumaður. Hann átti auðvelt með að láta til sín taka vegna þess að hann var svo lítt flaumósa. Við hinir strákarnir vorum mikið að föndra við sósíalisma á þessum tíma, en Dóri lét það sem vind um eyrun þjóta. Hann lét ekki boða sér neina tísku.”

En námsdvöl Halldórs í Reykjavík var óneitanlega sneypuför. Sveinn Aðalsteinsson telur að landsprófsfallið hafi orðið honum reiðarslag þó að hann hefði mátt vita í hvað stefndi. Um vorið hraðaði Halldór sér til Hafnar án þess að kasta svo mikið sem kveðju á þá skólafélaga sína í Reykjavík, sem hann hafði bundist vináttuböndum við, og fór beint á sjóinn.  Litli bróðir ætlaði að feta í fótspor Ingólfs bróður síns, sem hafði verið á síld sumarið áður, og verða sjómaður.

Á síld

Haustið 1960 bættist nýsmíðað og glæsilegt skip við Hornafjarðarflotanm. Þetta var 150 lesta stálbátur, sem var um árabil stærsti báturinn á Hornafirði, og fékk hann nafnið Ólafur Tryggvason SF 60. Hann var búinn öllum nýjustu og fullkomnustu tækjum, meðal annars síldarkraftblökk og frystitæki í lest. Eigandi og skipstjóri var aflakóngurinn Tryggvi Sigjónsson á Höfn og var 12 manna áhöfn á bátnum.

Á þessum árum mokuðu menn upp síld á sumarvertíð fyrir norðan og austan. Skipti engum togum að litli fallistinn frá Reykjavík, Halldór Ásgrímsson, rétt að verða 15 ára, fékk skipsrúm sem hálfdrættingur á Ólafi Tryggvasyni SF á síldarvertíð sumarið 1962, þeirri síðustu sem var að einhverju marki fyrir Norðurlandi. Síldinni var mest landað á Siglufirði en þar var aflinn saltaður eða bræddur. Tryggvi skipstjóri var síðar spurður um frammistöðu piltsins og hann sagði:

“Ég tók hann nú bara um borð upp á hálfan hlut, en drengurinn reyndist hins vegar svo harðduglegur að ég ákvað að láta hann fá heilan þegar gert var upp.”

Annar piltur sem réði sig sem hálfdrætting var Gunnar Ásgeirsson á Höfn. Hann lét þau orð falla um Halldór að hann hefði verið fyrirtaks sjómaður og fallið vel inn í hópinn: “Hann hefði alveg eins getað dagað uppi á báti í stað ráðuneytis”, sagði hann.

Halldór Ásgrímsson skrifaði löngu síðar minningargrein um Tryggva skipstjóra og sagði í henni m.a.:

“Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að verða háseti hjá Tryggva 14 ára gamall og tvö sumur var ég með honum á síld norðan og austan við land. Flestir í áhöfninni voru um og innan við tvítugt og um borð var mikil starfsgleði og virðing fyrir “kallinum” í brúnni.”

Halldór skrifaði síðar um þau hughrif, sem hann varð fyrir þegar fjöldi síldveiðiskipa var við veiðar í miðnætursól við Grímsey og Kolbeinsey, ekki aðeins íslensk heldur einnig norsk og rússnesk:

“Á talstöðina hlustuðu allir. Þaðan bárust fréttir um veiðar og útlit. Þá, eins og alltaf, voru sumir skipstjórar mælskari en aðrir og var oft skemmtilegt að fylgjast með umræðunum. Ég heyrði í fyrsta skipti í Jakobi Jakobssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, þetta sumar en hann naut mikillar virðingar sjómanna.”

Þeir Jakob áttu eftir að eiga margt saman að sælda síðar meir og verða nánir samstarfsmenn.

