Tíminn er sálufélagi

Tákn Dylans sólgleraugu og sígaretta

Tákn Dylans sólgleraugu og sígaretta

Söngvarinn og lagahöfundurinn Bob Dylan er 73 ára og orðinn langaafi fyrir nokkru. Í byrjun mánaðarins kom út nýr diskur með honum, Shadows In the Nigth en á honum er að finna tíu lög sem hafa lifað með bandarísku þjóðinni í áratugi. Má þar nefna Autumn Leaves, That Lucky Old Sun og Stay With Me. Öll lögin á disknum eiga það sameiginlegt að  Frank Sinatra hefur áður gefið þau út á hljómplötum. Enda segist Dylan mikill aðdándi hans. Í viðtali við veftímaritið aarp.org ræðir kempan um diskinn og sjálfan sig. Lifðu núna endursegir hluta af viðalinu.

Hvað þýðir væmið

Dylan lýsir aðdáun sinni á þessum gömlu lögum sem hann valdi á diskinn og segist eiga gott með að tengjast þeim. „Ég vil gjarnan að fólk geti tengst þeim á sama hátt og ég,“ segir hann. Hann er spurður hvort hann haldi ekki að ungum hlustendum komi til með að þykja lögin væmin. „Ég veit ekki hvers vegna þau ættu að hljóma þannig. Hvað þýðir væmið nákvæmlega,“ spyr Bob Dylan sem segir lögin fjalla um dyggð. „Líf fólks í dag er fullt af illsku og því sem henni tengist svo sem metnaðargirnd, græðgi og sjálfselsku. Fyrr en síðar verðum við að sjá í gegnum þetta, annars lifum við ekki af,“ segir hann

Ástríða er leikur hins unga manns

Mörg af nýrri lögum Dylans fjalla um það hvernig  það er að eldast. Sjálfur segir hann að fólk setjist ekki í helgan stein, heldur fjari það út og verði máttvana. „Ástríða er leikur hins unga manns,“segir söngvarinn. „Ungt fólk á að  vera ástríðufullt en þeir eldri eiga að vera vitrari. Þegar maður er búinn að lifa lengi þá hlýtur maður að geta skilið eitthvað eftir handa þeim ungu. Ekki þykjast vera ungur, þú gætir meitt þig á því,“ segir hann.

Nýleg mynd að kappanum

Nýleg mynd að kappanum

Lífið gengur í bylgjum 

Dylan ferðast mikið og kemur fram um það bil 100 sinnum á ári. Hann segir ferðalögin afstæð, maður verði að fara þangað sem sem fólkið er. Amma hans sagði eitt sinn að hamingjan væri ekki leiðin að neinu heldur væri leiðin hamingja. „Fullt af fólki segir að það sé engin hamingja í þessu lífi og það er alveg rétt það er ekki til nein varanleg hamingja. En það að vera sjálfum sér nægur skapar hamingju. Fólk er kannski ánægt þegar það borðar góðan mat en það sama á kannski ekki við skömmu síðar. Lífið gengur í bylgjum og tíminn verður að vera vinur þinn. Tíminn er sálufélagi þinn. Ég veit ekki hvað hamingjan er og held að ég geti ekki skilgreint hana,“ segir hann.

Hamingjan er hverful

Dylan segir hamingjuna hverfula. „Hún er eins og vatnið sem rennur í gegnum fingur þér. Á meðan þjáningin er til verður hamingjan ávallt takmörkuð. Hversu hamingjusamur er sá sem verður fyrir óláni,“ spyr hann. Hann gagnrýnir þá ríku og spyr hvort að menn séu hamingjusamir sem geti keypt 30 bíla eða íþróttalið. Hvað myndi gera slíkt fólk enn hamingjusamara.

Nýi diskurinn

Nýi diskurinn

„Að flytja fé til annarra landa? Er það ljúfara en að skapa störf í fátækrahverfum hér heima. Ríkið býr ekki til störf. Það þarf þess ekki. Fólk verður að búa störfin til og þessir ríku karlar eru þeir sem geta það en gera það ekki. Glæpum fjölgar og borgir fyllast af atvinnulausu fólki sem getur ekkert annað en leitað í eiturlyf og áfengi. Þau gætu öll fengið vinnu ef þeir ríku legðu sitt af mörkum. Það myndi svo sannarlega skapa mikla hamingju,“ segir Bob Dylan og bætir við að það sé svo margt að í Ameríku sérstaklega í fátækrahverfum stórborganna,  sem þeir ríku gætu leyst. „Þessi hverfi eru hættuleg svæði en gætu vel verið hættulaus. Það er gott fólk sem býr þar en það er þrúgað af atvinnuleysi. Allt þetta fólk gæti unnið. Þessir margmilljarðamæringar gætu skapað iðnað hér í Bandaríkjunum. En enginn getur sagt þeim hvað þeir eiga að gera. Guð verður að leiða þá,“ segir Bob Dylan.

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 18, 2015 14:05