Fæddi hún þar son sinn…

Dag í senn, er heitið á bók Karls Sigurbjörnssonar biskups þar sem birtar eru hugleiðingar fyrir hvern dag ársins. Við birtum í gær hugleiðingu dagsins 23.desember og nú er komið að aðfangadegi, 24. desember.

En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þar son sinn frumgetinn, varði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi. (Lúk. 2.1-7)

Á þessum degi finnst mér gott að íhuga samtal Hieronýmusar og barnsins  í jötunni í Betlehem. Hann var fræðimaður á 5. öld sem þekktur er fyrir að hafa þýtt Biblíuna á latínu. Hann settist að í Betlehem, við fæðingarhellinn, og helgaði líf sitt íhugun, bæn. Hann segir:

Hvert sinn er ég skoða þann stað þá ræði ég í hjarta mínu við Jesúbarnið. Ég segi: „Æ, Drottinn Jesús, þú skelfur. Kalt er rúmið og hörð er hvílan sem þú liggur á vegna sáluhjálpar minnar. Hvernig get ég goldið þér?“

Þá finnst mér sem Jesúbarnið svari: „Kæri Híerónímus, ég þarfnast einskis annars en að þú syngir: „Dýrð sé Guði í upphæðum!“ Ég mun mæta ennþá harðari þrautum í Getsemane og á krossinum helga.“ Þá held ég áfram: „En, elsku barn, ég verð að fá að gefa þér eitthvað. Ég vil gefa þér allar eigur mínar.“ Barnið svarar mér: „ Himinn og jörð á ég nú þegar. Ég þarfnast einskis. Gefðu fátækum, það mun ég þiggja á sama hátt og ef þú hefðir gefið mér það.“ Ég held áfram: „Elsku Jesúbarn, það geri ég með gleði, en ég verð að fá að gefa þér sjálfum eitthvað, annars afber ég það ekki.“ Barnið litla svarar: „ Kæri Hierónímus, úr því að þú ert svona örlátur þá skal ég segja þér hvað þú skalt gefa mér.  Gef mér syndir þínar, slæma samvisku þína, fordæming.“ „Hvað ætlar þú að gera við það?“ segi ég þá. Jesúbarnið svarar: „Ég ætla að taka það á mig og bera á herðum mér. Það verður vegsemd mín og dýrð, því að Jesaja sagði forðum að ég eigi að axla og bera burt syndir manna og mein.“ Þegar ég heyri þetta þá fer ég að gráta beisklega og segi: “ Elsku litla barnið mitt, þú hefur snortið hjarta mitt. Ég hélt að þú vildir þiggja eitthvað gott af mér, en þess í stað viltu eiga það allt hjá mér sem er illt og vont. Taktu það allt. Taktu allt mitt og gef mér allt þitt, þá er ég frjáls úr fjötrum synda og fullviss um lífið eilífa.“ Amen.

Guð gefi þér og þínum gleðileg jól í Jesú nafni, amen.

 

 

 

 

Ritstjórn desember 24, 2019 18:43