Sinn er siður í landi hverju

Helgi Pétursson

Helgi Pétursson formaður Landssambands eldri borgara skrifar. Greinin birtist fyrst í fréttabréfi Vöruhúss tækifæranna.

Oft undrast maður hversu mjög aðstæður og viðhorf geta verið gjörólík á milli þjóða, sem maður hefði að óbreyttu ekki talið að væru svo ólíkar hvor annarri.

Ég átti fund í morgun með litlum hópi fólks frá Póllandi. Fyrir hópnum fór ung pólsk kona, sem hefur búið hér í átta ár. Hópurinn vildi fræðast um aðstæður eldra fólks á Íslandi, lífeyrismál, húsnæðismál og þvíumlíkt. Þau voru þó öll úr framhalds- og endurmenntunargeiranum í Póllandi, sem ég hugsaði svo sem ekkert sérstaklega um, fyrr en liðið var á fundinn og umræðurnar.

Við ræddum aðstæður hér á landi, lífeyrissjóðakerfið, sem er einstakt fyrir Evrópu og þó víðar væri leitað, húsnæðismál, heimahjúkrun og landsspítala heillar þjóðar, sem verður ávallt að vera tilbúinn til að sinna öllu og öllum.

Svo barst talið að vinnuframlagi eldra fólks og kröfum okkar hér á landi um að afnema eigi skilyrt starfslok við tiltekinn aldur. Ég fór yfir það að eldra fólk vildi ráða því sjálft hvenær það hætti að vinna, ef það á annað borð vildi og gæti hætt að vinna, og umræður sem tengdust því. Við ræddum líka breytingar á þessu sviði sem hljóta að vera í pípunum, það að allir verði einfaldlega að vinna lengur en nú er, lífeyristökualdur verði hækkaður og um ýmsar aðrar breytingar sem munu fylgja vaxandi fjölda eldra fólks. Við töluðum líka um að um allan heim þyrfti að leysa þær áskoranir sem felast í auknum fjölda eldra fólks, sem ekki getur vænst þess að leggjast bara upp á yngri kynslóðir þegar þar að kemur. Sjálfur talaði ég um breytingar á tengslum innan fjölskyldnanna, hvernig afi og amma í dag eru bara frísk og í golfi og að samgangur milli kynslóðanna hefur minnkað.

Hin pólska Ewa, sem hér hefur verið búsett um hríð, fór að draga fram aðstæður í Póllandi mér til upplýsinga. Þar er þessu öfugt farið. Eldra fólk nýtur rótgróinnar virðingar og skipar sess í fjölskyldunni, sem ekki verður auðveldlega af þeim tekinn. Þar er það til dæmis niðurlægjandi fyrir fjölskylduna ef eldra fólki er komið fyrir á hjúkrunarheimilum. Börnum beri að sinna feðrum sínum og mæðrum, sem þau og gera, og Ewa nefndi mér dæmi um hversu mikið fólk legði á sig til þess að standa sína plikt. Fólk vinnur langt fram yfir sjötugt og það þykir ekkert tiltökumál. Einn athyglisverður vinkill er á því: Fólk fer að fá lífeyri um 65 ára aldur, sem er mun lægri en hér tíðkast, en heldur honum óskertum að viðbættum atvinnutekjum. Oftar en ekki þýðir þetta nokkur góð ár fyrir eldra fólk í Póllandi.

Og svo flykkist þetta fólk í nám. Fólk á öllum aldri stundar háskólanám í Póllandi og er hvatt til þess. Gestirnir sögðu mér frá þekktum og háöldruðum prófessorum, fólki með mikla reynslu og þekkingu, sem slegist er um að nema hjá. Ég hafði það á tilfinningunni, og hef enn, að hér á landi séum við að færast í hina áttina – það er að eldra fólki sé gert erfiðara fyrir að stunda nám, t.d. á háskólastigi.

Þá nefndu gestirnir Háskóla þriðja æviskeiðsins í Póllandi, systursamtök Háskóla þriðja æviskeiðsins Reykjavík, þ.e. U3A Reykjavík, sem þau sögðu njóta mikilla vinsælda í sínu heimalandi.

Ritstjórn september 29, 2021 09:18