Trosnuð systkinasambönd -hvað er til ráða

Samskipti systkina á miðjum aldri geta verið afar flókin. Systkinasambönd hafa tilhneigingu til að trosna með árunum. Ekki vegna þess það sé ætlunin heldur er það eitthvað sem gerist eftir að fólk giftist, eignast börn og þarf oft að vinna 40 til 50 tíma á viku, árum saman. En það er til mikils að vinna að halda góðu sambandi við systkini sín. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem á í góðum samskiptum við sitt nánasta fólk er bærði heilbrigðara og hamingjusamra, segir prófessor Geoffrey Greif við Háskólann í Maryland. Í viðtali við vefinn aarp.org segir hann að það geti verið eðlilegt að bera mismunandi tilfinningar í brjósti til systkina sinna, jafnvel þó fólki þyki afar vænt um þau. Greif segir að góð sysktkinasambönd séu nauðsynleg á öllum aldri en ekki hvað síst þegar fólk eldist, verður eitt eða veikist.

„Bræður og systur geta haft veruleg áhrif á velferð þína – jafnvel núna,“ segir hann.  Margar rannsóknir sýna að fólk með sterk félagsleg tengsl er hamingjusamara og heilbrigðara en þeir sem eru einmanna. Góð sykstkinasambönd verða enn mikilvægari þegar fólk eldist og foreldrarnir verða veikir eða falla frá.  Ef að böndin hafa trosnað í áranna rás þá bendir Greif á nokkrar leiðir til að laga systkinasambönd.

Greif segir að besta leiðin til að endurnýja systkinasambönd sé að fólk tali saman og segi hvernig það vilji haga samskiptunum. Hann bendir á að mjög oft hafi fólk mismunandi skoðanir á því hvernig sambönd eigi að vera. Spyrjið systkini ykkar hvernig þeim lítist á að hittast oftar eða hringja oftar hvert í annað. Reynið hins vegar ekki að leysa flókin samskiptavandamál, vandamál sem hafa plagað ykkur frá barnæsku, með einu símtali.  Fáið sérfræðinga í lið með ykkur við að leysa þau segir hann. Forðist að ræða hluti eins og trú- eða stjórnmál ef þið vitið að skoðanir á þeim eru andstæðar. Slíkar samræður geta auðveldlega farið úr böndunum og  gert hlutina margfalt verri.

Það getur verið erfitt gleyma erfiðum atburðum sem áttu sér stað á æskuheimilinu. Ein leið er að hittast annars staðar en þar eða í grennd við æskuheimilið. Fólk er fljótt að fara aftur í sömu hlutverkin og það lék sem börn ef það gengur inn í gamalkunnar aðstæður. Reynið líka að koma ykkur í kynni við vini systkina ykkar eða vinnufélaga það getur hjálpað ykkur að sjá systkini ykkar í nýju ljósi, segir Greif.

Farið saman í ferðalag. Þið getið farið í sumarhús, veiðiferð, göngutúr eða hvað annað segir Greif. Galdurinn er hins vegar að fara bara með systkinum sínum en skilja makana eftir heima. Þeir geta haft verulega truflandi áhrif á samskipti sem verið er að reyna að bæta. Stillið væntingum í hóf og hafið í huga að það er ekki hægt að bæta hálfrar aldar léleg samskipti á tveimur sólarhringum.

Búið til tíma hvert fyrir annað. Þegar kemur að því að forgangsraða er makinn, börnin jafnvel heimilishundurinn þau sem þið viljið helst verja tíma ykkar með. Það er hins vegar hægt að byrja rólega og taka frá ákveðinn tíma t.d sunnudagsmorgna þar sem þið hafið samband við systkini ykkar. Reynið að gera þessar stundir að gæðastundum. Þetta þarf ekki að vera löng stund en hún á að gera góð, segir Greif.  Ekki spyrja hvernig mamma eða pabbi hafi það, spyrjið heldur hvernig hefur þú það. Ef ykkur finnst þið ekki þekkja systkini ykkar nógu og vel til að halda uppi léttu spjalli getið þið velt því fyrir ykkur hvað þið myndið segja við þetta fólk ef þið hittuð það í veislu eða á förnum vegi.

 

Ritstjórn nóvember 22, 2018 07:40