Þú verður að koma og bjarga okkur

Flateyri

Hinrik Greipsson viðskiptafræðingur hefur verið viðloðandi sjávarútveg með einum eða öðrum hætti allt sitt líf, enda rennur í honum vestfirskt sjómannsblóð. Sjö ára var hann farinn að aðstoða frænda sinn við að greiða úr netum. Hann átti að fá kaup eftir afköstum, en þegar frændinn sá hvað hann afkastaði miklu sagði hann. „Þú verður á mánaðarlaunum hjá mér!“.  Hann fékk að fara með honum út á trillu og fylgdist með lífinu við höfnina. Eftir landspróf fór hann á sjóinn um tíma og hugsaði sér að fara í Sjómannaskólann. En honum varð ekki kápan úr því klæðinu, því mamma hans þvertók fyrir það. „Hafið hefur tekið nógu marga úr þessari fjölskyldu“, sagði hún og sendi soninn í Menntaskólann á Akureyri.

Pólskar niðursuðuvörur og sokkabuxur með klofbót

Eftir stúdentspróf fór Hinrik enn á sjóinn og var boðið pláss á skipi sem Jóakim Pálsson frá Hnífsdal, gerði út. Áhöfnin var ung og þeir voru á veiðum norður undir Svalbarða í 2-3 mánuði án þess að koma nokkurn tíma heim.  Um haustið settist hann aftur á skólabekk og fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands. En hann átti ekki fyrir skólabókunum. Það var eitthvað lítið eftir af sumarhýrunni enda höfðu aflabrögðin ekki verið sérlega góð, þannig að hann vann meðfram náminu sem sölumaður hjá Íslensk-erlenda verslunarfélaginu. „Ég gekk upp og niður Laugaveginn með tvær töskur og bauð allt frá niðursuðuvörum frá Póllandi til kvensokkabuxna með klofbót“, rifjar hann upp. Hagur hans vænkaðist hins vegar þegar hann fékk vinnu hjá Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, hjá „Patton“.  Þar fékk hann gott kaup og þurfti ekki að taka námslán.

Var með þróunarsjóðinn á skrifborðshorninu hjá sér

Árið áður en Hinrik útskrifaðist úr Háskólanum réði hann sig sem tilvonandi viðskiptafræðing hjá Fiskveiðasjóði Íslands. „Þar var ég í vinnu í tæp 25 ár, eða þangað til sjóðurinn var lagður niður í árslok 1997“.  Hann hafði þá eins og hann orðar það verið með Þróunarsjóð sjávarútvegsins á skrifborðshorninu hjá sér frá árinu1994, en sjóðnum var fyrst og fremst ætlað að stuðla að því að fækka skipum í fiskveiðiflotanum sem var alltof stór.  Hann var eini starfsmaður sjóðsins og úrelti um 550 skip.  „Ég innheimti þróunarsjóðsgjöldin, sem segja má að hafi verið upphaf veiðigjaldanna“, segir hann. Sjóðnum var lokað árið 2005, en þá voru eignir hans 700 milljónir króna umfram skuldir.

Hinrik og eiginkona hans eru nýflutt í skemmtilega íbúð í Mörkinni

Var kallaður aftur til starfa

Þegar búið var að loka sjóðnum lá leið Hinriks í sjávarútvegsráðuneytið, eins og það hét þá. „ Ráðuneytið var að hefja úthlutun byggðakvóta og skrifstofustjórinn var fljótur að setja mig yfir í það“, rifjar hann upp. Hann byggði þar upp ásamt samstarfsmönnum sínum, sérþekkingu í þessum málaflokki og segir að það hafi enginn haft áhuga á þessu, vegna þess að það fylgdi starfinu mikið þras. En svo kom að því að hann eltist og hætti störfum í ráðuneytinu 2017, þá sjötugur. Hann var nýjum manni hins vegar innanhandar, en sá maður hætti fljótlega og fékk annað starf. Það var í janúar á þessu ári og þá fékk Hinrik símtal úr ráðuneytinu „Þú verður að koma og bjarga okkur!“ var kallið og það gerði hann.  Nýr maður var svo ráðinn síðast liðið vor og enn á ný fór Hinrik að setja hann inn í starfið, fiskveiðistjórnarkerfið og byggðakvótann.

Unga fólkið svo vel upplýst

Hinrik var því kallaður út vegna sérþekkingar sinnar á fiskveiðistjórnarkerfinu, þótt formlega væri hann kominn á eftirlaun. Honum finnst gaman að vinna með yngra fólki. „Maður þykist eitthvað reyndari og geta leiðbeint unga fólkinu“, segir hann „en ungt fólk í dag er bara svo vel upplýst“. Hann segist ekki verða var við að það sé litið á hann sem gamlingja á vinnustaðnum, þó árin segi ef til vill annað.  Hinrik hafði gaman af starfinu í ráðuneytinu og samskiptum við fólk útum allt land og segir að hann hefði alveg getað hugsað sér að vinna í 18 mánuði eftir sjötugt, en það sé ekki í boði hjá ríkinu. Viðreisn hafi á sínum tíma flutt þingsályktunartillögu á Alþingi um að ríkisstarfsmenn gætu fengið að vinna lengur en til sjötugs, en svo hafi ríkisstjórnin sem flokkurinn átti aðild að sprungið, þannig að ekki varð meira úr því.

