Endómetríósa eftir að breytingaskeiði lýkur

Endómetríósa er sársaukfullur og hættulegur sjúkdómur. Flestar konur fara fyrst að finna fyrir honum þegar þær byrja á blæðingum en hingað til hefur verið talið að hann hverfi eftir að tíðahvörfum lýkur. Nýjar rannsóknir benda hins vegar til að um það bil 2-4% kvenna haldi áfram að finna einkenni eftir breytingaskeiðið.

Kvenhormónið estrógen magnar upp einkenni endómetríósu og vegna þess þarf að fara varlega í að gefa konum sem glímt hafa við sjúkdóminn hormóna við fylgikvillum breytingaskeiðsins. Séu þeim gefnir hormónar getur það valdið því að endómetríósan taki sig upp og það getur haft slæm áhrif á líffæri kviðarholsins.

Hingað til hefur skilningur manna á þessum sjúkdómi verið lítill og meðferð við honum er enn á byrjunarstigi. Endómetríósa er krónískur sjúkdómur og veldur nær óbærilegum tíðaverkjum, miklum blæðingum, ófrjósemi og stundum sársauka við samfarir. Uppruni sjúkdómsins og þróunarferill er enn óþekktur en vitað að estrógenháðir vefir myndast utan legsins og geta sest utan á líffærði í kviðarholi og orsakað viðvarandi bólgur. Þetta veldur gríðarlegum sársauka og oft truflunum á starfsemi líkamans. Þótt slíkir vefir hafi fundist á og við þindina er þá samt oftast eingöngu að finna í neðra kviðarholi. Vegna þess að vefirnir eru estrógenháðir, þ.e. vöxtur þeirra örvast þegar estrógenhlutfall er hátt í líkamanum minnka þeir oftast nær og jafnvel hverfa eftir tíðahvörf.

Algengasta meðferð skurðaðgerð 

Í örfáum tilvikum gerist það þó að líkamar kvenna halda áfram að mynda slíka vefi eftir að blæðingum líkur. Hvort þá sé um að ræða annan en skyldan sjúkdóm er óljóst en helsta meðferð hingað til hefur verið að gera skurðaðgerðir þar sem vefirnir eru fjarlægðir. Í sumum tilvikum er sjúkdómur svo hamlandi að ungar konur gangast undir legnám í von um að einkennunum létti.

Tíðahvörf byrja hjá flestum í kringum fimmtugsaldur en konur geta fundið fyrir forstigseinkennum frá fertugsaldri. Um leið og blæðingar hætta minnkar estrógenframleiðsla líkamans hratt og því fylgja hitakóf, svitaköst, svefntruflanir, depurð, kvíði, vöðva-, og liðverkir og fleiri einkenni. Flestar konur upplifa eitthvað af þessu en misjafnlega mikið. Hormónameðferð hefur reynst mjög árangursrík til að létta á þessu en slík meðferð ætti ævinlega að vera einstaklingsmiðuð og konur með endómetríósusögu ættu ávallt að láta lækni sinn vita af því og skoða vel þá möguleika sem eru í boði. Breytt mataræði með aukinni neyslu á matvöru sem inniheldur náttúrulegt estrógen, sálrænar meðferðir m.a. slökunarmeðferð, dáleiðsla, hugræn atferlismeðferð, og aukin hreyfing hafa reynst í sumum tilvikum hjálpleg til að draga úr einkennum breytingaskeiðsins.

Nýjar rannsóknir á endómetríósu benda til að samband geti í sumum tilvikum verið milli sjúkdómsins og aukinnar hættu á legkrabbameini og hjartasjúkdómum. Enn sem komið er, eru þær hins vegar á frumstigi og því ekki hægt að fullyrða neitt þar um. Eftir að breytingaskeiði lýkur hætta flestar konur sem hafa þjást af endómetríósu að finna fyrir verkjum. Taki þeir sig hins vegar upp ættu þær að leita læknis strax og láta vita af einkennunum og biðja um að athugað verði hvort þær séu í þeim fámenna hópi kvenna sem ekki losna undan fjötrum sjúkdómsins eftir að estrógenframleiðsla í líkamanum minnkar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 5, 2024 07:00