Erfiðast ef barnabörnin tala ekki íslensku

„Það sem er erfiðast fyrir afa og ömmur sem eiga barnabörn í útlöndum, er að geta kannski ekki rætt við þau á íslensku“, segir Kristinn Jónsson afi, en hann og konan hans Sigurlaug (Stella)Bjarnadóttir eiga þrjú barnabörn sem búa erlendis. Kristinn og Stella eiga þrjú börn og fimm barnabörn.  Elsta dóttir þeirra býr í Bandaríkjunum en hún á þriggja og hálfs árs dóttur og sonur þeirra sem er yngstur systkinanna, býr í Danmörku.  Hann á tvö börn, son sem er fimm ára og dóttur sem er þriggja ára. Hann og kona hans eiga svo von á þriðja barninu. Miðdóttirin býr hins vegar í Fossvoginum með tvær dætur átta ára og fjögurra ára.

Börn Stellu og Kristins með barnabörnin fimm

Talaði dönsku við bandaríska tengdasoninn

Kristinn og Stella minnkuðu nýlega við sig húsnæði og fluttu úr vesturbænum í Fossvoginn, en dóttir þeirra var áhugasöm um að fá þau þangað.  Börnin sem búa í útlöndum eiga erlenda maka, þannig að þau eiga bandarískan tengdason og danska tengdadóttur. En hvaða mál skyldu þau tala þegar fjölskyldan kemur öll saman. „Ef allir eru með er töluð enska, auk íslenskunnar“, segir Stella.  Þeim hjónum er danskan hins vegar tamari enda lærðu þau á sínum tíma í Danmörku. „Það getur verið erfitt að skipta á milli og eitt sinn var ég búin að tala dágóða stund við enskumælandi tengdason minn á dönsku, en hann var of kurteis til að segja nokkuð og kinkaði bara kolli“, segir hún og brosir.

Gat talað íslensku við afa og ömmu

Stella og Kristinn fara árlega til Bandaríkjanna til að hitta dóttur sína og fjölskyldu hennar, en þau búa í Kingston í New York fylki.  Dóttir þeirra talar íslensku við dóttur sína sem nú er þriggja og hálfs árs. Hún svarar henni hins vegar alltaf á ensku.  Þegar afi og amma voru í heimsókn hjá þeim í sumar, kom í ljós að ömmu- og afastelpan talar íslensku.  Þegar þau voru að leika við hana, fór hún að svara þeim á íslensku. Hún var svolítið stirð í byrjun og þurfti að hugsa sig um en gat samt talað við afa og ömmu á íslensku.  Móðir hennar varð mjög glöð, þegar hún heyrði þetta, því sú stutta talar ekki íslensku við hana. Þær mæðgur eru væntanlegar í heimsókn til Íslands fljótlega og þá stendur til að æfa hana meira í íslenskunni.

Hafa reynt að nota Skype

Barnabörnin í Danmörku tala hins vegar bara dönsku. Þar sem afi og amma kunna líka dönsku bjargast það, en næsta sumar stendur til að drengurinn sem þá verður sex ára komi og verði um tíma hjá afa og ömmu til að æfa sig í íslenskunni.  Stella segir að sambandið við ömmustelpurnar tvær í Fossvoginum sé öðruvísi en við barnabörnin í útlöndum, fyrst og fremst vegna þess að þau hitti þær oftar. Þau hafi reynt að nota Skype til að halda sambandinu við barnabörnin sem eru úti og June sem býr í Bandaríkjunum hafi verið áhugasöm um það í fyrstu. „Hin börnin sögðu hæ og bæ, en nenntu ekki að sitja yfir þessu“, segja þau „en þau vita hvernig við lítum út og heyra í okkur þannig að þegar við hittumst erum við ekki alveg ókunnug fyrir þeim“.  Þau reyna líka að halda sambandinu við með því að heimsækja börnin sín sem búa úti. Það er auðveldara eftir að þau hættu að vinna, sérstaklega að hoppa til Damerkur, en sonur þeirra býr í Hvidövre (Hvidovre) sem er nágrannasveitarfélag Kaupmannahafnar. Þau fara til Bandaríkjanna einu sinni á ári og dóttirin kemur svo árlega í heimsóknir til Íslands.

