Tengdar greinar

Engin ástæða til að skilja eftir sig arf handa börnunum?

Tryggvi Pálsson var lengi áberandi í íslensku bankakerfi þar sem hann starfaði í lykistöðum í áratugi. Hann hætti í formlegri dagvinnu 62ja ára.  Í viðtali við Vísi hvetur hann eldra fólk til að nota arf barnanna og nýta peningana sína snemma. Blaðamaður Lifðu núna rakst á viðtalið á visir.is, en það var tekið fyrir ári síðan. En hugmyndin er athyglisverð og viðtalið enn í fullu gildi. Þar segir meðal annars:

„Notaðu arf barna þinna er meira að segja yfirskrift ferðaskrifstofu í Danmörku sem sérhæfir sig í ferðum fyrir fólk á þriðja æviskeiði. Sem ég er sammála um að fólk geri og hvet fólk til að nýta peninga sína snemma og á meðan það hefur heilsu til,“ segir Tryggvi Pálsson og bætir við:

„Því þegar að við föllum frá má gera ráð fyrir að börnin okkar séu á sjötugsaldri og sjálf löngu búin að koma sér vel fyrir. Þau hafa fengið stuðning í uppeldinu, náminu og ef til vill við kaup á fyrstu íbúðinni. Þannig að til hvers að keppast við að eiga eitthvað til að arfleiða fullorðna afkomendur að í stað þess að njóta þess sem þú ert búinn að vinna þér fyrir?“

Tryggvi Pálsson er eitt þekktasta nafnið úr heimi banka- og fjármála síðustu áratugi. En ekkert síður fyrir kennslu eða þátttöku í félagsstörfum. Tryggvi fæddist 28. febrúar árið 1949 og er af vinum sagður „meistari í að njóta þriðja æviskeiðsins.“

Lýsing sem á vel við því sjálfur segir Tryggvi:

„Þegar við erum komin á þetta tímabil í lífinu erum við okkar eiginn meistari,“ segir Tryggvi.

Tryggvi kemur víða við í umræðunni um efri árin í þessu áhugaverða viðtali við visir.is, en Lifðu núna birtir einungis brot af því hér. Hægt er að lesa það í heild sinni með því að smella hér.

 

Ritstjórn ágúst 21, 2023 14:25