Viftur á skrifborðin eða þynnri starfsmannafatnaður?

Það er búist við því í Bandaríkjunum að eldri konur á vinnumarkaði verði um 31 milljón á næsta ári. Þetta kemur fram í grein eftir konu að nafni Shelley Emling á bandaríska vefnum aarp.org.

Þar er vitnað í opinbera breska skýrslu sem segir að eftir því sem eldri konum fjölgi á vinnumarkaði, þurfi vinnuveitendur að sjá til þess að þeim líði vel í vinnunni.

Þær aðgerðir sem bent er á að hægt sé að ráðast í, er að vera með viftur á skrifborðunum og góða loftræstingu. Hafa rólega staði þar sem hægt er að hvílast og noti fyrirtæki starfsmannafatnað eigi hann að vera úr ekta og þunnum efnum.  Það eigi líka að hafa kaldavatnskrana við hendina í vinnunni og til viðbótar þessu öllu, þurfi sérstaka stefnu sem geri ráð fyrir að konur geti tekið sér frí, þurfi þær á því að halda.

Eldri konum á vinnumarkaði fjölgar bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Eftir sjö ár, verða konur  55 ára og eldri tvöfalt fleiri á vinnumarkaði vestra, en konur á aldrinum 16 til 24 ára.  Fyrir fimm árum síðan voru konur á aldrinum 45-64 ára um  27 milljónir eða 20% af vinnumarkaðinum í Bandaríkjunum. Á næsta ári er búist við að þær verði 31 milljón.

Fyrir sumar konur, er breytingarskeiðið ekki meiriháttar mál þegar þær komast á miðjan aldur, en hjá öðrum eru einkennin svo slæm að þau geta valdið meiriháttar vandræðum, bæði líkamlegum og tilfinningalegum, í 10 ár eða lengur.

Auk þess að finna fyrir hitakófi og svitaköstum á næturnar, þjást sumar konur á breytingarskeiði af svefnleysi, höfuðverk, heilaþoku, þurrki í húð og augum, þunglyndi og orkuleysi.

Það kom fram í bresku skýrslunni að konur á breytingaskeiði sem ynnu undir miklu álagi, gætu fundið fyrir verulega auknum óþægindum og ótta þegar þær stæðu frammi fyrir daglegum og hertum kröfum um verkefnaskil og vinnufundi.

Prófessor í kvenlækningum við Háskólann í Glasgow, sagði í samtali við enska blaðið Telegraph að margar konur væru á hátindi ferils síns þegar breytingaskeiðið skylli á og það væri alveg sérstaklega niðurlægjandi.

„Ég held að konum finnist þetta vandræðalegt og vilji ekki tala um þetta, sem hefur leitt til þess að þetta er alls ekki rætt“,sagði prófessorinn. „Vinnustaðir ættu að reyna að bjóða uppá borðviftur og þynnri starfsmannafatnað þannig að konur gætu notfært sér slíkt ef þær vildu, án þess að gert sé stórmál úr því“.

Evrópska félagið um breytingaskeið karla og kvenna,  mæltist til þess fyrir tveimur árum að atvinnurekendur útveguðu borðviftur, loftræstingu og kalt drykkjarvatn fyrir þá starfsmenn sína sem eru komnir á breytingaskeið. Einnig sveigjanlegan vinnutíma fyrir konur sem þjást af svefntruflunum, en rúmlega 60% kvenna sem eru á breytingarskeiði segjst þjást af svefnleysi.

Þrátt fyrir að atvinnurekendum sé ljóst hversu  óþægilegt  það getur verið fyrir konur þegar þær komast á breytingaskeiðið, er ekki ljóst hversu mörg fyrirtæki gera raunverulega eitthvað til að bregðast við því.

Donna Faye Randall höfundur bókarinnar Tíðahvörf eða geðveiki…Það er spurningin sagði á fundi hjá Félagi mannauðsstjóra að á hverjum tíma væru um 50 milljónir kvenna í Kanada og Bandaríkjunum á breytingarskeiði. Það væri gáfulegt og sjálfsagt fyrir mannauðsdeildir fyrirtækja að veita þessum starfsmönnum stuðning.  „Ef fyrirtækið þitt gerir ákveðnar kröfur um klæðnað og krefst þess að konur mæti í dragt og sokkabuxum í vinnuna, ætti það að gefa undanþágur frá þeim, sérstaklega ef heitt er í veðri“, sagði hún og bætti að upplýsingar um breytingaskeiðið ættu að hanga á töflu í hverri einustu starfsmannakaffistofu, þannig að konur ættu auðveldara með að ræða þessi mál við yfirmenn sína.

Ritstjórn ágúst 10, 2017 10:55