Ekki sama úthald og með eigin börn

Eins og flestir afar og ömmur eru þau ánægð með hlutverkin, sem Stella segir að séu að mörgu leyti lúxushlutverk.  Kristinn segir að það taki að vísu á að passa lengi í einu. „ Maður hefur ekki sama úthald og maður hafði með sín börn“, segir Kristinn „Ég heyri marga jafnaldra mína segja það sama. Það er mjög gaman að fá barnabörnin í heimsókn en það er líka ágætt þegar þau fara aftur heim. Ég myndi ekki halda út að vera stöðugt með lítil börn“. Hann segir þetta að vísu auðveldara þegar börnin stækka. „Ég sé það með afastelpuna sem er orðin átta ára, það er öðruvísi. Það er hægt að lesa bók, eða spjalla við hana. Maður þarf ekki að skríða á eftir henni um gólfin“.  Stella segir að það sé gaman að fylgjast með þeim og sjá þau vaxta og þroskast. „Svo eru þau svo skemmtileg og ólík. Systurnar tvær sem búa hér í Fossvoginum eru til dæmis mjög ólíkar. Önnur þeirra er alger strákastelpa, enda semur henni vel við frænda sinn í Danmörku. Kristinn bætir við að það sé alltaf mjög gaman að hitta barnabörnin. „Þau koma hlaupandi og fagna manni svo innilega“, segir hann.

Öllum finnst gaman í sundi

Fjölskyldan frá Danmörku er nú í heimsókn hjá afa og ömmu í Fossvoginum. Þó þau séu búin að minnka við sig húsnæði segja þau að það gangi ótrúlega vel. „Við sofum á svefnsófa í stofunni en þau hafa herbergin“ segja þau og Kristinn svaf einmitt síðustu nótt hjá afastráknum sínum, en hann var búinn að spyrja hann margsinnis að því  hvort hann vildi ekki gera það. „Hann er vanur því að móðurafi hans í Danmörku sofi hjá honum þegar þeir eru saman“, segir Kristinn og bætir við að honum hafi líklega fundist þetta vera eitthvað sem hann gerir með afa.  Þau hafa verið á ferð með dönsku fjölskyldunni um landið, eru til dæmis búin að fara tvo daga austur til að sýna tengdadótturinni meira af Íslandi. Áður voru þau búin að fara á heimaslóðir Stellu á Norðurlandi.  Þau fara líka mikið í sund. „Íslensku sundlaugarnar eru alltaf vinsælar og ég held að tengdabörnin hafi ekki sambærilegar laugar hjá sér. Það finnst öllum gaman í sundi, það klikkar ekki“, segir Kristinn.

Ekki meira mál að eiga barnabörn í Danmörku en á Egilsstöðum

Þau ítreka að það sé öðruvísi samband við barnabörnin í útlöndum en hér heima, af því þau hitti þau sjaldnar. „Við erum tiltölulega heppin. Það er stutt að fara til Kaupmannahafnar. Við þekkjum fólk sem á barnabörn í Ástralíu og það er mun erfiðara. Það er ekki meira mál að eiga barnabörn í Danmörku, en á Egilsstöðum eða Ísafirði. Það er til dæmis oft ófært til Ísafjarðar á veturna. Það er erfiðast að geta ekki talað við barnabarnið á móðurmálinu.  Fríða dóttir okkar í Bandaríkjunum var svo glöð að June skyldi geta talað íslensku. Hún vissi ekki að hún gæti það. Það skiptir greinilega máli að foreldrarnir haldi íslenskunni við. Það er bónus fyrir okkur afa og ömmu, og líka fyrir barnið að hafa vald á tveimur tungumálum“, segja þau Kristinn og Stella að lokum.

 

 

Ritstjórn ágúst 3, 2017 10:00