Bob Dylan varð áttræður 24. maí síðastliðinn. Margir halda því fram að hann sé heltekinn af því að eldast, en það verður varla stutt neinu, nema e.t.v. nokkrum lagatextum hans. Nóbelsverðlaunahafinn hefur lítið tjáð sig sjálfur beint um hvað honum finnst um það að eldast.
Af því að hann er ekki bersögull ratar allt sem hann tekur sér fyrir hendur í fjölmiðla vestanhafs sem uppsláttarfréttir, eins og hann sé karlgerðin af Taylor Swift. Ólíkt Swift virðist þó margt af því sem um hann er sagt nú orðið snúast um það eitt að hann er „goðsagnakenndur rokkari“ á níræðisaldri.
Einhverjir hafa bent á að flest nýrri verka Dylans séu hugleiðingar um ellina, t.d. „When the Deal Goes Down“ og „Not Dark Yet“, og að það styðji þá skoðun að söngvaskáldið sé heltekið af endalokunum. Þetta er auðvitað að sumu leyti rétt – og við þetta má bæta gömlu smellunum sem skáldið hefur verið að kyrja að undanförnu, t.d. „In My Time of Dyin’“ og „See That My Grave is Kept Clean“. Og ekki skulum við gleyma „Fixin’ To Die“.
Þessi þrjú síðastnefndu lög eiga eitt annað sameiginlegt en það að fjalla um það að eldast: Þau voru öll á fyrstu breiðskífu Dylans sem kom út árið 1962 — þegar hann var aðeins 21 árs!
Merkir þetta að hann sé heltekinn af því að eldast?
Þetta eru að vísu allt þjóðlög, og vitundin um dauðann er aldrei langt undan í þjóðlagatónlist. Það var raunar eitt af því sem heillaði Dylan snemma á ferlinum, og allar götur síðan hefur hugleiðing um endalokin — að við erum ekki ódauðleg — verið til staðar í verkum hans, stundum á augljósan hátt, stundum undir rós, stundum á léttu nótunum, stundum á trúarlegum nótum.
Sá sem setur plötu með Bob Dylan á fóninn og leggur við hlustir kemst þó fljótt að því að Dylan er ekki ósáttur við það að eldast. Öðru nær, hann hefur elst vel og verk hans á seinni árum bera þess merki að gamli Zimmerman er ekki að reyna að sætta sig við það að vera orðinn grár fyrir hærum. Hann er fullur af lífskrafti og reynir að fá sem mest út úr lífinu á efri árum. Hann er sáttur í eigin skinni; í raun lítur hann út fyrir að vera sáttari en nokkru sinni. Hann er a.m.k. ennþá sinn eigin húsbóndi í tónlistinni — og það stuðlaði án efa að því öryggi sem til þurfti til að senda frá sér 39. breiðskífuna, „Rough and Rowdy Ways“, 79 ára.
Hvernig lítur annars sá út sem er heltekinn af aldrinum? Hvernig hagar hann sér?
Þegar litið er á heim fræga fólksins er ekki erfitt að benda á nokkra sem eru uppteknir af aldrinum meira en góðu hófi gegnir. Við skulum velja einn sem móðgast ekki þótt á hann sé bent — af því að hann er látinn: Michael Jackson fór í alls kyns fegrunaraðgerðir til þess að láta líta svo út að hann væri miklu yngri en hann var. Þegar hann lést aðeins 51 árs gamall leit hann út fyrir að vera táningur úr vaxi. Hann var miðaldra karlmaður sem virtist aldrei vilja láta líta á sig sem karl. Líklega geta margir tekið undir það að hann hafi verið heltekinn af aldrinum.
Larry Page, meðstofnandi Google, er 48 ára milljarðamæringur. Hann ver hundruð milljónum dollara í átak til þess að reyna að sigrast á dauðanum. Líklega er óhætt að kalla þetta að vera með aldurinn á heilanum.
Hvað um að syngja „Autumn Leaves“ á sviði eftir að maður er orðinn sjötugur? Heitir það að vera með aldurinn á heilanum? Nei, það er það sem við köllum að bera aldurinn vel — ekki síst þegar það er jafnvel gert og hjá bandaríska Megasinum.