Þegar börnin eru farin að heiman og menn eru komnir á eftirlaun, fara margir að líta í kringum sig og velta fyrir sér hvort það sé kominn tími til að selja húsið eða stóru íbúðina þar sem börnin ólust upp og minnka við sig. Er kannski best að drífa í að selja sem fyrst? Það er ekki við því að búast að fasteignaverð hækki mikið hér á landi á næstunni, hækkanir eru að minnsta kosti hægari núna, en þær voru síðast liðinn áratug. Þannig að það er líklega allt í góðu lagi að taka sér tíma í að skoða húsnæðismálin. Á vef eftirlaunafólks í Bandaríkjunum www.aarp.com er fólki ráðlagt að leggja málin vel niður fyrir sér, áður en það tekur þessa stóru ákvörðun. Bent er á nokkur atriði sem fólki er ráðlagt að skoða sérstaklega. Við stiklum hér á stóru í greininni og höfum einnig staðfært hana með tilliti til íslenskra aðstæðna.
Reiknaðu út hversu mikið þú átt í eigninni
Eitt sinn var hugmyndin sú að eftirlaunafólk gæri selt stóru eignirnar sínar, minnkað við sig og átt afgang til að njóta lífsins á efri árum. Þetta hefur breyst. Þegar fólk fer á eftirlaun í dag, skuldar það oft dágóðar upphæðir í húsnæðinu og á þar af leiðandi ekki endilega svo mikið í því. Við þær aðstæður er kannski ekki skynsamlegt að selja og flytja. Okkur á Lifðu núna er þó kunnugt um tvö tilvik, þar sem fólk sem er komið yfir miðjan aldur, seldi eignir hér með verðtryggðum lánum og flutti til Jótlands í Danmörku. Einnig eru dæmi um að eftirlaunafólk flytji til Spánar eða Berlínar og það segir að eftirlaunin endist betur þar. Á aarp vefnum er mönnum ráðlagt að láta verðmeta húsið sitt tímanlega, eða nokkru áður en þeir hugsa sér að setja það á sölu. Einnig að fá reiknað út hversu mikið fer í sölulaun vegna íbúðarinnar og hversu mikið í kostnað við viðgerðir sem þarf að ráðast í til að gera eignina söluvænlegri. Þá má heldur ekki gleyma kostnaðinum við að flytja. Stundum passa gömlu húsgögnin ekki í nýja húsnæðinu og þá þarf að kaupa ný. Stendur gamla húsið eða íbúðin undir þessum kostnaði?
Finndu nýja íbúð áður en þú selur
Hafa skal í huga að það getur verið meira mál en menn halda að finna nýtt húsnæði. Menn þurfa að fara vel yfir það hvernig húsnæði þeir vilja fá og hvar – og líka hvað þeir eru tilbúnir að borga fyrir það. Vilja þeir kaupa íbúð í nýbyggðu húsi eða eldra húsnæði? Þarf íbúðin að vera í Reykjavík, eða má hún vera á höfuðborgarsvæðinu? Í Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Hveragerði eða Selfossi? Allt þetta skiptir máli, því fasteignaverð er ákaflega mismunandi eftir stöðum. Við skoðuðum nokkrar nýjar þriggja herbergja íbúðir, á höfðuborgarsvæðinu, á Selfossi og í Reykjanesbæ. Íbúðirnar voru valdar af handahófi og eiga það eitt sameiginlegt að vera nýjar, byggðar á síðustu tveimur árum. Verðið var þannig:
- Reykjavík, Arnarhlíð, 82 fm. – Kr. 53.9 milljónir.
- Kópavogur, Nýbýlavegur, 83.6 fm. – 49.9 milljónir.
- Hafnarfjörður, Herjólfsgata, 92.5 fm. – Kr. 55.9 milljónir.
- Reykjanesbær, Dalsbraut, 82 fm. – 32.7 milljónir
- Selfoss, Álalækur, 97.3 fm. – Kr. 35.9 milljónir.
Á AARP vefnum er þeim sem hugsa sér að flytja í annað hverfi en þeir hafa búið í, eða í annan bæ, ráðlagt að skoða aðstæður á nýjum stað vel, áður en þeir drífa í að kaupa. Jafnvel að dvelja í bænum í eina eða tvær vikur, til að átta sig á hvort þeim líkar staðurinn eða ekki. Það er mikilvægt að rasa ekki um ráð fram, því ákvörðunin getur haft mikil áhrif á allt þitt líf á næstu árin eða áratugina.
Hafðu samaband við endurskoðanda eða TR
Ótrúlegt en satt, það kann að hafa áhrif á eftirlaun þín frá Tryggingastofnun ríkisins, ef þú skiptir um húsnæði. Það er ekki líklegt, ef menn selja íbúðarhúsnæði sem þeir hafa átt til margra ára, en það er sjálfsagt að ganga úr skugga um það áður en menn selja, hvort það geti haft áhrif á eftirlaunin þeirra og skattana. Það verður að athuga þetta vel. Fáðu endurskoðanda til að fara yfir málið og talaðu líka við Tryggingastofnun ríkisins til öryggis.
Hvað kostar að vera áfram í húsinu?
Það er rétt að íhuga að það kostar líka sitt að búa áfram í gamla húsnæðinu. Gerðu lista yfir viðhaldskostnað í íbúðinni eða húsinu þar sem þú býrð. Líka kostnað sem mun falla til eftir 5 ár, eða 10 ár. Þarf að skipta um þak, eða setja stólalyftu á milli hæða í húsinu? Allt kostar þetta og það hjálpar fólki við að vega og meta kostina við að selja og flytja, að setja þennan kostnað inní jöfnuna.
Að selja og gerast leigjandi?
Þú skalt ekki útiloka að selja húsið þitt og gerast leigjandi, segir í aarp greininni. Það er spurning hvort það á við hér á Íslandi þar sem leiguhúsnæði er bæði ótryggt og dýrt. Sumir hafa valið þá leið að kaupa sér íbúð í Búseta til að greiða upp skuldir eða losa peninga, eða festa sér íbúðir í tengslum við hjúkrunarheimili eins og til dæmis Mörk. Það ræðst hugsanlega af því á hvaða aldri fólk er, hvaða kostur er bestur fyrir hvern og einn. En hér gildir sem fyrr, það þarf að skoða þetta vel áður en ákvörðun er tekin.
Notaðu eignina til að búa í haginn
Ef þú velur að gerast leigjandi, geturðu notað það sem þú færð fyrir húsið, til að bæta við eftirlaunin, segir í bandarísku greininni. Það er líka hægt að hugsa sér að nota peningana sem sparast við að vera um kyrrt á gamla heimilinu, til að kaupa aðstoð, ef menn þurfa á henni að halda þegar aldurinn færist yfir. Er hugsanlega aukaherbergi í íbúðinni sem er hægt að leigja út í framtíðinni, ef þú þarft að aukapeningum a halda? Það er nytsamlegt að líta á húseignina sem leið, til að skapa sér þær aðstæður sem menn kjósa að búa við í framtíðinni, segir að lokum í greininni.