Verðum við síðri einstaklingar þegar við hættum að vinna?

U3A eru samtök sem hafa það á stefnuskrá sinni að fræðast og fræða aðra sem eru komnir á þriðja æviskeiðið, sem talið er hefjast þegar menn ljúka störfum formlega. Fullt heiti samtakanna er Háskóli þriðja æviskeiðsins. Það felur samt ekki í sér þá kröfu að félagsmenn skuli allir vera með háskólamenntun. Sjá meira um samtökin hér. Þau  reka vefsíðuna Vöruhús tækifæranna sem hefur að geyma ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir eldra fólk.

Í nýju fréttabréfi Vöruhússins er rætt um að þeir sem nú  eru orðnir fimmtíu plús sjái hilla undir formleg starfslok sín og undirbúi þau við allt aðrar aðstæður og á öðrum forsendum en kynslóðirnar á undan. „Viðhorf okkar og þeirra kynslóða sem á eftir okkur koma, eru önnur og trúlega heilbrigðari,“ segir í stuttri grein um þetta mál. Síðan segir.

Okkur var innprentað frá unga aldri að vinnusemi væri dyggð – því meira sem við ynnum, þeim mun dyggðugri yrðum við. Það mætti því mögulega draga þá ályktun að vinnan sé ekki einungis áhrifamesti þátturinn í daglegu lífi okkar heldur mótar okkur líka sem manneskjur.

Á stundum höfum við státað okkar af því að vinnusemi sé íslensku þjóðinn sérstaklega í blóð borin og að þess vegna séu Íslendingar svona sérlega duglegir. Og þessu til staðfestingar eru vísbendingar um að Íslendingar séu lengur á vinnumarkaði og hefji töku lífeyris seinna en nágrannaþjóðir okkar.

Það segir sig því sjálft að það að hætta að vinna er mikil áskorun. Hvað verður nú um alla áunnu dyggðina okkar? Og mun tíminn sem við verjum ekki í að vinna gera okkur að síðri einstaklingum?

Margir kvíða mjög fyrir því að láta af störfum og leita allra leiða til að fresta því eins lengi unnt er eða þangað til að manni er ýtt út fyrir þröskuldinn með nýtt gullúr um úlnliðinn fyrir vel unnin störf.

Þá er í greininni vitnað í viðtal við Theodór Magnússon, kerfisfræðing og ráðgjafa, sem birtist fyrir nokkru í Morgunblaðinu. Hans nálgun sé að mæta starfslokunum  á bjartsýnan og jákvæðan hátt. „Ég ákvað að hætta á eigin forsendum frekar en láta henda mér út, en 6. maí verð ég sjötugur og ætla að njóta lífsins hér eftir sem hingað til,“ segir hann í samtali við blaðið.

Theodór segir í viðtalinu að það sé mikilvægt að búa sig undir það að verða gamall og er ekki ánægður með almennt viðhorf samfélagsins til eldri borgara. Hann minnir á að það að verða eldri borgari sé ekki það sama og að stimpla sig út úr samfélaginu. Hann tekur þátt í Janusarverkefninu til að halda sér virkum, spilar bridds og leikur golf og líkir þessu við uppbyggingu starfsævinnar. Til að sjá fréttabréf Vöruhúss tækifæranna í heild, smelltu hér.

Ritstjórn júní 15, 2021 07:42