Er ég þá núna orðin gömul?

Hjördís Hendriksdóttir

Hjördís Hendriksdóttir, formaður Vöruhúss tækifæranna skrifar:

Á næstu dögum á ég tímamótaafmæli! Af því tilefni rifjaðist upp fyrir mér að fyrir rúmum 35 árum síðan var mér boðið, ásamt þáverandi samstarfskonum mínum, í kaffi til einnar okkar þar sem þekktur miðill mætti í boði gestgjafans og las lófana okkar og spáði fyrir um framtíðina.

Miðillinn horfði á líflínuna mína í lófanum og sagði að ég myndi deyja ung. Mér snarbrá og spurði: hvenær? Miðillin starði í lófann og sagði „64 ára“. Ég, vel innan við þrítugt, hugsaði „tja – er það endilega svo ungt?“

Spurðu mig núna og þá skal ég svara þér: Já – það er kornungt!
Ég klárlega skynja þetta allt öðru vísi núna.

Fyrir tæpum 10 árum síðan töldu Bretar að fólk væri orðið gamalt þegar það næði 59 ára aldri. Árið 2018 voru Bretar búnir að breyta um skoðun og töldu að fólk væri orðið gamalt þegar það yrði 70 ára. Eftir því sem lífslíkur okkar aukast breytist viðhorf  okkar um hvenær við teljum við og annað fólk sé orðið gamalt.

Í dag höfum við margfalt öflugri sjúkdómsvarnir en áður og betri aðgang að lyfjum en nokkru sinni fyrr. Við búum yfir meiri vísindalegri þekkingu sem stuðlar að heilbrigðari lífsstíl en áður sem heldur okkur „yngri“ mun lengur en áður.

Árið 1985 setti Richard Bass heimsmet þegar hann, 55 ára gamall, kleif Everest-fjall sem var hans síðasta og sjöunda hæsta fjall sem hann hafði klifið í öllum heimsálfunum. Þetta heimsmet Bass er löngu fallið. Elsta manneskjan sem hefur klifrað Everest er Yuichiro Miura frá Japan, sem náði tindi Everest-fjalls árið 2013, 80 ára að aldri. Og elsta manneskjan sem hefur klifið öll fjöllin sjö í heimsálfunum er Takao Arayama frá Tansaníu sem kleif síðasta þeirra 74 ára að aldri árið 2010. Reyndar er alls ekki ólíklegt að  ef bæði þessi met verði slegin innan næsta áratugar.

Hið hefðbundna viðhorf lýðfræðinga, og stefnumótandi aðila um öldrun, er að lífslíkur fólks séu að aukast og að fólk sé að ná hærri aldri en áður. Hins vegar eru þessir aðilar síður að horfa til þess að þetta eldra fólk er ekki einungis heilbrigðara nú, líkamlega, andlega og að það mælist mun hærra  í vitrænum ástandsprófum en áður.

Með því að horfa framhjá þessum breytingum á eiginleikum þessa fólks og horfa eingöngu á aldur þess, gefur þessari nálgun villandi mynd af framtíðinni. Mælingar á öldrun íbúa þurfa að taka til greina breytt einkenni þessa hóps.

Það felst mikill sannleikur í máltækinu „aldur er ekki bara tala  – aldur er fyrst og fremst viðhorf!“

Þessi pistill Hjördísar birtist fyrst á vef Vöruhúss tækifæranna, sem er vefur sem samtökin U3A reka og hefur að geyma ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir þá sem eru komnir yfir miðjan aldur. Sjá fréttabréf vefsins hér.

Ritstjórn júní 24, 2021 08:11