Rúmlega 500 manns í skötu á Álftanesi

Wilhelm Wessman

Wilhelm W.G.Wessman  hótelráðgjafi og leiðsögumaður segir að siðurinn að borða skötu á Þorláksmessu hafi borist til höfuðstaðarins frá Vestfjörðum um miðja 20. öld en það var aðallega á Vestfjörðum og við Breiðafjörð sem skatan veiddist.

Skötukarlar úr verslunarbransanum

„Hún þótti reyndar ekki mikið lostæti en þar sem haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu var skötuát í hugum margra nátengt þessum degi og fór mönnum að finnast það nauðsynlegt að fá skötu daginn fyrir jól. Ib Wessman bróðir minn sem var yfirmatreiðslumeistari í Naustinu 1956-1982 sagði mér að  hann myndi fyrst eftir að hafa soðið skötu þegar hann var við nám í matreiðslu á Gildaskálanum sem stóð við Aðalstræti. Það var árið 1953 og sá sem bað um skötuna var einn af hluthöfum veitingastaðarins. Á þessum árum hafi það verið óþekkt að skata væri á matseðlum veitingahúsa.  Ib sagði að árið 1956 eða 1957  hafi komið nokkrir skötukarlar úr verslunarbransanum í Reykjavík með Kjartan í Asíufélaginu í fararbroddi  og beðið  hann um að sjóða fyrir þá skötu í hádeginu á laugardögum, var það auðsótt og voru þeir fastagestir hjá Ib eftir það. Hann setti svo árið 1959  saltfisk og skötu á matseðil Naustsins í hádeginu á laugardögum og hélst sá siður þar til hann hætti. Árið 1965 bauð Ib í fyrsta skipti upp á skötu á Þorláksmessu, fyrstu árin á kvöldin, en eftir 1970 eingöngu í hádeginu.

The Icelandic skate club

Á áttunda áratugnum fóru að myndast skötuhópar. Ég er meðlimur í einum slíkum sem heitir því ágæta nafni  THE ICELANDIC SKATE CLUB  og er stofnað 1971 af Emil Guðmundssyni þáverandi hótelstjóra á Hótel Loftleiðum og Sigurði Magnússyni þáverandi blaðafulltrúa Loftleiða. Við hittumst til skiptist á Fjörukránni eða Akranesi síðasta laugardag fyrir Jól, en í klúbbnum eru margir þekkri Akurnesingar. Ég man fyrst eftir að skata væri á boðstólum á Hótel Sögu í kringum 1980 og þá fyrir smærri hópa. Fyrsti stóri hópurinn sem borðaði Þorláksmessuskötu á Sögu vor Frímúrarabræður 1986,“ segir Wilhelm.

Skata á Áftanesi

 Síðari ár hafa mörg félagsamtök staðið fyrir skötumessum á Þorláksmessu. Oft í  þeim tilgangi að afla fjár til einhverra tiltekinna málefna.  Lionsklúbburinn á Álftanesi hefur undanfarin átján ár, selt skötu og saltfisk í hátíðasal Íþrótthússins á Þorláksmessu.  „Við opnum klukkan hálf tólf og erum að afgreiða til klukkan átta um kvöldið,“ segir Ingólfur Th Bachmann, félagi í klúbbnum.  Það er margt um manninn í skötuveislunni en lionsmenn áætla að það komi á milli 550 og 560 manns  til að borða skötuna. „Við bjóðum upp á kæsta skötu, tindabykkju og saltfisk fyrir þá sem ekki vilja skötuna,“ segir Ingólfur.  Það er ekkert smámagn af mat sem þarf til að metta allan þennan fjölda.  Af skötu og tindabykkju fara 250 kíló og 45 kíló af saltfiskinum.  Meðlætið er hefðbundið, kartöflur, rófur, smjör, tólg og rúgbrauð. „Við höfum stundum boðið upp á vestfirskan hnoðmör það er alltaf  einn og einn sem vill hann,“ segir Ingólfur. Lionsfélagar nota ágóðann af skötusölunni til líknarmála. Í fyrra rann til að mynda stærstur hluti ágóðans til líknarsjóðs Álftaneskirkju.

Ritstjórn desember 22, 2016 12:03