En það bar til um þessar mundir

Karl Sigurbjörnsson

Karl Sigurbjörnsson biskup hefur sent frá sér bókina Dag í senn, sem hefur að geyma hugleiðingar fyrir hvern dag ársins, sem byggjast á boðskap Biblíunnar. „Þessar hugleiðingar eru bornar uppi af reynslu, kærleika og visku höfundarins sem hefur helgað líf sitt kirkjunni og samfélaginu öllu“, segir í tilkynningu frá útgáfunni en það er Skálholtsútgáfan gefur bókina út. Lifðu núna mun birta hugleiðingar Karls sem tengjast jólahátíðinni næstu daga. Hér kemur boðskapur dagsins sem er 23.desember, Þorláksmessa.

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. (Lúk.2.1)

Þetta er baksvið jólanna, skattheimta keisarans. Hversdagslegra getur það varla verið. Flóknar samfélagsaðstæður í skattlandinu og sívaxandi þarfir heimsveldisins að auka tekjur sínar til að standa undir auknum umsvifum og mæta fjárlagahallanum – Heimurinn, hversdagsveruleiki okkar. Jólaguðspjallið er ekki ævintýri, jólin eru ekki þykjustuleikur.

Boð kom frá Ágústusi keisara. Fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kyreníus var landstjóri á Sýrlandi. Valdamiklir menn þetta, með mikið afl og auð að baki. Nú er þeirra minnst um víða veröld vegna barns sem þeir höfðu ekki hugmynd um, fátæks fólks sem hraktist undan valdboðum þeirra um langan veg upp til Betlehem, var úthýst og lét fyrirberast í fjárhúsi, þar sem barnið litla fæddist. Barnið sem veldur vatnaskilum í veraldarsögunni.

Þar kemur að stóru nöfnin okkar samtíðar verða gleymd og grafin, hin volduga heimsmenning samtímans horfin, flestum gleymd. Því heimsveldin koma og fara, nú sem fyrr. En nafnið hans sem í Betlehem fæddist gleymist ekki. Þegar okkar tíð verður aðeins lítil neðanmálsgrein í veraldarsögunni og sérfræðingar velta vöngum yfir merkingu orðanna „Coca Cola“ og „Made in China“ , þá munu menn lesa og heyra í kirkjum og helgidómum sem okkur er um megn að setja okkur fyrir sjónir, á tungumálum sem við þekkjum ekki, orðin háleitu, hátíðlegu: „En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara…“

Það er ekki aðeins tímatalið sem miðast við þessa barnsfæðingu, heldur hafa örlög mannkyns eignast samnefnara í barninu í Betlehem. Lífið á jörð er eilífs gildis vegna þess að Guð varð maður í heiminum okkar, hann varð hluti sköpunar sinnar og fæðing hans markar þann möndul sem líf og örlög snúast um. Það er orðið hluti ástarsögu, sögu kærleikans eilífa sem leitar skjóls í mannheimi, leitar skjóls hjá þér. Það ber til um þessar mundir að þau boð berast þér, ekki af valdastólum heimsins, heldur himins, Guðs, sem kemur til þín til að vera hjá þér og blessa þig.

Drottinn, lát mig heyra, hlýða, þiggja. Amen.

Ritstjórn desember 23, 2019 09:38