Hinrik og Ásta eldast saman

Vesturbæingurinn gifti sig á Flateyri

Hinrik og eiginkona hans Ásta Edda Jónsdóttir eru nýflutt úr stóru raðhúsi í Melseli í Breiðholti í íbúð í Mörkinni í Reykjavík, en þar er fjöldi íbúða fyrir sextuga og eldri, sem tengjast samnefndu hjúkrunarheimili.  Þau kynntust á Hótel Sögu um áramótin 1971/72 og voru ekkert að tvínóna við hlutina. Þau giftu sig á Flateyri átta mánuðum síðar í ágúst 72.  Ásta er Reykvíkingur en tengist vestfjörðunum og amma hennar og nafna rak á sínum tíma blómabúð á Ísafirði. „Annars var hún vesturbæingur og ætlaði aldrei að flytja þaðan“, segir Hinrik og bætir því við að hún hafi svo bara verið ánægð í Seljahvefinu.  Húsið var rúmgott og það var stutt í skóla fyrir börnin sem voru fjögur þegar þau fóru að byggja, en síðan bættist það fimmta við.

Fluttu inn á jarðhæðina

Húsið þeirra var raðhús/parhús. Það var á þremur hæðum og á þeim tíma var aðgangur að lánsfé takmarkaður þannig að byggingin tók sinn tíma. „Við fluttum inn á jarðhæðina sem enginn gerir í dag“, segir Hinrik, en þau hjónin bjuggu í Seljahverfinu í 38 ár. „Svo ákváðum við um síðustu áramót að draga saman seglin og flytja á stað þar sem við gætum slakað á“, segir hann. Mörkin varð fyrir valinu, en Hinrik þekkti til þar, hafði verið í varastjórn Grundar og látið setja sig á lista yfir áhugasama um íbúðirnar. Þau fluttu í íbúðina um miðjan ágúst, en eru lítið farin að notfæra sér aðstöðuna þar ennþá.  „Þetta er orðið rúmlega 500 manna samfélag.  Hér er sundlaug og heitur pottur fyrir íbúana, tvö gufuböð, íþróttasalur og nuddbekkur. Svo er salur niðri sem heitir Mýrin, þar getur fólk hist, spilað, hlustað á upplestur eða rabbað saman. Þarna eru líka mötuneyti, kaffistofa og bar sem tengjast hjúkrunarheimilinu og íbúðunum sitt hvoru megin“.  Hinrik sýnir blaðamanni aðstöðuna sem er hin glæsilegasta og segir frá því að rúmlega 300 manns séu nú á biðlista eftir íbúðum þar.

Sundlaug og heitur pottur sem íbúar hafa aðgang að

Get ekki séð að við þurfum stærra

Hinrik og Ásta eru búin að koma sér vel fyrir í íbúðinni, en óneitanlega eru það viðbrigði að flytja úr 295 fermetra raðhúsi í 88 fermetra íbúð. „Hún er búin að setja hér inn allt sem hún mögulega getur“, segir Hinrik kíminn um konu sína. Sjálfum lýst honum mjög vel á sig á nýja staðnum. „Mér finnst þetta bara fínt. Þetta er rosalega þægilegt og ég get ekki séð að við þurfum stærra. Stundum var „uppselt“ hjá okkur í Melselinu og barnabörnin voru ekki endilega sátt við að afi og amma seldu húsið. „Þú mátt ekki selja afi, þetta er fjölskylduhús“ sögðu sum þeirra. En það er aukaherbergi í nýju íbúðinni og þar geta yngri barnabörnin gist.

Börn Hinriks og Ástu

Mikið dót í tvöfalda bílskúrnum

Það tók tíma að tæma raðhúsið í Melseli. En börnin hjálpuðu til við að koma dóti í Góða hirðinn, Rauða krossinn og Sorpu. Þau tóku líka eitthvað af því sjálf. Það var töluvert mál að tæma tvöfalda bílskúrinn sem Hinrik var búinn að safna miklu dóti í. Börnin höfðu líka fengið að geyma ýmislegt þar.  „En núna fór megnið af því og það er enginn eftirsjá, ekkert sem ég sakna eða finnst að ég hefði þurft að eiga lengur. Það er ákveðinn léttir að vera laus við þetta“, segir Hinrik.

Á lítið notað golfsett

Þau hjónin eru frekar heimakær. Þau ferðuðust mikið í störfum sínum hér áður fyrr. Ásta var skrifstofustjóri lagadeildar í Háskóla Íslands og þegar Hinrik var í stjórn Norræna bankamannasambandsins þurfti hann að sækja fundi út nokkrum sinnum á ári.  Þegar hann er spurður hvað þau hjónin ætli að taka sér fyrir hendur á efri árunum segist hann hafa rosalega gaman af að veiða. „Svo á ég golfsett sem er lítið notað, ég get alveg hugsað mér að slá nokkrar holur. Við gætum líka ferðast innanlands, við eigum eftir að sjá heilmargt hér heima“, segir hann.

Barnabörnin sjá eftir fjölskylduhúsinu

Það verða ekki allir 100 ára.

Hinrik segist ekki óttast ellina. Hann greindist með blöðruhálskrabbamein árið 2006 og fór til Svíþjóðar ári síðar og lét drepa það, eins og hann kemst að orði. Ári seinna fékk hann kransæðastíflu. „Fjölskyldan var kölluð á spítalann til að kveðja mig, en mér fannst ég ekki veikur“, segir hann. „Auðvitað veit maður að eitthvað getur gefið sig, það verða ekki allir 100 ára. Heilsan skiptir meira máli með aldrinum og það gengur vonandi allt vel. Ég sé ekki fyrir mér að ég sitji hérna úti á svölunum og bíði eftir matnum á meðan heilsan er í lagi“.

Ritstjórn september 6, 2019 06:29