Óráðinn ungur maður

Veturinn 1962-1963 var Halldór í hálfgerðu reiðuleysi heima á Höfn og voru foreldrar hans ekki sem ánægðastir með hann. Einkum var pabbi hans af og til að impra á því að hann leitaði sér einhverrar menntunar. Sjálfur var hann vafalaust sannfærður um að hann væri skussi í lærdómi og var tregur til að taka ráðum foreldra sinna. Hann vann ýmsa tilfallandi vinnu til sjós og lands um veturinn og var meðal annars á bátnum Frey SF frá Hornafirði á reknetaveðum. Sjálfsagt hefur sú reynsla enn frekar leitt honum fyrir sjónir að hann yrði að leita á önnur mið en sjóinn:

“… við lentum í vitlausu veðri og lónuðum uppi þar í 5 daga samfleytt, ég var sjóveikur allan tímann og það eina sem ég borðaði þessa daga voru tvö egg.”

Þrátt fyrir sjóveikina fór Halldór aftur á síld á Ólafi Tryggvasyni SF sumarið 1963, enda gátu verið mikil uppgrip í síldinni. Guðrún mamma hans lét svo ummælt að snemma hafi komið í ljós að hann væri afskaplega duglegur að bjarga sér upp á eigin spýtur:

“Það hefur aldrei þurft að bjarga honum peningalega eða á nokkurn annan hátt. Hann hefur haldið sína leið óstuddur.”

Um þetta síðara sumar skrifaði Halldór:

“Þá hafði síldin flutt sig austur fyrir land. Það var mikið áfall fyrir atvinnulífið á Norðurlandi en að sjálfsögðu mikil uppgrip fyrir Austurland. Við lönduðum á Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Reyðarfirði og var oft löng bið eftir löndun. Síldin úldnaði í bátnum og við orðnir samdauna lyktinni sem sat í fötum okkar. Við áttuðum okkur ekki á því fyrr en við vorum komnir heim um haustið hvað það var vond lykt af okkur… Við fórum á böll í landlegum en svo virtist sem stúlkurnar hefðu lítinn áhuga fyrir að dansa við okkur og við gerðum okkur ekki grein fyrir ástæðunni.”

Skipverjar á Ólafi Tryggvasyni lentu í nokkrum sjávarháska einu sinni þetta sumar. Halldór hefur orðið:

“Eftirminnilegasta atvikið þetta sumar var að við fengum fullfermi, eins og oftar áður, en það hafði verið kastað í fremur vondu veðri. Okkur tókst að fylla bátinn í skjóli annarra báta, sem komu okkur til aðstoðar, en eftir að því var lokið fór veður versnandi. Var þá ákveðið að losa alla síld af dekkinu. Það reyndist ekki nóg því sjór flæddi stöðugt yfir dekkið og bátnum gekk illa að ryðja sig þar sem lensiportin höfðu ekki undan. Þessi barátta endaði með því að báturinn lagðist á stjórnborðshliðina og var útlitið heldur dökkt. Allir menn höfðu verið kallaðir afturá skipið og við höfðum yfirgefið íbúðirnar frammí. Þegar hér var komið sögu var okkur sagt að vera klárir að fara í gúmmíbjörgunarbáta og voru allir kallaðir upp á bátapall og í stýrishúsið. Lokatilraun var gerð til þess að keyra bátinn upp en okkur var sagt að það gæti farið á hvorn veginn sem var. Því væri mikilvægt að allir væru tilbúnir að yfirgefa bátinn ef þetta tækist ekki. En viti menn, allt fór á betri veg og sýndu skipstjóri, stýrimaður og fyrsti vélstjóri mikið öryggi við stjórnina á þessum tvísýnu mínútum.”

Halldór sagði um þessa lífsreynslu:

“Ég hef oft hugsað til þess síðar að ekki vorum við nú vel búnir til að stökkva frá borði. Ég var klæddur í gæruúlpu og björgunarvestin höfðu ekki verið tekin með úr kojunum í íbúðunum frammí.”

Hann lét síðar hafa eftir sér að í þessum lífsháska hefði hann fyrst og fremst verið að hugsa um nýju úlpuna sína, hvernig færi með hana ef hann lenti í sjónum.

Um borð í síldarbátnum Ólafi Tryggvasyni. Gummi, Valdi, Dóri, Stebbi og Skari. Með fullu nafni frá vinstri: Guðmundur Björgvinsson, Þorvaldur Jónsson, Halldór Ásgrímsson, Stefán Arngrímsson og Óskar Guðmundsson.

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 29, 2019 10:19