Harpa Hörn Helgadóttir lögmaður skrifar:
Í dag er enginn maður með mönnum nema vera í góðu sambandi við innra sjálfið, nærast og lifa í núvitund, stunda köld böð, hugleiða og taka á móti gleði og hamingju. En lífið er fallvalt og hverfult, engin veit sína ævi fyrr en öll er. Hvernig sem samband okkar við innra sjálfið kanna að hafa verið í lifanda lífi, að okkur liðnum, varðar mestu samband okkar og nánustu á meðan var og hét og hvernig skipta skal dánarbúinu.
Ekki er úr vegi að hvetja mann og annan að kynna sér gildandi réttarreglur eða leita sér sérfræðiaðstoðar um þau lagalegu úrræði er gilda um skiptingu dánarbús. Breytir engu á hvaða aldri við erum. Slík forsjálni er til þess að einfalda og auðvelda það sem ekki verður komist undan, skiptum dánarbúsins, og stuðla að sem mestu hagræði og sanngirni fyrir þá sem erfa okkur. Réttarreglum, erfðalögunum, er ætlað að stuðla að hinu sama enda byggð á sanngirnissjónarmiðum.
Á heimasíðu Lifðununa.is er að finna gagnabanka og ýmsar greinar er snúa að erfðamálefnum. Helstu réttarreglur í þeim efnum eru erfðalög nr. 8/1962 (https://www.althingi.is/lagas/149a/1962008.html) og nú verða raktar hvað varðar erfðir og arftaka.
Arfleifandi er hinn látni. Erfingi er hins vegar sá sem er hæfur til að eiga rétt og bera skyldur. Samkvæmt þessu geta einstaklingar, ýmis félög, stofnanir eða samtök verið arftakar. Erfingi getur verið svokallaður bréferfingi eða lögerfingi. Bréferfingi er oftast erfingi samkvæmt erfðaskrá en lögerfingi samkvæmt lögum. Aðilar eins og fyrirtæki og stofnanir geta almennt ekki tekið arf nema sem bréferfingjar á meðan einstaklingar geta bæði verið bréferfingjar eða lögerfingjar.
Erfðalögin raða lögerfingjum í erfðaröð eftir fyrstu, annarri eða þriðju erfð þar sem hver erfð tæmir arfinn gagnvart næsta flokki á eftir. Fyrstir í flokki lögerfingja eru skylduerfingjar, þ.e. maki og börn arfleifanda. Skylduerfingjarnir tæma almennt allan arfinn í ákveðnu hlutfalli sín á milli án þess að nokkuð komi í hlut annarra lögerfingja samkvæmt næstu erfðum á eftir, þ.e. foreldra og þeirra niðja (önnur erfð), afa og/eða ömmu (þriðja erfð). Til nánari skýringa má taka dæmi um barnlaus hjón. Sá maki sem lifir lengur erfir allar eignir hins látna, að meginreglu helming hjúskapareigna. Sé hins vegar um að ræða hjón sem áttu saman barn þá fær barnið 2/3 eigna hins látna en eftirlifandi maki 1/3 hluta eignanna. Í tilvikum þar sem um er að ræða fleiri börn en eitt skiptist þeirra hlutur jafnt á milli þeirra. Samkvæmt erfðalögunum skiptir máli hvort að um sé að ræða sameiginleg börn hjóna í eiginlegri merkingu eða stjúpbörn. Í þeim tilvikum sem um er að ræða stjúpbörn skiptir máli hvort að um sé að ræða stjúpbarn hins látna eða stjúpbarn eftirlifandi maka. Í lagalegum skilningi er stjúpbarn ekki barn stjúpforeldris nema sá hinn sami hafi ættleitt það sérstaklega. Stjúpbörn teljast því ekki til lögerfingja fyrstu erfðar og erfa því ekki stjúpforeldri sitt nema óbeint í gegnum blóðforeldri sitt. Sé stjúpbarn til staðar kann það auk þess heldur að hafa áhrif á rétt hins eftirlifandi maka til setu í óskiptu búi eður ei. Verður fjallað um þær réttarreglur síðar.
Ekki kemur til greina að rýra hlut skylduerfingja nema að vissu marki, en þá er algengast að mælt sé fyrir um þá skerðingu í erfðaskrá. Séu skylduerfingjar til staðar þá getur arfleifandi ekki ráðstafað meir en sem nemur 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá. Ef að engir skylduerfingjar eru til staðar er arfleifanda frjálst að ráðstafa öllum sínum eignum með erfðaskrá. Breytir engu með lögerfingja samkvæmt næstu erfðum á eftir. Um form erfðaskrár og hvernig staðið skal að slíkum gerningum gilda hins vegar strangar reglur og gerð verður grein fyrir síðar.
Mikilvægt er að hafa í huga að með maka í skilningi erfðalaganna er einungis átt við þann sem var í hjónabandi með hinum látna. Hafi aðilar ekki verið í hjónabandi er réttarstaðan önnur en að ofan greinir. Sambúðaraðilar erfa ekki hvort annað samkvæmt lögunum enda einungis maki skylduerfingi, ekki sambúðaraðili. Hins vegar er hægt að kveða á um erfðarétt sambúðaraðila með erfðaskrá og þá að sá hinn sami skuli erfa eignir hins látna að öllu leyti séu engir skylduerfingjar til staðar, ella einungis 1/3 eignanna og áður er rakið.
Að lokum má nefna að skylduerfingjar geta afsalað eða hafnað erfðarétti en arfleifandi getur almennt ekki gert þá arflausa, þ.e. með erfðaskrá eða öðrum dánargerningi. Þá kann arfur í einhverjum tilvikum að ganga til ríkisins (fjórða erfð) hafi hinn látni hvorki átt lögerfingja (niðja, með vissum takmörkunum) né tilgreint erfingja samkvæmt erfðaskrá.
Sjá nánar: